Breiðholtið: Fótboltasaga mín 9/100

 14. júlí 1996. Leiknir 0 : Fram 4

Það versta við að falla niður um deild fyrir stuðningsmenn „stórs félags“ eru leikirnir við liðin sem eru fyrir „neðan manns virðingu“. Ég veit að þetta hljómar hrokafullt – og auðvitað er þetta hrokafullt – en svona er það nú samt. Erfiðasta stund Skagamanna á komandi sumri verður þegar þeir mæta í Vesturbæinn og neyðast til að spila við KV sem jafningja. KR-ingarnir, Valsmennirnir og Framararnir á internetinu munu heldur ekki stilla sig um að nudda þeim upp úr því.

Það var grautfúlt fyrir okkur Framara að falla sumarið 1995, örfáum árum eftir að hafa verið besta lið landsins. Dvölin í næstefstu deild var þó ekki sem verst. Margir leikir unnust og margir hverjir með miklum mun. Flestir andstæðingarnir báru líka kunnugleg nöfn, lið sem reglulega skutu upp kollinum í efstu deild: Þróttur, KA, Þór, Víkingur og FH. Meira að segja Völsungar höfðu átt sín tvö ár í sólinni.

En svo var það Leiknir…

Leiknir árið 1996 var allt annað mál en Leiknir árið 2014. Leiknir Reykjavík er í dag félag sem menn reikna með í næstefstu deild. Enginn yrði hissa þótt liðið hitti á gott sumar eitthvert árið og kæmist upp í efstu deild. Það er í það minnsta öllu líklegra en að ÍR-ingarnir fari þangað á ný.

En 1996 var Leiknir í allt annarri stöðu. Leiknir var lið sem átti í hugum flestra heima einhvers staðar niðri hjá Reyni Sandgerði, Létti, Aftureldingu eða Gróttu. Nú voru þeir nýliðar í 2. deild og augljóslega alltof lítill fiskur í stórri laug.

Leikurinn í Breiðholti í áttundu umferðinni var sá erfiðasti og skrítnasti þetta sumarið. Skrítnastur vegna þess að flestir áhorfendurnir héldu með báðum liðum. Fram átti sterk ítök í Breiðholtinu. Efnilegir fótboltastrákar (og jújú, bara strákar – við ræðum um kynjapólitíkina síðar í þessum færslum) fóru helst í Fram úr Breiðholtsliðunum. Fólkið í Fellunum var því margt hvert vant því að halda með Fram í efstu deild á móti KR og Val, en Leikni í fjórðu deildinni á móti firmaliðum og sveitavörgum. Það leið því öllum hálfkjánalega þegar þessi lið mættust í alvöru leik.

Framararnir voru ferlega slappir í leiknum. Umferðina á undan slátruðum við Þórsurum 8:0 og lékum eins og hugur manns. Í umferðinni á eftir töpuðum við heins vegar fyrir FH 1:5 í leik sem hefði getað farið miklu verr. Ég held að ég hafi aldrei séð Framara lélegri en í þessum FH-leik, nema þá helst í Leiknisleiknum.

Þetta var ömurlegur fótboltaleikur. Framararnir náðu varla sendingu sín á milli. Samspilið var ekkert, heldur ætluðu menn bara að klára þetta á einstaklingsframtaki – sem var svo sem ekki galin hugmynd. Í það minnsta skoruðum við nóg.

Leiknismenn voru eins og hrædd dýr. Liðið hafði halað inn fimm stig í fyrstu þremur umferðunum en svo farið að síga á ógæfuhliðina. (Þeir luku keppni með sex stig.) Um leið og Þorbjörn Atli skoraði fyrsta markið var úr þeim allur vindur. Bjössi skoraði annað, lagði upp það þriðja sem Ágúst Ólafsson skoraði og þar á milli átti Anton Björn eitt skallamark. Ég hef aldrei séð lið leika jafn illa en skora samt fjögur mörk.

Reyndar hefðu mörkin getað verið fleiri og sjálfur ber ég nokkra ábyrgð í því máli. Þetta sumarið mættum við Gústi Hauks, gamall MR-skólafélagi og spurningaljón, alltaf saman á leiki og sátum hlið við hlið. Okkur þótti leikurinn lélegur og eyddum orku í að láta dómgæsluna fara í taugarnar á okkur, einkum þátt línuvarðarins sem aldrei tókst að vera í línu heldur flaggaði eftir ágiskunum.

Þegar við höfðum tvisvar eða þrisvar horft upp á kolvitlausa rangstöðudóma fórum við að senda honum tóninn (ég er ekki stoltur af því hversu duglegur ég er við að skammast yfir dómurum). Eitthvert skiptið kom sending inn fyrir Leiknisvörnina þar sem einn Framarinn stóð 3-4 metrum fyrir innan, hljóp í gegn og setti knöttinn í markið. Línuvörðurinn fylgdi með og sýndi engin merki um að ætla að flagga. Við Gústi rákum upp hæðnishlátur og spurðum hvort hann væri ekki að grínast? Hann leit örsnöggt flóttalega til okkar og lyfti svo upp flagginu. Gott ef það var ekki Ágúst Ólafsson sem hefði klárað mótið með einu markinu meira ef við hefðum haldið okkur saman.

Það furðulega við stemninguna á leiknum var að það virtist enginn hafa neina sérstaka nautn af því að sjá Framarana raða inn mörkum. Framararnir á vellinum vissu að við værum ekki að leika vel og enginn óskaði Leikni ills, enda var Pétur Arnþórsson við stjórnvölinn hjá þeim og var enn gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Fram. Undir lokin fékk einn leiknismaðurinn rauða spjaldið fyrir klaufalegt brot á miðjum velli – en enginn klappaði. Þess í stað heyrðist tautað e-ð um að „þetta hefði nú verið óþarflega harður dómur“ og að dómarinn hefði nú alveg mátt sleppa þessu.

Ég er ekki viss um að viðbrögðin verði þau sömu í leik KV og Skagamanna í sumar.

 (Mörk Fram: Þorbjörn Atli Sveinsson 2, Anton Björn Markússon, Ágúst Ólafsson)