7. nóvember 2003. Thurrock 1 : Luton 1
Kosningarnar 2003 urðu vonbrigði fyrir VG. Búist hafði verið við fylgisaukningu en í staðinn tapaði flokkurinn manni og íhaldið og Framsókn fengu áframhaldandi umboð til að stjórna landinu, rétt eftir að hafa gengist í ábyrgð fyrir Íraksstríðinu. Næstu mánuðina sleiktu menn sárin, en á landsfundinum í nóvember var bráin farin að hýrna á mannskapnum. Varaformannsembættið lá á lausu og Katrín Jakobsdóttir ætlaði að bjóða sig fram.
Landsfundurinn var haldinn í Hveragerði og þar voru mikil partý milli funda. Sögur gengu um hörðustu djammarana sem ákváðu að skella sér berrassaðir í heita pottinn seint um nóttina, en urðu kindarlegir þegar þeir mættu fyrstu morgunhönunum. Við Steinunn gistum á hótelinu, en ungliðarnir voru velflestir á ódýrara gistiheimili í grenndinni. Á sunnudagsmorgninum var enginn úr þeirra röðum uppistandandi eða með nægilegri rænu til að þeir kæmu að gagni, svo Steinunn var pínd í uppstillingarnefnd, skelþunn og vansvefta. – Sem sagt: fínn fundur.
En það var eitt vandamál. Daginn sem fundurinn var settur, átti Luton leik í fyrstu umferð enska bikarsins í beinni sjónvarpsútsendingu. Allt benti til að þetta yrði eini sjónvarpsleikur Luton á keppnistímabilinu. 2003-04 var liðið í þriðju efstu deild og frekar vonlítið um að komast í umspil. Útileikur gegn Thurrock náði hins vegar að vekja athygli Sky-stöðvarinnar. Thurrock var mörgum deildum neðar og í fyrsta sinn komið í aðalkeppni enska bikarsins. Viðureignin var því færð yfir á föstudagskvöld og sýnd beint.
Mér fannst ómögulegt að vita af Luton í sjónvarpinu, en vera sjálfur lokaður inni á fundi að hlusta á VG-fólk tala um kosningaúrslit. Dagana á undan hringdi ég því í alla pöbba í Hveragerði og á Selfossi, en í ljós kom að engir buðu upp á fótbolta á föstudagskvöldum.
Þá var bara eitt í stöðunni: keyra til Reykjavíkur. Ég byrjaði því daginn á að skutla Steinunni austur fyrir fjall, verða mér út um fundargögni og spjalla við fólk. Brunaði svo í bæinn og náði inn á Ölver nánast á sömu mínútu og flautað var til leiks. Vertinn varð frekar pirraður að þurfa að kveikja á útsendingunni fyrir einn mann – sem þess utan keypti engan bjór heldur bara hamborgara og kókglas.
Og leikurinn var ferlegur. Thurrock-stuðningsmennirnir voru að upplifa sína stærstu stund og liðið barðist eins og ljón. Lutonmenn voru sérhlífnir og ætluðu greinilega ekki að gera meira en þurfti og bíða eftir að heimamenn sprengdu sig. Sú taktík virtist ætla að virka. Emmerson Boyce skoraði á 39. mínútu og þá hefði björninn átt að vera unninn og eitt til tvö mörk að fylgja í kjölfarið.
Annað kom á daginn. Thurrock færði sig upp á skaptið í seinni hálfleik og sótti með vaxandi þunga á meðan Luton hugsaði bara um að halda fengnum hlut. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem allir sáu hvað var að fara að gerast – þ.e. allir nema þjálfari liðsins sem lá í vörn. Ég hef aldrei skilið það fyrirbæri í fótboltanum. Hvernig getur maður sem hefur það sem aðalstarf að þjálfa fótboltalið verið blindur á að liðið hans er komið í nauðvörn og mun fá á sig mark?
Thurrock jafnaði þegar tíu mínútur voru eftir. Og á lokasekúndunum mátti engu muna að leikurinn tapaðist þegar Tresor Kandol. leikmaður sem Luton hafði losað sig við nokkrum misserum áður, klúðraði dauðafæri. Bjartsýnismaður hefði bent á að seinni leikurinn yrði þó á Kenilworth Road og þar vann Luton vissulega 3:1. En það var engin Pollýanna í mér á leiðinni aftur til Hveragerðis, þar sem ég reyndi að eyða öllum spurningum um hvernig leikurinn hefði verið.
En Kata vann varaformannskjörið!
(Mark Thurrock: Terry Bowes. Mark Luton: Emmerson Boyce)