Reglan: Fótboltasaga mín 17/100

10. júní 2006. Trinidad & Tobago 0 : England 2

Það er alltaf stór ákvörðun að velja land til að halda með á stórmótum í fótbolta – ákvörðun sem oft hefur valdið mér miklu hugarangri og heilabrotum. Til að þrengja hringinn ofurlítið setti ég mér fyrir margt löngu viðmiðunarreglur.

Sem fyrsta kost hef ég landslið sem hafa á að skipa leikmönnum Fram. Það hefur enn ekki reynt á þetta ákvæði, en þegar þar að kemur er það til staðar. Í öðru lagi vel ég landslið sem hefur Luton-mann innanborðs. Ef hvorugu þessara skilyrða er fullnægt, get ég valið hvaða land sem er.

Luton-klausan var síðast virkjuð á HM 2006. Einn besti leikmaður Luton um þær mundir var Carlos Edwards, hörkugóður kantmaður sem keyptur hafði verið frá Wrexham. Edwards var síðar seldur til Sunderland, en er í dag aðalmaðurinn í Ipswich-liðinu.

Carlos Edwards var skírður Akenhaton að fornafni (sem bendir til óvenjulegs Egyptalandsáhuga foreldranna) og fæddist í Trinidad og Tobago. Þetta litla eyríki átti hörkugott landslið í byrjun aldarinnar og um miðbik N-Ameríkuforkeppninnar var fólkið á Luton-spjallsíðunum farið að taka eftir árangri liðsins. Það var mikið fagnað þegar T&T komst í umspilleiki við Bahrain um síðasta sætið á HM og enn meira þegar sigur vannst þar.

Trinidad og Tobago varð þannig fámennasta landið í úrslitakeppni HM frá upphafi, sem eitt og sér vakti mikla athygli á liðinu. Þá var fyrirliðinn sjálfur Íslandsvinurinn Dwight Yorke, sem kætti bresku og íslensku pressuna.

Hér heima var HM 2006 send út af sjónvarpsstöðinni Sýn og vitaskuld var haldið úti HM-stofu í tengslum við útsendingarnar, þar sem kappkostað var að fá gesti með einhverjar tengingar við keppnisliðin. Starfsmaður stöðvarinnar hringdi í mig og spurði hvort þetta væri nokkuð grín, hvort ég héldi ekki örugglega í alvörunni með T&T? Ég játti og var bókaður í útsendingu fyrir leikinn gegn Englendingum.

Hinn viðmælandinn í þættinum var Hermann Hreiðarsson, sem hafði greinilega samþykkt að koma gegn því að fá að plögga einhverja söfnun sem hann tengdist (fyrir UNICEF eða eitthvað álíka). Umsjónarmaðurinn spurði Hermann út í enska landsliðið og þá leikmenn sem hann þekkti persónulega. Ég fékk svo að ryðja upp úr mér einhverjum staðreyndapunktum um T&T sem ég hafði pikkað upp á netinu dagana á undan. Allir voru mjög afslappaðir í stúdíóinu og biðu eftir flugeldasýningu Englendinga.

Svo byrjaði leikurinn og mínir menn frá Rómönsku Ameríku parkeruðu liðsrútunni fyrir framan markið. Englendingarnir sóttu og sóttu en komust lítið áfram, einkum var Peter Crouch mikill klunni. Eftir því sem leið á hálfleikinn fór brúnin að þyngjast á starfsmönnum sjónvarpsstöðvarinnar. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu íþróttafréttamenn að kætast þegar smálið úr þriðja heiminum stendur upp í hárinu á evrópsku stórliði, en önnur lögmál gilda um England.

Það er hluti af starfslýsingu fótboltalýsenda á Íslandi að halda með Englendingum. Íþróttastöðvar 365 miðla sýna leiki Englendinga við Andorra og San Marínó í forkeppni EM og HM, þótt lykilleikir í öðrum forriðlum séu á sama tíma. Stóra spurningin á vörum þeirra þegar kemur að stórmótum er hvort England eigi möguleika á titli, hversu fráleitar sem slíkar vangaveltur kunna að vera.

Og þarna sat ég í leikhlénu, lék við hvurn minn fingur og lýsti mikilli ánægju með skilvirkan varnarleik T&T. Spáði því að Englendingar yrðu jafnráðalausir í seinni hálfleik og það væri aldrei að vita nema einhver fótfrár leikmaður, t.d. sá snjalli Carlos Edwards, myndi skora sigurmarkið í lokin. Þáttarstjórnandanum fannst ég ekkert sniðugur og fæstum öðrum í stúdíóinu heldur.

Það voru innan við tíu mínútur eftir af leiknum þegar Crouch náði loksins að skora. Einlæg fagnaðarlæti brutust út í myndverinu. Kannski skiljanlega: England var öruggt áfram og þar með myndu auglýsingatekjurnar aukast um einhverjar milljónir. Í uppbótartíma bættu Englendingar við öðru marki og aftur gátu menn farið að tala sig upp í einhverja sturlaða drauma um heimsmeistaratitil ensku miðlungsliði til handa.

Enda hef ég alltaf sagt að því fyrr sem enska landsliðið fellur úr keppni á stórmótum, því betra. Þá fyrst er hægt að gera sér vonir um vitræna umfjöllun íslenskra íþróttafréttamanna.

(Mörk Englands: Peter Crouch, Steven Gerrard)