Glímufélagið: Fótboltasaga mín 7/100

24. apríl 1990. Fram 11 : Ármann 0

Ég var á bólakafi í félagslífi á gagnfræðaskólaárunum. Sat í ritstjórn skólablaðsins, var í ræðuliðinu og formaður Málfundafélags Hagaskóla í tvö ár. Tók reyndar við því embætti eftir kosningu gegn Líf Magneudóttur flokkssystur minni. Auk þessa var í nokkurs konar vísi að ungliðahreyfingu herstöðvaandstæðinga, sem bjó til plaköt og hengdi upp í miðbænum.

Það hefur því greinilega verið laust kvöld í félagslífinu úr því að ég ákvað að skella mér á viðureign Fram og Ármanns í Reykjavíkurmótinu vorið 1990. Ég fór einn á leikinn, en oft fór ég ásamt Baldri félaga mínum sem bjó í Litla-Skerjó. Hann var Framari í fótbolta en Valsari í handbolta. Það þótti ekki tiltökumál á þessum árum.

Allir Reykjavíkurmótsleikir fóru fram á gervigrasinu í Laugardal, sem var strax þarna farið að láta á sjá. Leikmenn voru hræddir við meiðsli og spiluðu ekki nema á hálfum dampi. Þess utan byrjaði æfingatímabilið miklu seinna svo hugtakið „vorbragur“ var afar viðeigandi.

Það voru mistök að mæta á leikinn. Mér drepleiddist. Þekkti engan, enda varla kjaftur á vellinum. Það var svo sem nóg af mörkum – en það var ekkert varið í að mala Ármenninga. Ármann var fjórðudeildarklúbbur en fékk að hanga með í Reykjavíkurmótinu af gömlum vana, meðan t.d. Víkverji var ekki með þrátt fyrir að eiga mun sterkara lið. Það er tómt ólán að leika við lið sem eru svona miklu neðar í deildarkeppninni: sigur er merkingarlaus en tap eða jafntefli botnlaus niðurlæging.

Nokkrum árum síðar var Reykjavíkurmótinu skipt upp í A-deild og B-deild. Þegar þær voru svo aftur sameinaðar í lok tíunda áratugarins var knattspyrnudeild Ármanns að líða undir lok. Þetta var því einn allra síðasti mótsleikur Fram og Ármanns.

Reyndar voru það Framarar sem áttu stærstan þátt í að Ármenningar fóru að spila fótbolta. Það var hópur Framara sem kom knattspyrnudeildinni þar á laggirnar á sjöunda áratugnum. Heimildum ber ekki saman um hvort það voru bara strákar sem komust ekki í lið og vildu fá að spila meira eða hvort einhver djúpstæðari ágreiningur hafi legið að baki. Steinn Guðmundsson, faðir Guðmundar Steinssonar, var aðalþjálfari meistaraflokks og árin 1970 og 1971 höfnuðu Ármenningar í öðru sæti í næstefstu deild – en aðeins eitt lið komst upp.

Allnokkrir Framarar hófu feril sinn með Ármanni í pollabolta, en þeim efnilegri var yfirleitt bjargað yfir í Safamýrina strax í fimmta flokki. Markvörðurinn Friðrik Friðriksson er dæmi um þetta.

Fram og Fylkir mættust í bikarúrslitaleiknum 2003 og að venju var samkoma í Framheimilinu fyrir leik. Þangað mætti meðal annars Baldur Bjarnason. Baldur, sem er mögulega flottasti leikmaður sem ég hef séð spila í Framtreyjunni, hafði þó leikið mun lengur með Fylki og var ekki tíður gestur á vellinum. Það var því nokkuð um hvískur og augngotur. Að lokum lét einn gamall stuðningsmaður vaða og spurði spurningarinnar sem brann á öllum: „Sæll Baldur, gaman að sjá þig hér. En ég hefði haldið að þú værir Fylkismaður.“ – Baldur var sallarólegur og svaraði um hæl: „Neinei, ég hef alltaf verið Ármenningur.“

(Mörk Fram: Ríkharður Daðason 4, Arnljótur Davíðsson 3, Pétur Ormslev, Guðmundur Steinsson, Baldur Bjarnason og Viðar Þorkelsson)