Slátrunin: Fótboltasaga mín 5/100

7. nóvember 1987. Manchester City 10 : Huddersfield 1

„Hvað segir þú um stöðu Vilhjálms?“ – spurði einhver blaðamaðurinn Davíð Oddsson fyrir margt löngu og var þar augljóslega að vísa til Vilhjálms Þ. sem kominn var í klandur í borginni. „Hvað segir þú um stöðu Huddersfield?“ – svaraði Davíð og þóttist ekkert skilja. Tilsvarið þótti hnyttið.

Það fer tvennum sögum af því hversu mikinn áhuga Davíð hafi á fótbolta. Hann mun reyndar vera Framari, en ég hef þó alltaf reynt að stilla mig um að láta hann njóta þess. Hafi Davíð fylgst með enska boltanum á unglingsárum sínum gæti hann munað eftir tiltölulega öflugu Huddersfield-liði. Mín kynslóð tengir Huddersfield hins vegar bara við einn leik.

Á seinni hluta níunda áratugarins fengu fótboltaáhugamenn eina beina útsendingu í viku frá Englandi. Það var laugardagsleikurinn, sem enginn mátti missa af. Markaskorurum í öðrum leikjum á getraunaseðlinum var skotið upp á skjáinn, en þeir óþolinmóðu vildu vera nokkrum mínútum á undan silakeppunum í útsendingarstjórninni og hlustuðu á knattspyrnuþátt BBC á langbylgjunni.

Stundum gerðist það að auglýstir sjónvarpsleikir frestuðust á síðustu stundu, t.d. vegna veðurs. Þá brugðu ensku sjónvarpsmennirnir oft á það ráð að flytja búnað sinn yfir á næsta völl þar sem eitthvað var á seyði. Landafræðin réði þar meiru en sjálfar viðureignirnar.

Það voru þessi sjónarmið sem réðu því að leikur Manchester City og Huddersfield var sýndur í nóvember 1987. Þessa helgi áttu Liverpool og Nottingham Forest að mætast, liðin í fyrsta og fjórða sæti efstu deildar. En á síðustu stundu fékk Bobby Robson landsliðsþjálfari Englands leiknum frestað vegna yfirvofandi landsleiks.

Þó ákvörðunin hafi ekki verið tekin samdægurs, hefur sjónvarpsstöðin væntanlega verið búin að bóka hótelherbergi fyrir tökuliðið og senda myndavélarnar norður í land. Öðruvísi er erfitt að skilja þá ákvörðun að velja viðureign City og Huddersfield.

Manchester City var um þessar mundir rétt fyrir neðan miðja næstefstu deild, en Huddersfield átti martraðartímabil, eitt og yfirgefið á botninum. Eftir að hafa rekið stjórann snemma um haustið tók Malcolm MacDonald við. Þetta tímabil varð til þess að drepa þjálfunaráhuga þessarar gömlu Luton-goðsagnar (sem sumir aðrir tengja kannski við Newcastle eða Arsenal). Hann þjálfaði aldrei aftur fótboltalið þrátt fyrir að vera rétt innan við fertugt.

Ég geri ráð fyrir að fréttirnar af útsendingu frá Huddersfield-leik hafi vakið gleði mína. Á þessum árum „safnaði maður liðum“. Nýtt lið séð í sjónvarpi = nýr kross í kladdann.

Ekkert gat þó búið mann undir það sem í vændum var. Huddersfield-liðinu var gjörsamlega slátrað. 3:0, 5:0, 7:0… Ég hafði aldrei séð svona tölur í alvöru fótboltaleik.

Og allt í einu var ég (sem vafalítið hélt með botnliðinu í upphafi leiks) farinn að æsast upp í hvert sinn sem City fór framar á völlinn. Ég varð svekktur þegar Huddersfield fékk víti og minnkaði muninn í 9:1 undir lokin – en aftur kátur þegar tveggja stafa tölunni var náð á lokamínútunni. Mér fannst gaman að horfa upp á litla liðið sundurspilað og niðurlægt. Það er nú ekkert til að vera sérstaklega upp með sér yfir, en svona virkuðu jú rómversku hringleikahúsin líka.

(Mörk Manchester City: Paul Stewart 3, Tony Adcock 3, David White 3, Neil McNab. Mark Huddersfield: Andy May)