Forgjöfin: Fótboltasaga mín 13/100

20. júní 1996. Fram U23 0 : Breiðablik 2

Knattspyrnufélögin Fram og Víkingur voru stofnuð um svipað leyti á sömu þúfunni í miðbænum á fyrsta áratug síðustu aldar. Víkingarnir voru yngri, í sumum tilvikum litlubræður Framaranna og fengu væntanlega ekki að vera með. Stórir bræður eiga það til að vera ömurlegir.

Frægt er bréfið þar sem Víkingar skoruðu formlega á Framara í leik sem hefði verið fyrsta viðureign félaganna. Þar nafngreindu þeir sjö eða átta Framara sem mæta skyldu, en Víkingar myndu spila ellefu.

Frömurum þótti bréfið fyndið og það hefur reglulega verið rifjað upp. Hugmyndin er þó í sjálfu sér ekkert svo slæm: hví ekki að leika með forgjafarkerfi þegar mikill aldurs- eða styrkleikamunur er á liðum? Þannig gætu neðrideildarliðin byrjað með mark í forskot gegn úrvalsdeildarklúbbunum í Lengjubikarnum og útkoman yrði áhugaverðari leikir.

Besta dæmið sem ég man eftir um jöfnunarkerfi í þessum anda var í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar sumarið 1996. Þar mættust b-lið Fram og Breiðablik á Valbjarnarvelli.

Á þessum árum fengu ungmennalið að vera með í bikarkeppninni, þó sífellt væri verið að hræra í reglunum á ári hverju. Þannig voru reglur í einhver skiptin á þá leið að ekki mættu vera nema visst margir leikmenn sem byrjað höfðu síðasta deildarleik o.s.frv. Auðvitað léku menn á reglurnar og eitthvert árið tókst ungmennaliði KR að slá úrvalsdeildarlið úr keppni, en þá með því að stilla upp byrjunarliði sem ekki var svo ólíkt aðalliðinu.

Sumarið 1996 voru Framarar í næst efstu deild en á hraðferð upp. Framtíðin var björt, því við töldum okkur vera með gullaldarlið í 2. flokki. 1979-árgangurinn var ógnarsterkur og vann öll mót sem hann kom nálægt. Hann var nefndur í sömu andrá og 1969-árgangurinn hjá KR. Þetta var árgangur af því kaliberi að hann myndi tryggja okkur nokkra Íslandsmeistaratitla á fyrstu árum 21. aldarinnar.

Haukur Snær, bróðir Ágústs Haukssonar sem áður hefur komið við sögu, var markamaskínan í þessu liði. Helst þó að maður hefði áhyggjur af því hversu stuttur hann væri í loftinu. Freyr Karlsson, Beysi, yrði næsti Pétur Ormslev: kóngur á miðjunni sem læsi leikinn öllum betur. Eggert Stefánsson yrði svo varnartröllið í liðinu… svona mætti lengi telja. Ótrúlega fáir þessara drengja urðu þó fastamenn í meistaraflokki Fram eða annarra liða. Meiðsli eyðilögðu fyrir mörgum. Aðrir náðu ekki að standa undir væntingum.

En við Gústi fylgdumst vel með Hauki litla og félögum hans. Haukur eldri mætti á flesta leiki og sat með okkur. Ég dróst meira að segja á nokkra 2. flokks leiki á þessum árum.

Í bikarnum þetta sumar fór U23 ára liðið frekar þægilega í 32-liða úrslitin. Þar dróst það á móti Breiðablik, meðan aðalliðið fékk ungmennalið Stjörnunnar. Það gerði það að verkum að hægt var að hvíla velflesta ungu mennina í Stjörnuleiknum svo þeir urðu gjaldgengir á móti Blikum. Valur Fannar Gíslason var t.d. sparaður og mætti Kópavogsbúum.

En auðvitað vissum við að það væri enginn séns fyrir táninga að vinna meistaraflokkslið úr efstu deild, jafnvel þótt Blikarnir ættu erfitt uppdráttar og féllu þetta sumarið. Fullorðnir karlmenn vinna einfaldlega unglingsstráka í fótbolta. Þannig er það bara.

…eða öllu heldur, þannig hlaut það að fara alveg þangað til á 25. mínútu. Frá upphafsflautinu höfðu Framarar legið í nauðvörn og allir sáu að Breiðablik hlyti að skora, auk þess sem Framstrákarnir gætu ekki haft úthald í svona varnarvinnu í heilan leik. Þegar ég segi að allir hafi séð það, þá hefði ég átt að undanskilja leikmenn Breiðabliks. Þeir urðu pirraðir strax á fyrstu mínútunum. Snemma leiks fékk Þórhallur Örn Hinriksson gula spjaldið fyrir brot og á 25. mínútu fékk hann annað gult spjald fyrir heimskulega tæklingu á miðjum velli.

Arnar Grétarsson stóð við hliðina á Þórhalli þegar rauða spjaldið fór á loft og sagði hátt og snjall við dómarann (það voru fáir áhorfendur svo orðaskipti manna á vellinum heyrðust vel upp í stúku): „Ertu fáviti?“ – „Nei“, svaraði dómarinn og sveiflaði rauða spjaldinu örlítið til hliðar og rak Arnar útaf.

Fyrst varð dauðaþögn í nokkur sekúndubrot: enginn hafði áður séð rað-rauðspjöldun í fótbolta, hvorki í sjónvarpi né með berum augum – en andartaki síðar varð allt vitlaust. Blikarnir gerðu heiðarlega tilraun til að fá fleiri rauð kort, en sluppu með eitt gult spjald og skyndilega voru Framáhorfendurnir (sem voru eiginlega bara mömmur, pabbar og stjórnarmenn) stokknir á fætur.

Við tók rúmur klukkutími af alvöru fótboltaleik. Ellefu strákar áttu í fullu tré við níu Blika og hefðu líklega náð a.m.k. jafntefli og þar með framlengingu með aðeins agaðri leik. Blikunum tókst þó að skora tvisvar og þótt talsvert væri af þeim dregið undir lokin héngu þeir á forskotinu – en leikurinn gegn Frambörnunum reyndist þeim öllu erfiðari en ráð var fyrir gert. Spurning samt hvort unglingaliðinu hefði verið gerður mikill greiði með að fara áfram og mæta KR-ingum í Frostaskjóli í 16-liða úrslitunum.

Og já, dómarinn var að sjálfsögðu kornungur og krúnurakaður, Garðar Örn Hinriksson…

(Mörk UBK: Kjartan Einarsson, Kristófer Sigurgeirsson.)