Hótel Bjarkalundur: Fótboltasaga mín 12/100

29. júní 1986. Argentína 3 : Vestur-Þýskaland 2

„Þú gleymir aldrei fyrsta skiptinu!“ Þetta var yfirskrift á kosningaplakati sem danskir krataungliðar útbjuggu og skartaði mynd af ungu pari í innilegum ástaratlotum. Við í ungliðahreyfingu Alþýðubandalagsins ætluðum alltaf að stela hugmyndinni, en svo varð ekkert úr því. Kannski eins gott. Okkar útfærsla hefði örugglega orðið sjoppuleg og ekkert víst að húmorinn hefði skilað sér almennilega yfir Atlantshafið.

En hitt er annað mál að fyrsta skiptið er yfirleitt eftirminnilegast. Það á t.d. við um heimsmeistarakeppnir í fótbolta. 1982 var ég sjö ára og við áttum ekki einu sinni sjónvarp, svo sú keppni fór að mestu fram hjá mér. Tveimur árum síðar átti ég hins vegar báðar bækurnar sem út komu um þessa keppni á íslensku og lúslas þær. Sennilega hefði ég getað þulið upp alla leiki og úrslit þeirra. Þegar kom að HM 1986 var ég því vel undirbúinn.

RÚV sýndi ekki alla leikina – en ég horfði á þá flesta, jafnt þá sem voru í beinni útsendingu eða upptökur. Ég missti þó af sjálfum undanúrslitunum og sá því ekki Maradona afgreiða Belga einn síns liðs.

Ástæðan var sú að ég var sjónvarpslaus í Þorskafirði. Móðurbróðir minni, Ólafur Haraldsson, var um árabil einn helsti forystumaður í Bahái-samfélaginu á Íslandi. Trúfélag þetta átti (og á kannski enn) jarðarspildu að Skógum fæðingarstað Matthíasar Jochumssonar og var um þessar mundir að koma sér upp sumarhúsi. Óli frændi er menntaður smiður og vann ötullega að verkinu hvenær sem færi gafst.

Hann fór stundum með fjölskylduna í vinnuferðirnar, þar sem gist var í tjaldi og í eitt skiptið var ákveðið að senda mig með, enda vorum við Jórunn frænka á svipuðum aldri og góðir leikfélagar. Ekki minnist ég þess að hafa hjálpað mikið til í byggingavinnunni, en við frændsystkinin vorum þeim mun duglegri við að leika okkur í skógarkjarrinu auk þess sem ég las reiðinnar býsn af bókum.

En þótt það hefði tekist að sannfæra mig um að sleppa Belgíuleiknum, kom ekki til greina að ég færi á mis við úrslitaleikinn. Og þess vegna þurfti frændfólkið af Skaganum að láta sig hafa það að keyra á Hótel Bjarkalund fyrir úrslitaleik Argentínu og Vestur-Þjóðverja.

Ég átti nokkur uppáhaldslið á þessu móti. Sovétríkin, ýmis þriðja heims lönd, Frakka að sumu leyti og jafnvel Pólverja. Og svo var það Maradona.

Umræður um hvort Maradona eða Pele hafi verið betri hef ég aldrei skilið, né vangaveltur um hvort Maradona sé besti leikmaður sögunnar. Svarið við hvoru tveggja er augljóst. Hins vegar mætti ræða það hvort nokkurn tíma muni fæðast drengur sem verður betri í fótbolta en Maradona – og hvort sá hinn sami muni þá synda hraðar en hákarl?

Án Maradona hefði Argentína verið í besta falli 8-liða úrslita þjóð á HM 1986. Aldrei í sögu heimsmeistarakeppninnar hefur einstaklingur átt jafnstóran þátt í sigri síns liðs. Og um svipað leyti gerði Maradona miðlungslið Napólí að meisturum á Ítalíu, sem þá var öflugasta deildarkeppni í heiminum. Og allt þetta þrátt fyrir að vera lítill og í yfirvigt.

Í úrslitaleiknum gegn Vestur-Þýskalandi var það reyndar ekki snilli Maradona sem réði leikslokum, heldur sú staðreynd að Þjóðverjarnir voru alltaf tveir eða þrír á honum. Það þýddi að þeir þýsku voru í praxís 1-2 leikmönnum fáliðaðri en andstæðingarnir í leiknum og það var nóg fyrir argentíska liðið, sem þrátt fyrir allt var ekki skipað neinum labbakútum.

Það var Burruchaga sem skoraði sigurmarkið í lokin eftir stórkostlega sendingu frá Maradona (komm on, hélduði í alvöru að þrír Þjóðverjar væru nóg til að stoppa okkar mann?) Engum datt samt í hug að bera Burruchaga, miðlungssenter hjá Nantes í Frakklandi, á gullstól eftir leikinn. Hundruð stuðningsmanna Argentínu ruku inn á völlinn og lyftu Maradona hátt á loft.

Í hvert sinn sem ég sé myndir frá þessu, þarf ég að minna sjálfan mig á að þarna hlaupa kampakátir áhorfendur um á sjálfum aðalleikvanginum eftir úrslitaleik heimsmeistaramóts eins og ekkert sé sjálfsagðara. Í dag má hins vegar treysta því að tíu mínútum áður en leik milli Fylkis og Keflavíkur fyrir framan þúsund manns lýkur, byrjar þulurinn í hljóðkerfinu að þruma að áhorfendur megi ALLS EKKI fara inn á völlinn í leikslok. Hvenær töpuðum við sakleysi okkar svona herfilega? Og finnst einhverjum í alvörunni betra að allar bikarafhendingar í hinum vestræna heimi fari fram þannig að sviði sé rúllað inn á völlinn, confetti-vélarnar ræstar og We Are The Champions blastað í græjunum? Attica! Attica!

Á Hótel Bjarkalundi var lítið sjónvarp í setustofu. Þar sat ég ásamt fjórum þýskum túristum og réð mér ekki fyrir kæti. Hoppaði og skoppaði eftir hvert mark Argentínu og dansaði stríðsdans eftir sigurmarkið og yfir verðlaunaafhendingunni. Þjóðverjarnir sem í fyrstu höfðu haft dágaman af þessum hrokkinhærða gleraugnaglámi sem lifði sig svona inn í fótboltann reyndust hafa síminnkandi húmor fyrir mér eftir því sem leið á leikinn. Óli frændi varð líka stöðugt vandræðalegri, enda þau þýsku greinilega borgandi gestir á hótelinu en við boðflennur sem áttum ekkert með að nudda salti í sár þeirra.

Mér var alveg sama. Eru þýskir túristar hvort sem er ekki nánasir sem stela kaffirjóma af hlaðborðunum? Held ég hafi lesið það einhvers staðar…

(Mörk Argentínu: José Luis Brown, Jorge Valdano, Jorge Burruchaga. Mörk Vestur-Þýskalands: Karl-Heinz Rumenigge, Rudi Völler.)