Símtalið: Fótboltasaga mín 16/100

15. júní 1998. HK 3 : Víkingur 2

Ég og vefmiðlakóngurinn Björn Ingi Hrafnsson voru ágætir félagar í sagnfræðinni í Háskólanum á sínum tíma. Við sátum saman í stjórn Félags sagnfræðinema og áformuðum að gefa saman út blað um íslenska boltann. Þau áform fóru fyrir lítið þegar Bingi var ráðinn á Moggann, góðu heilli trúi ég – ætli við værum ekki enn að borga niður tapið af slíku útgáfuævintýri…

En þegar Björn Ingi var orðinn innanhússmaður hjá Árvakri, gat hann bent á mig þegar leitað var að lausapenna til að skrifa um leik og leik. Einkum var um að ræða leiki í næstefstudeild í fótboltanum og svo óspennandi leiki í handboltanum, þar sem botnliðin áttu í hlut (ég veit álíka mikið um handbolta og Björn Bragi). Fyrir vikið fékk ég blaðamannapassa frá KSÍ og gat farið á flestalla leiki, sem var mikill sparnaður. Og svo var vel borgað fyrir skrifin miðað við vinnu.

Ég fék sjaldnast neinar toppviðureignir. Föstu blaðamennirnir byrjuðu á að velja sér leiki áður en farið var að hringja í okkur lausapennana. Það hefur því eitthvað annað og meira spennandi verið í gangi kvöldið sem ég var sendur í Kópavoginn að fjalla um HK : Víking í fimmtu umferð.

Víkingum var ekki spáð sértöku gengi fyrir mót, en byrjuðu vel undir stjórn Lúkasar Kostic og höfðu tólf stig eftir fyrstu fjóra leikina. Nýliðar HK sátu hins vegar stigalausir á botninum, sem var í samræmi við spár. Kópavogsliðið átti lítið erindi í deildina og kolféll um haustið eftir nokkra ljóta skelli, þar á meðal 13:0 gegn Breiðabliki.

Það leit út fyrir að Víkingsleikurinn yrði einn af þessum skellum. Víkingar réðu lögum og lofum. Hefðu hæglega átt að geta skorað 7-8 mörk í fyrri hálfleik, en settu bara tvö. Í seinni hálfleik var sama einstefnan og hnuggnir HK-stuðningsmennirnir biðu bara eftir að flautað yrði til leiksloka áður en verulega illa færi.

Þegar vallarklukkan sýndi fimm mínútur til leiksloka og fyrstu áhorfendurnir voru farnir að tygja sig til brottfarar, fékk HK vítaspyrnu – eiginlega uppúr engu. Vítið tók gamall skólabróðir úr Melaskóla, Mikael Nikulásson eða Mikki. Hann er í seinni tíð kunnur sem rekstraraðili misvirðulegra skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu, en ég mundi eftir honum frá fornri tíð þar sem hann var einn af strákunum í Meló sem var bæði mjög góður að spila fótbolta og nörd þegar kom að fótboltaáhuga. Það fór ekkert  oft saman.

Mikki skoraði og skyndilega var þetta orðinn allt annar leikur. HK blés til sóknar og undir lok venjulegs leiktíma kom jöfnunarmarkið: Ívar Jónsson síðar Framari. Og í uppbótartímanum skoraði Steindór gamli Elísson, ÍK-maðurinn sjálfur, 3:2!

Ég fór heim og skrifaði umfjöllunina. Hrósaði HK fyrir baráttugleðina, en sigurinn hefði þó ekki verið í samræmi við leikinn. Skammaði Víkinga fyrir að hafa ekki löngu klárað viðureignina og nafngreindi sérstaklega einn sóknarmanna þeirra sem ég sagði hafa misnotað „tylft góðra marktækifæra“. Sendi frá mér pistilinn og fór að sofa.

Daginn eftir hringdi síminn hjá Birni Inga. Það var maður sem vildi fá að tala við þennan Stefán Pálsson. Að öllu jöfnu hefði Bingi aldrei látið mann utan úr bæ fá símanúmerið hjá frílans blaðamanni, en eftir stutt spjall ákvað hann að gera undantekningu.

Nokkrum mínútum síðar hringdi vinnusíminn minn. Samtalið var eitthvað á þessa leið: „Sæll. Ég heiti Luca Kostic. Ég vildi bara hringja til að þakka þér fyrir það sem þú skrifaðir í blaðið. Það er ekki alltaf sem ég er sammála því sem íþróttafréttamenn segja, en þetta var heiðarlega skrifað og hárrétt hjá þér.“ Síðar í samtalinu kom í ljós að Kostic var sérstaklega sáttur við gagnrýni mína á framherja sinn og að það gengi hreinlega ekki upp að menn brenndu svona mörgum færum. Ég fékk mjög sterkt á tilfinninguna að honum fyndist gott að geta bent viðkomandi leikmanni á að íþróttafréttariturum Moggans þætti hann fara illa með færin.

Mér hefur alltaf þótt vænt um Kostic upp frá þessu. Það var því gaman að fá það verkefni að fjalla um lokaleik Víkinga þetta sumar, þegar liðið tryggði sér úrvalsdeildarsæti á ótrúlega dramatískan hátt sem enn nær að kreista fram gremjutár í Kaplakrika. Eins varð ég leiður þegar KR-fantarnir ráku Kostic á snautlegan hátt nokkrum misserum síðar.

Það er samt eitthvað kjánalegt við það að reynslubolti á borð við Lúkas Kostic, einhvern besta útlending sem hérna hefur spilað, hafi þurft að fá staðfestingu lausapenna á Mogganum til að benda senternum sínum á að vanda sig…

(Mörk HK: Mikael Nikulásson, Ívar Jónsson, Steindór Elísson. Mörk Víkings: Sumarliði Árnason, Þrándur Sigurðsson)

* * *

Viðbót: Mér er kurteislega bent á að KR-fólin ráku Kostic árið áður.