Sveitin: Fótboltasaga mín 8/100

23. júlí 1986. KR 2 : Fram 6

Pabbi er frekar skynsamur náungi. Samt fær hann stundum afar vondar hugmyndir. Sú versta var þegar hann stakk upp á því að þótt ég ætlaði ekki að fermast gæti ég engu að síður gengið til prestsins. Hvers vegna í ósköpunum hefði ég átt að fórna því í hálfan vetur að sofa út á laugardagsmorgnum til að mæta að ástæðulausu á einhverja fyrirlestra?

Viðlíka vond var hugmyndin sem skaut upp kollinum á hverju einasta ári: hvort mig langaði ekki að prófa að fara í sveit? Pabbi og bræður hans voru allir sendir í sveit á sumrin og fannst það æði. Í mínum huga var einn stórkostlegur galli á þessari hugmynd: Íslandsmótið fór fram á sumrin og í Reykjavík.

Það lengsta sem hægt var að teyma mig, var í sumarbúðir í Kjarnholti í Biskupstungum. Þar dvaldi ég í tvær vikur sumarið 1986.

Mig minnir að ég hafi bara skemmt mér ágætlega í sumarbúðunum. Kynntist einhverjum strákum sem ég gleymdi strax aftur. Þarna voru einhverjar skepnur, en ég í gegnum tíðina lítið skipt mér af fjórfætlingum nema með milligöngu afurðastöðva. Og jú, það voru kvöldvökur með leikritum. Sjálfur tróð ég upp með dagskrá sem samanstóð af skástu djókunum úr Íslenzkri fyndni, sem til var á bænum. Það er nú titill sem lofar meiru en hann getur staðið við.

Og svo voru það kvöldin með beinu útsendingunum. Á þessum árum voru íþróttaþættir vinsælt útvarpsefni á kvöldin. Og það voru ekki sportrásir eins og hjá Dodda litla í dag, með tónlistarflutningi og svo stuttum tilkynningum milli laga um framvindu mála í leikjum kvöldsins. Nei, þetta voru alvöru útvarpslýsingar með einum aðalleik og svo skipt reglulega á menn á öðrum völlum um leið og dró til tíðinda.

Allir fjórir leikirnir í fjórðungsúrslitunum í bikarkeppninni voru leiknir sama kvöldið og Íþróttarásin fylgdist vel með. Ég fékk lánað útvarpstækið úr eldhúsinu og stillti því upp í gluggakistu þar sem ná mátti þokkalegum gæðum á útsendingunni. Ég lá límdur yfir lýsingunni og í hvert sinn sem dró til tíðinda í einhverri viðureigninni hljóp ég um allt og miðlaði fréttunum. Mér kom ekki annað til hugar en að allir hinir krakkarnir iðuðu í skinninu að fá fréttir af FH : ÍBK, Víkingi : Val, Breiðablik : ÍA – að ég tali nú ekki um KR : Fram.

KR : Fram var aðalleikur kvöldsins. KR-liðið á þessum árum var reyndar frægt fyrir leiðindi. Þetta sumar hafnaði KR í fjórða sæti með 21 skorað mark – samanborið við 39 mörk Framara. Það var þó hátíð miðað við það sem gerst hafði þremur árum fyrr, þegar KR-ingar náðu öðru sæti á neikvæðri markatölu 18:19 í 18 leikjum!

Hvað sem því leið gátu KR-ingar skorað í þessum leik. Þeir komust í 2:0 og sú var staðan eftir meira en klukkutíma leik. Meira að segja 11 ára gamli Stefán – sem alltaf hafði tröllatrú á að stríðsgæfan gæti snúist – var orðinn nokkuð svartsýnn. En Framarar komu til baka. Jöfnuðu 2:2 og knúðu fram framlengingu. Voru raunar óheppnir að vinna ekki í venjulegum leiktíma.

Í framlengingunni hrundi KR-liðið. Framarar skoruðu fjórum sinnum og unnu 2:6. Mér er til efs að finna megi margar framlengingar í íslensku fótboltasögunni þar sem annað liðið skoraði fjögur mörk – hvað þá leiki með sex marka sveiflu 2:0 í 2:6.

Ég hljóp vitaskuld um allt hús eftir hvert einasta mark Framara í framlengingunni. En flestir hinna krakkanna voru bara í einhverjum leikjum: stelpurnar að mynda leynifélag og strákarnir að reyna að gægjast inn á þær eða e-ð álíka. Ég man enn hvað ég var undrandi á skeytingarleysi þeirra og að meira að segja krakkar sem kölluðu sig KR-inga ypptu bara öxlum og héldu áfram að leika sér með mikilvægan bikarleik í útvarpinu…

(Mörk KR: Björn Rafnsson, Ásbjörn Björnsson. Mörk Fram: Guðmundur Torfason, Kristinn R. Jónsson, Pétur Ormslev 3 og Guðmundur Steinsson)