Útskriftin: Fótboltasaga mín 4/100

 11. júní 1998. Chile 1 : Austurríki 1

Ég útskrifaðist úr sagnfræðinni vorið 1998. Kláraði á sex önnum sem var fátítt, enda áttu ansi margir nemendur það til að ýta BA-ritgerðinni á undan sér. Þar spilaði inní að skólinn stóð sig afleitlega í að halda nemendum að verki. Nemendur völdu sér ritgerðarefni og skiluðu svo eftir dúk og disk einhverjum hlemmum, sem oft og tíðum voru afrakstur alltof mikillar vinnu miðað við einingafjölda.

Ef eitthvað var ólu kennararnir á þessu. Ekkert hámark var á lengd ritgerða og í náminu var okkur bent á úrvals BA-ritgerðir, sem í raun voru hálfgildings mastersritgerðir og auðvitað slógu þær tóninn. Ritgerðin mín var rúmar hundrað síður, reyndar með nokkuð stóru letri.

Á vormisserinu meðan ég vann að ritgerðaskrifunum var ég ráðinn til Rafmagnsveitunnar að sjá um Minjasafnið. Það átti að vera eins árs verkefni, en teygðist svo allhressilega. Ég hafði hálft í hvoru reiknað með að fresta útskrift til haustsins til að geta snurfusað ritgerðina, en þegar leið að skiladegi rak ég augun í launatöflu og fattaði hversu mörgum þúsundköllum það munaði á mánuði að hafa gráðuna. Þar sem ég var í húsnæðiskaupahugleiðingum tímdi ég ekki að bíða með launahækkunina til haustsins og náði að skila inn handriti á allra-allra-allra síðasta séns, með því að láta Gísla Gunnarsson bíða frameftir í Árnagarði til að smeygja ritgerðinni inn á skrifstofu eftir lokun.

Og þar með var komið að brautskráningu á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Það varð úr að halda smáveislu. Öðrum þræði vegna þess að ég hafði ekkert gert í kringum tvítugsafmælið nokkrum misserum fyrr. Það voru pantaðar snittur og pabbi galdraði fram köku sem hann hafði látið tertuskreytingarkonu útí bæ skreyta með myndum af Gasstöð Reykjavíkur – en BA-ritgerðin var einmitt um sögu hennar.

En hvað þá með sjálfa seremóníuna? Ég hlakkaði ekkert sérstaklega til að sitja í marga klukkutíma í Laugardalshöll að hlusta á rektor þylja upp nöfn mörghundruð manna og taka í spaðann á þeim. Og svo þurfti jú eitthvað að undirbúa partýið.

Málið leystist með sjónvarpsdagskránni. Heimsmeistarakeppnin í Frakklandi stóð yfir og á sama tíma og útskriftarathöfnin stæði yfir yrði leikur Chile og Austurríkis í sjónvarpinu.

Nú var leitun að minna áhugaverðum leik á mótinu. Chile var tveggja manna lið byggt utan um Salas og Zamorano. Austurríki var gríðarlega óspennandi og Toni Polster næstur því að vera þekkt nafn. – En þegar kemur að riðlakeppni HM er ekki spurt að slíku. Í fyrstu tveimur umferðunum eða svo er enginn leikur svo óspennandi að maður gefi honum ekki séns. Oftar en ekki endar það svo á algjörri fótboltamettun fljótlega eftir að komið er í útsláttarkeppnina og maður verður þeirri stundu fegnastur þegar mótinu loksins lýkur.

Chile : Austurríki var skólabókardæmi um þetta. Tvö frekar leiðinleg lið mættust í leik sem engum að óvörum varð frekar leiðinlegur. Riðillinn hafði þann eina tilgang að finna út hvaða lið myndi hafna í öðru sæti á eftir Ítölum og þar með mæta Brasilíu í næstu umferð. En leiðindi eða ekki – þetta voru a.m.k. HM-leiðindi og heima sat ég og horfði á leikinn.

Líkt og á móti Kamerún í fyrstu umferðinni, tryggðu Austurríkismenn sér jafntefli með marki á lokamínútunni. Í lokaleiknum gegn Ítölum skoruðu þeir líka á 90.mínútu, en töpuðu þeim leik 2:1. Það hlýtur samt að vera einhvers konar met að ljúka stórmóti með þrjú mörk – sem öll voru skoruð í uppbótartíma.

Síðar lauk ég MSc-gráðu í Edinborg, en tímdi hvorki né nennti að fara út í útskriftina og lét bara senda mér skjalið. Þegar Steinunn kláraði BA-gráðuna sína skrapp hún í heimsókn austur til Norðfjarðar og ekki nenntum við á MA-útskriftina hennar, enda kosningabarátta fyrir Alþingiskosningarnar í fullum gangi. Við erum greinilega ekki útskriftatýpur, enda tökum við væntanlega hvorugt doktorinn – menn verða víst að mæta í vörnina…

(Mark Chile: Marcelo Salas. Mark Austurríkis: Ivica Vastic)