12. október 1983. Ísland 0 : England 3
Ég bjó í kennarablokkinni við Hjarðarhagann frá fæðingu til níu ára aldurs. Kennarablokkin bar það nafn vegna þess að hún hafði verið byggð af byggingarfélagi kennara. Samt átti brytinn Baui afabróðir minn (sem dó áður en ég fæddist, en sonur minn heitir beint eða óbeint í höfuðið á) heima í þessari blokk og foreldrar mínir fluttu inn á hann.
Kennarablokkin var yndislegur staður fyrir barn. Þar var allt morandi í krökkum og við lékum okkur linnulaust saman í hverfinu eða í kjallarahvelfingunum undir húsinu.
Það merkilega var samt að þótt blokkin okkar (sem er sú næsta við hús Raunvísindastofnunar) væri troðfull af börnum, var blokkin við hliðina (sem mig minnir að hafi verið Símamannablokkin) nánast barnlaus. Að minnsta kosti man ég aldrei eftir að hafa leikið við neitt barn úr þeirri blokk. Nema Anítu.
Aníta var jafngömul mér. Amma hennar og afi bjuggu á Hjarðarhaganum en hún ólst að miklu leyti upp hjá þeim. Afinn var gárungur en átti til að segja sömu brandarana nokkuð oft. „Trúir þú því að afi minn át steinbít eftir að hann var dauður?“ – var uppáhaldsbrandarinn. Eftir að hann sagði mér þessa skrítlu í fimmta sinn endaði ég á að svara „Tjah, varla hefur hann étið lifandi steinbít!“ Karlinn var steinhissa og ákvað samstundis að ég væri snillingur. Upp frá því mátti hann aldrei sjá mig án þess að rifja upp hversu snöggur ég væri til svars og lunkinn að leysa gátur.
Einhverra hluta vegna vorum við Aníta ein að leika okkur á októberkvöldi 1983. Við ætluðum inn á Melavöllinn sem þá var vinsælt leiksvæði. Það var hægt að fara í eltingaleik í stúkunni eða gramsa í ruslahrúgunum við íshokkývöllinn. Yfirleitt var auðvelt að komast inn, þótt nokkrar flíkur rifnuðu í gaddavír eða fengu tjöruklessur af grindverkinu. Sjaldnast var amast mikið við okkur, jafnvel þótt leikir væru í gangi.
En þetta kvöld stóð eitthvað aðeins meira til og vallarvörður rak okkur frá. Ísland var að keppa við England og það skildum við strax að hlyti að vera stórmerkilegt. Í mörg ár gaf ég mér að þetta hefði verið B-landsleikur, en fór síðar í dagblöðin og fann út að þetta hefur verið U18 ára landsleikur í forkeppni Evrópumótsins.
Við héldum áfram að sniglast í kringum völlinn, gægðumst reglulega yfir girðinguna og fylgdumst með leiknum úr fjarska. Meðan við vorum að þessu kom aðvífandi – eða öllu heldur aðveltandi – maður sem hafði fengið sér 4-5 drykkjum of mikið á Hótel Sögu. Hann talaði eitthvað við okkur og var hinn vinalegasti og vildi svo endilega fá að vita hver staðan væri í leiknum. Við klifruðum og gátum staðfest að England væri að vinna 0:3. Fyrir þessar upplýsingar lét hann okkur hafa 500 krónu seðil.
Fyrir átta ára krakka árið 1983 voru 500 krónur svimandi upphæð. Ætli það hafi ekki verið svipað og 10 þúsundkallinn núna? Við hlupum ofsakát heim og fórum að leggja drög að því hvernig mætti eyða þessari risasummu. Í dag yrði það líklega lögreglumál ef fullir karlar færu að gauka peningum að ókunnum börnum úti á götu.
Lokatölur leiksins urðu Ísland 0 : England 3. Ætli Englendingunum hafi ekki brugðið að vera boðið upp á malarvöll fyrir unglingalandsleik? Ætli alþjóðaknattspyrnusambandið viðurkenni ennþá malarvelli í milliríkjakeppni og ef ekki, hvenær skyldi því hafa verið breytt? Spyr sá sem ekki veit.
Íslenska liðið var ágætlega mannað. Sigurður Jónsson var aðalkempan, en af öðrum kunnuglegum nöfnum má nefna Andra Marteinsson, Ólaf Þórðarson, Jón Sveinsson og Örn Valdimarsson. Haukur Bragason var í markinu.
Þegar rennt er yfir enska liðið staðfestist að unglingalandsleikir eru engine trygging fyrir að menn verði stórstjörnur. Teddy Sheringham var því miður ekki með á Melavellinum, en hann var kominn í enska liðið í seinni viðureigninni sem fram fór ytra hálfum mánuði síðar. Í þeim leik var Luton-goðsögnin Mark Stein líka kominn í hópinn.
En á Melavellinum voru fáir leikmenn sem náðu að verða fyrirsætur í Shoot! Eða Match. Derby-stuðningsmenn muna þó eftir Michael Forsyth, sem skoraði fyrsta markið. Enginn kannast við Martin Lambert sem skoraði hin tvö. Hann var á mála hjá Brighton en fékk fá tækifæri og varði níunda áratugnum í að spila með nokkrum evrópskum neðrideildaliðum.
Gary Porter náði fullt af leikjum í vörninni hjá Watford. Markvörðurinn Perry Suckling þótti víst efnilegur og Wikipedia segir að hann hafi verið talinn framtíðarlandsliðsefni, en ferillinn farið í vaskinn eftir að hann stóð í markinu hjá Crystal Palace í 9:0 tapinu gegn Liverpool.
David Lowe átti nokkur ár hjá Ipswich og víðar, svo Gunnar Sigurðarson gæti kunnað á honum deili. Einhverjir muna kannski eftir Garry Parker sem lék með Luton, Nottingham Forest, Aston Villa og Leicester. Og sá síðasti í hópnum til að fá sínar frægðarfimmtánmínútur var David Kerslake, sem var bráðabirgðastjóri hjá Cardiff fyrr í vetur áður en samið var við hvimleiða Norðmanninn.
(Mörk Englands: Michael Forsythe, Martin Lambert 2.)