Hatrið: Fótboltasaga mín 14/100

5. september 2001. Norður-Írland 3 : Ísland 0

Þann fyrsta september 2001 unnu Íslendingar óvæntan og glæsilegan sigur á Tékkum í undankeppni HM. Tékkar voru um þessar mundi rein besta knattspyrnuþjóð í heimi og úrslitin gerðu það óvænt að verkum að Ísland var komið í séns að komast áfram í úrslitakeppnina eða í það minnsta í umspilið.

Til þess hefðu reyndar ansi mörg atriði þurft að ganga upp. Úrslit í öðrum leikjum að verða hagstæð, íslenska liðið að fara á Parken og vinna í fyrsta sinn í sögunni í lokaleiknum og svo var það jú þetta litla formsatriði: að vinna Norður-Íra í Belfast fjórum dögum síðar.

Ég spenntist upp við þessi tíðindi. Þann þrettánda þessa mánaðar var ég á leiðinni heim frá Edinborg og átti í raun bara eftir að snurfusa síðustu smáatriðin í mastersritgerðinni minni, láta binda hana inn og drekka bjór með fólki í kveðjuskyni. Paul félagi minn af stúdentagörðunum var frá Norður-Írlandi og fljótlega skaut upp þeirri hugmynd að við myndum skella okkur saman á leikinn og líta á heimaþorpið hans í leiðinni. Þar sem yfirdráttarheimildin í bankanum var þegar rækilega þanin ákvað ég að það munaði ekki um kepp í sláturtíð.

Við flugum til Belfast og gistum hjá systur Pauls. Fórum við þriðja mann á völlinn. Paul sem hélt með Liverpool sagðist þó eiginlega aldrei horfa á norður-írskan fótbolta og þetta væri fyrsti landsleikurinn sem hann sæi. Hann var rugby-maður miklu fremur.

Völlurinn var greinilega í miðju prótestantahverfi. Graffittíið á veggjunum voru glæsilegar myndir af sambandssinnum með lambhúshettur og með riffla. Á vellinum voru kaþólikkar heldur ekkert sérstaklega velkomnir. Fjörugustu áhorfendurnir dönsuðu Konga um pallana berir að ofan og sungu söngva. Þeir snerust ýmist um að ríða páfanum eða að hlakka yfir megrunarkúr Bobby Sands. Í sömu viku voru aðalfréttirnar af sveitum prótestanta sem skipulögðu dagleg mótmæli gerðu hróp af níu ára kaþólskum stelpum sem þurftu að labba með lögregluvernd í skólann um göngustíg sem sambandssinnar töldu sig „eiga“.

Ég mætti sigurviss og útskýrði fyrir Paul og þriðja manninum (sem ég man ekkert hver var) að Ísland væri með frábært fótboltalið og myndi nær örugglega vinna. Þeim fannst það sömuleiðis líklegt. Og fyrri hálfleikurinn gaf alveg tilefni til bjartsýni.

Í byrjun seinni hálfleiks hrundi hins vegar varnarleikurinn hjá okkar mönnum. Keith Gillespie lék sér að íslensku vörninni trekk í trekk og á tólf mínútna kafla skoruðu Norður-Írar þrisvar. Ég varð hálfsneyptur eftir, en það gleymdist fljótt á pöbbunum í Belfast. Belfast er greinilega frábær næturlífsborg og við drukkum ótæpilega. Það var ekki fyrr en á leiðinni heim að við vorum minntir á hvar við værum staddir. Löngu áður en komið var á leiðarenda stoppaði leigubílsstjórinn, rukkaði okkur og skipaði að fara út. Ég skildi ekkert, en fékk svo að vita að hann hefði greinilega verið kaþólikki og ekki viljað keyra þrjá unga karla of langt inn í prótestantahverfi. Það var drjúgur göngutúr heim í bæli.

Daginn eftir tókum við lestina heim til fjölskyldu Pauls. Hún býr á norðausturhorni landsins, rétt hjá Giant´s Causeway, sem margir þekkja og í sama þorpi og Bushmills viskýfabrikkan. Á hverju húsi var skjöldur með merki einhverra samtaka sambandssinna. Í upphafi lestarferðarinnar keypti ég öll dagblöð sem í boði voru til að lesa um leikinn. Þegar leið á ferðina áttaði ég mig á því að fólk gjóaði furðulega til okkar augunum þegar það gekk fram hjá. Ég spurði Paul hverju þetta sætti. Hann hugsaði sig um og fór svo að hlæja: benti á að við værum með öll blöðin – jafnt þau sem kaþólikkarnir læsu og prótestantarnir. Það hefði líklega enginn séð áður…

Í ljós kom að Ian Paisley væri fjölskylduvinur hjá foreldrum Pauls og hann bauðst til að reyna að koma á fundi. Ég íhugaði að taka viðtal við karlinn og reyna kannski að selja einhverju blaðinu heima á Íslandi, en ákvað svo að nenna því ekki. Hafði sannast sagna fengið alveg nóg af hermennskudýrkuninni sem sjá mátti á öllum veggjum.

(Mörk Norður-Írlands: David Healy, Michael Hughes, George McCartney)