Stelpurnar: Fótboltasaga mín 10/100

7. júní 1988. KR 4 : Fram 1

Ég var ömurleg karlremba sem táningur. Mér til varnar gildir það líklega um flesta táningsstráka. Ég var líka „mansplaining“ týpan – taldi mig gríðalega mikinn jafnréttissinna (átti meira að segja lesendabréf í Veru!) og gat sett á langa fyrirlestra um hvað konur væru grátt leiknar í samfélaginu og ættu skilið að fá hærri laun og meiri ábyrgð.

Samt setti ég aldrei spurningamerki við að í öllum stjórnunum og nefndunum sem ég sat í voru eiginlega bara strákar og stelpurnar sem duttu inn hættu fljótlega að taka þátt. Ég var í strákaspurningaliði í gaggó. Ég var í strákaræðuliði í gaggó. Ég var í bara í strákaræðuliðum í menntó – með einni undantekningu – og öll menntaskólaspurningaliðin mín voru bara skipuð strákum. Ég sat í ritnefndum: bara strákar. Eina stelpan sem ég átti í teljandi samskiptum við í gegnum félagsstörf í skóla var Dalla Ólafsdóttir í stjórn Framtíðarinnar. Mér fannst hún frek, en líklega var hún samt mesti diplómatinn í stjórninni.

Og svo fór ég að þjálfa ræðulið út um hvippinn og hvappinn. Ræðumennirnir voru eiginlega alltaf strákar. Stundum valdi ég stelpur en fannst ég aldrei geta þjálfað þær almennilega eða ná nógu miklu út úr þeim. Þess vegna bjó ég mér til kenningu um að einungis kvenræðuþjálfarar gætu náð því besta út úr stelpum. Rökin fyrir þessu voru þau að Erna Kaaber og Kristín Eysteinsdóttir gætu gert góða hluti með stelpur í Kvennóliðinu.

En samt var ég rosalega jafnréttissinnaður. (Það var ekki búið að meinstríma hugtakið femínismi á þessum tíma, annars hefði ég kallað mig femínista.) Reyndar var ég á því að jafnrétti kynjanna væri að mestu náð. Konurnar þyrftu bara að reyna örlítið betur og að eftir fáein ár yrði allt í þessu fína, enda hefði mín kynslóð verið alin upp við jafnrétti en ekki ömurlegt afturhald.

Þetta var sérlega slæmt þegar kom að íþróttunum. Ég og vinir mínir gátum flatmagað fyrir framan sjónvarpsskjáinn heilu síðdegin og horft á fótbolta eða hverjar þær íþróttir sem í boði voru. Og ekki vantaði sleggjudómana: kvennafótbolti var varla íþrótt! Og fyrir þessu gátum við talið mikil rök um áhugaleysi kvenna, líkamlegt atgervi, hversu fáar fótboltakonurnar væru miðað við karlana o.s.frv. Þessu ruddum við út úr okkur fyrir framan Þóru systur sem er fimm árum yngri en ég og hefði eflaust haft betra af því að heyra margt annað en þus í eldri strákum um að konur næðu ekki máli í íþróttum.

Hér má skjóta því inn að þau íþróttaafrek sem þó hafa verið unnin í kjarnafjölskyldunni eru kvennanna: mamma er sunddrottning úr Ægi, Þóra systir er margfaldur unglingameistari í frjálsum fyrir Ármann og Steinunn konan mín vann til verðlauna á skíðum fyrir Fram. Sjálfur tók ég reyndar félagshollustuna fram yfir karlrembuna og mætti reglulega á leiki með Framstelpum í handboltanum.

Enn í dag horfi ég sáralítið á kvennafótbolta. Einhverra hluta vegna hef ég aldrei náð að tengja við hann á sama hátt og karlaboltann. Engu að síður horfi ég jöfnum höndum á kvenna- og karlahandbolta. Líklega snýst þetta fyrst og fremst um ólíkt gengi Framara á þessum tveimur vígstöðvum.

Fram lagði niður kvennafótboltaliðið sitt í byrjun níunda áratugarins í fáránlega fruntalegri aðgerð sem miðað einkum að því að spara æfingartíma á grasvellinum í Safamýri. Þótt Framararnir hefðu séð eftir þessu strax árið eftir og endurreist kvennaflokkinn náði hann aldrei aftur flugi og liðið strögglaði í 2. deildinni í mörg ár. Enginn horfði á 2. deild kvenna á þessum árum. Það þótti gott ef línuverðirnir höfðu fyrir að mæta.

Sumarið 1987 álpuðust Framstelpur svo til að vinna 2. deildina. Það reyndist Pyrrhosar-sigur. Árið eftir töpuðu Framarar hverjum einasta leik nema einum. Sá var á móti hinum nýliðunum í deildinni, Ísfirðingum. Fram og Ísafjörður luku keppni með 47 mörk í mínus í fjórtán leikja móti. Lokaleikurinn á Hlíðarenda fór 10:0 fyrir Val.

Þessar hrakfarir drápu liðið. 1989 sendi Fram ekki lið til keppni (það ár voru bara níu meistaraflokkslið kvenna með á Íslandsmótinu). Tilraunir til að endurvekja meistaraflokkinn nokkrum misserum síðar runnu út í sandinn og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að Frömurum hefur tekist að halda úti meistaraflokki kvenna sem virðist lífvænlegur.

Eini leikurinn sem ég sá þetta slæma sumar 1988 var viðureign KR og Fram. Hún fór fram í Frostaskjólinu. Ekki þó á aðalvellinum heldur á grasæfingasvæðinu sem yngri flokkarnir spila á. Og það var ójafn leikur.

Lokatölurnar voru 4:1, en þær segja ekki nema hálfa sögu. Frammarkið kom út billegri vítaspyrnu á lokamínútunum og KR hefði getað skorað miklu fleiri mörk. Mögulega kom það Framstúlkum til bjargar að Guðrún Jóna Kristjánsdóttir var í stuði og skoraði öll mörkin. Fljótlega fóru félagar hennar nefnilega að spila upp á hana, væntanlega í von um að setja eitthvað met.

Ég fór ekki á fleiri leiki. Það er nefnilega fátt ömurlegra en að mæta á völlinn þegar maður veit að liðið manns á engan séns – ekki minnstu vonarglætu. Það liðu tuttugu ár þar til ég horfði næst á kvennafótbolta öðruvísi en í sjónvarpi. Kannski meira um það síðar.

 (Mörk KR: Guðrún Jóna Kristjánsdóttir 4. Mark Fram: Kristín Þorleifsdóttir.)