Hvíti fíllinn: Fótboltasaga mín 20/100

 17. janúar 2009. Darlington 5 : Luton 1

Halldór Laxness varð innlyksa á Íslandi á stríðsárunum. Eftir því sem tíminn leið, varð hann sífellt önuglyndari og pirraðri í skrifum sínum yfir hvað Íslendingar væru miklir búrar og menningarlega á lágu plani. Skáldið elskaði að sönnu þjóð sína, en til að halda geðheilsunni varð hann að komast reglulega til útlanda að fá almennilegan mat, vín, kaffi, menningu…

Ég skil karlinn vel. Ísland er góður staður, en hér eru ekki pöbbar með real ale á krana, skítbillegir kebab-staðir sem afgreiða vefjur á stærð við kvenmannskálfa eða curry-hús á öðru hvoru horni. Þessi sannindi lágu að baki fyrsta Luton-tvíæringnum.

Ákvörðunin um menningarferð til Englands var tekin fyrst. Síðan var farið að ræða um mögulega dagskrá, hvort fara ætti á rugby-leik eða leita uppi fótbolta. Fljótlega tilkynnti ég væntanlegum ferðafélögum að mér væri eiginlega sama hvað þeir gerðu, en ég ætlaði á Luton-leik. Og af því að þeir Ragnar og Valur félagar mínir eru valmenni, féllust þeir á hugmyndina.

Við völdum útileik gegn Darlington, en ákváðum að hafa bækistöðvar á hóteli í Leeds, þar sem Valur var í skóla. Á flugvellinum hittum við svo Simon, félaga okkar úr íslenska krikketheiminum og fyrrum starfsmann við breska sendiráðið í Reykjavík.

Tímasetningin var ef til vill ekki sú heppilegasta í neinum skilningi. Ferðin var í janúar, sem er nú ekki kjörtími ferðalangsins í þessu kalda landi. Árið var 2009. Íslenska krónan í skralli og flestir með hugann við það hvort þjóðfélagið yrði gjaldþrota, frekar en að leyfa sér strákaferðir á fótboltaleiki í ríki óvinarins.

Það versta við tímasetninguna var þó sú staðreynd að í ársbyrjun 2009 var Luton í frjálsu falli. Liðið hafði verið í eigu fjárglæframanna sem urðu þess valdandi að það hrundi niður úr næstefstu deild vorið 2007. Í kjölfarið kom í ljós gríðarleg fjármálaóreiða og í tengslum við hana brot á ýmsum reglum um samninga leikmanna. 2008 féll Luton niður úr þriðju efstu deild – en þá fyrst ákváðu knattspyrnuyfirvöld að kveða upp dóm vegna gömlu brotanna.

Luton hóf keppni í neðstu deild veturinn 2008-09 með 30 mínusstig. Það mun vera met í knattspyrnusögu heimsins. (Þau brot sem alvarlegust voru talin, voru nálega þau sömu og West Ham var nappað fyrir í tengslum við Tevez-málið, en slapp að mestu við refsingu.) Ekkert lið heldur sér uppi eftir að byrja með 30 stig í mínus, svo í raun var félagið dæmt niður í utandeildina. Stuðningsmenn Luton munu seint fyrirgefa knattspyrnusambandinu. Þeir hörðustu halda með mótherjum enska landsliðsins hverju sinni.

Darlington var skrítinn andstæðingur. Liðið kemur frá samnefndri 100 þúsund manna borg í Durham í norðaustur Englandi. Spor Darlington í knattspyrnusögunni eru ekki djúp. Liðið hefur lengst af haldið sig í neðri deildunum, enda héraðið hvorki nógu fjölmennt né ríkt til að geta staðið undir mikið meiru.

Uppúr aldamótum kom nýr eigandi að félaginu – eigandi með „metnað“ (famous last words). Til að árétta stórhug sinn reyndi hinn nýi eigandi árangurslaust að lokka til sín fræg nöfn: Paul Gascoigne og Faustino Asprilla. Afdrifaríkari var þó sú ákvörðun að byggja nýjan heimavöll.

The Darlington Arena var 25 þúsund manna leikvangur, sem þó var hannaður þannig að stækka mætti hann upp í 40 þúsund manns. Það átti ekki að klikka á því að hafa ekki nóg af sætum þegar komið væri upp í úrvalsdeildina…

Fyrir utan Elton John-tónleika sem haldnir voru á vellinum, mættu aldrei fleiri en 12 þúsund manns í gímaldið. Að jafnaði voru áhorfendur um tvöþúsund talsins og leið eins og krækiberi í helvíti (eða Frömurum á nýjum Laugardalsvelli). The Darlington Arena varð frá fyrsta degi að orðabókarskilgreiningu á „hvítum fíl“ – mannvirki sem er of stórt og dýrt í rekstri og reynist eiganda sínum myllusteinn um háls.

Það var súrrealískt að horfa á fótbolta á tómum risavellinum. Luton mætti reyndar með furðumarga áhorfendur sem skemmtu sér ágætlega, þrátt fyrir það sem gekk á inni á vellinum. Aðalfjörið snerist um uppblásna Spiderman-dúkku sem vallarverðir gerðu upptæka en skiluðu svo aftur við mikinn fögnuð áhofendanna.

Leikurinn sjálfur var ömurlegur. Heimamenn fengu víti eftir tíu mínútur og skoruðu. Blésu svo til stórsóknar um miðjan hálfleikinn og skoruðu þrjú mörk á rétt rúmlega fimm mínútna kafla. Luton setti mark á móti beint þar á eftir en á lokamínútunum innsiglaði Darlington 5:1 sigur. Við ferðalangarnir létum það þó ekki trufla okkur of mikið, heldur fundum pöbb með þokkalegu bjórúrvali og pílukastsspjaldi.

Aðalumræðuefnið í lestinni á leiðinni heim til Leeds var þessi furðulegi völlur sem augljóslega var að drepa félagið. Undir lok tímabilsins fór Darlington í greiðslustöðvun og missti tíu stig í refsingarskyni. Það þýddi að liðið komst ekki í umspil þá um vorið. Árið eftir hafnaði Darlington í langneðsta sætinu og færðist niður í utandeildakeppnina.

Eftir eitt ár í efri hluta konferensunnar lenti Darlington á ný í greiðslustöðvun og féll í lok leiktíðarinnar 2011-12. Nýtt félag var stofnað á rústum þess gamla, Darlington 1883, sem hóf leik enn neðar í fótboltapýramídanum. Það leikur heimaleiki sína á velli í nágrannabæ, en stefnir á að taka í notkun lítinn völl í heimaborginni. The Darlington Arena er komið í eigu byggingarverktaka sem hyggjast breyta vellinum í hjúkrunarheimili eða eitthvað álíka.

Síðast þegar fréttist var Darlington 1883 í grennd við toppinn í einhverri lókaldeildinni í norðrinu á milli Curzon Ashton og Ramsbottom United. – Síríöslý… Ramsbottom???

Darlington vann því orrustuna en tapaði styrjöldinni. Síðar átti eftir að koma enn betur í ljós hversu sterk bölvun Luton-tvíæringsins er í raun.

(Mörk Darlington: Rob Purdie 2, Liam Hatch, Neil Austin, Gregg Blundell. Mark Luton: Chris Martin)