Mágurinn: Fótboltasaga mín 3/100

23. ágúst 2003. HK 4 : Þór 1

Áhuga okkar hjóna á fótbolta er mjög misskipt. Steinunn segist hafa séð einn fótboltaleik á ævinni. Það var vináttuleikur Íslands og Færeyja sem leikinn var í Neskaupstað fyrir löngu, þar sem allir bæjarbúar mættu. Tengdamóðir mín er viðlíka áhugasöm um íþróttina fögru.

Gvendur mágur minn (sem er reyndar aldrei kallaður Gvendur, mér finnst það bara svo skemmtilegt gælunafn) spilaði hins vegar fótbolta – og gerir jafnvel enn með hipsteraliðinu Mjöðm. Þegar við Steinunn byrjuðum saman síðla árs 2001 var hann að æfa með HK, reyndar af síminnkandi krafti.

Ég fylgdist að sjálfsögðu með því á KSÍ-vefnum hvernig HK-liðinu gengi og hafði alltaf á bak við eyrað að kíkja á leik ef vel stæði á. Færið gafst síðla sumars 2003. Þriðji flokkur HK var á fljúgandi siglingu í B-deild Íslandsmótsins og á góðri leið með að tryggja sér sigurinn þar á kostnað Breiðabliks, sem þykir ekki leiðinlegt í þem hluta Kópavogsins.

HK tók á móti Þór í Fagralundi á virku kvöldi í frábæru veðri. Okkur var boðið í mat til tengdó og ég tilkynnti að ég ætlaði að skella mér á leikinn. Greinilegt var að mæðgunum þótti það hin furðulegasta hugmynd og greinilega aldrei haft ímyndunarafl í að mæta og horfa á strákinn spila. (Hér væri viðeigandi að koma með hugvekju um nútímabörn sem upplifa ekki annað en foreldrana sitjandi yfir hverri einustu túrneringu eða íþróttamóti.)

Og ég trítlaði niður í Fagralund. Leið auðvitað eins og boðflennu, enda mæta engir á yngriflokkaleiki aðrir er aðstandendur, nokkrir stjórnarmenn frá viðkomandi íþróttafélagi og fáeinir skólafélagar. Því síður gat ég gírað mig í að fara að klappa eða hrópa með öðru liðinu. Gvendur mágur sat líka á bekknum þar til að kortér var eftir, þegar honum var skipt inn á í vörnina. Þá var leikurinn löngu búinn og staðan orðin 4:1 fyrir heimamenn.

HK var miklu betra liðið og allir vissu hver væri bestur. Rúrik Gíslason var mesta efnið og framtíðaratvinnumaður. Ekkert tók ég hins vegar eftir Aroni Einari Gunnarssyni í Þórsliðinu og því síður markverðinum Arnóri Þór Gunnarssyni í Þórsliðinu eða Ólafi Bjarka Ragnarssyni í HK-vörninni, sem eru víst landsliðsmenn í ruðningi og peysutogi í dag. Svona er maður nú blindur á umhverfi sitt.

(Mörk HK: Sigurður Víðisson 2, Þórhallur Siggeirsson, Guðmundur Atli Steinþórsson. Mark Þórs: Þorsteinn Ingason.)

* * *

Viðbót: Guðmundur Einar uppástendur að hann hafi lagt upp fjórða mark HK og að ég hafi hrósað honum sérstaklega fyrir sendinguna. Mögulega er því mótavefur KSÍ rangur að þessu leyti (og ekki í fyrsta sinn).