Spólan: Fótboltasaga mín 21/100

22. júní 1988. Sovétríkin 2 : Ítalía 0

Ég var um það bil átta ára þegar ég eignaðist sjónvarp. Fyrstupersónueintölufornafnið í síðustu setningu er ekki misritun, ég eignaðist sjónvarpið prívat og persónulega.

Einhverjir velmeinandi ættingjar gáfu mér ríkisskuldabréf í skírnargjöf. Þau brunnu að sjálfsögðu upp í verðbólgunni hraðar en nokkur gæti sagt Vilhjálmur Birgisson. Man ekki hvort við nenntum að innleysa þau á endanum, þetta voru orðnir slíkir smáaurar. En um var að ræða svokölluð happdrættisbréf, sem voru furðulegt fjármálafyrirbæri: þeir sem voru dregnir út töpuðu ekki öllum peningunum sínum. Ég er viss um að það hefur verið einhver göfugur lærdómur fólgin í því.

Og ég vann í happdrættinu! Mamma og pabbi spurðu hvort ég vildi kaupa sjónvarp fyrir peninginn? Það var fyrsta sjónvarp fjölskyldunnar, notað og svarthvítt.

Svarthvíta tækið lifið í nokkur ár. Næsta tæki var í lit, en líka keypt notað. Vídeótæki rataði hins vegar ekki inn á heimilið fyrr en í byrjun tíunda áratugarins.

Afi og amma eignuðust hins vegar vídeótæki þegar afi varð sextugur 1985. Það var með fjarstýringu… en vel að merkja ekki þráðlausri fjarstýringu heldur var 2-3 metra snúra sem tengdi hana við tækið og gegndi aðallega því hlutverki að fella börn sem hlupu um stofuna.

Ég þurfti því að fara heim til afa og ömmu ef ætlunin var að horfa á spólur. Ótrúlega stór hluti sjónvarpsdagskrárinnar var tekinn upp á Neshaganum fyrir hina og þessa fjölskyldumeðlimi sem misstu kannski af spennumyndinni þetta kvöldið eða danska framhaldsþættinum hinn daginn. Spólurnar lágu svo frammi þar til viðkomandi kom næst í heimsókn og gat gefið sér tíma til að horfa.

Sjálfur varð ég hrifinn af hugmyndinni um að eiga fótboltaleiki á spólum. Líklega voru það einkum áhrif frá Shoot! og Match-blöðunum sem farin voru að auglýsa spólur til sölu með upptökum af frægum bikarúrslitaleikjum. Þessar auglýsingar las ég samviskusamlega og lét mig dreyma um að eignast, þó ekki væri nema þegar ég myndi næst vinna í Seðlabankalotteríinu.

Aldrei pantaði ég spólu í gegnum sjoppulegu póstverslanirnar sem auglýstu í fótboltablöðunum, en ég gerði þó fáeinar tilraunir til að koma mér upp safni af öndvegisleikjum. Ég keypti tómar spólur dýrum dómum, tók upp leiki sem ég mat sem svo að gaman yrði að geta skoðað síðar meir og reif svo af flipann sem gerði það að verkum að ekki væri hægt að taka yfir þær fyrir slysni. Þetta voru einhverjir Luton-leikir sem sýndir voru á RÚV og tilfallandi leikir á stórmótum. Þar með talið undanúrslitaleikur Sovétríkjanna og Ítalíu á EM 1988.

Í dag er mönnum tamt að líta á EM og HM sem nálega jafngild stórmót í fótbolta. Á níunda áratugnum var það hins vegar fjarri lagi. Á meðan HM var 24 liða keppni með fullt af forvitnilegum þriðja heims þjóðum, var EM 8 liða mót með hefðbundnum fastagestum. HM hafði Argentínu og Brasilíu. EM var dáldið eins og Take That án Robbie Williams.

Eftir á að hyggja var EM ´88 óvenjusúr keppni. Frakkarnir voru byrjaðir í sinni eyðimerkurgöngu í heimsfótboltanum og komust ekki í úrslitakeppnina. Englendingar voru slappir, Írar og Danir náðu varla máli. Allir vissu að Spánverjar klúðruðu alltaf stórmótum…

Áfram skal talið: Vestur-Þjóðverjar voru sigurstranglegir sem gestgjafar, Hollendingar voru hipsteraliðið með Ruud Gullit og Van Basten. Ítalir voru leiðinlegir en effektívir á þessum árum. Sovétmenn voru með fullt af góðum leikmönnum sem enginn þekkti samt, því þeir spiluðu allir heima fyrir þangað til að þeir voru orðnir fertugir að þeim var leyft að semja við lið í Austurríki, Belgíu eða álíka.

Ég hélt samt með Sovétmönnum, því Rinat Dasayev var minn maður: besti markvörður í heimi.

Sovéska landsliðið átti að toppa á HM 1986, en féll úr leik fyrir Belgum (kannski meira um það síðar). Oleg Blokhin var hættur, en það vantaði samt ekki góð leikmenn. Belanov, Protasov, Zavarov og Vasily Rats voru t.d. allt toppspilarar. Ellefu leikmenn í landsliðshópnum komu frá Dynamo Kiev, sem manni fannst alltaf dálítið skrítið og lítt vænlegt til árangurs.

Ítalir voru með ungan hóp og litu augljóslega á Evrópumótið sem æfingakeppni fyrir HM á heimavelli tveimur árum síðar. Sovétmenn mættu því til leiks sem sigurstranglegra liðið og voru klárlega sterkari í leiknum. Unnu 2:0 eftir markalausan fyrri hálfleik, en einhvern veginn fannst manni alltaf að þetta hlyti að verða niðurstaðan og að Sovétríkin og Holland myndu mætast í úrslitunum rétt eins og í fyrstu umferðinni. Úrslitaleikurinn var antíklímax og kláraðist með frík-markinu sem Van Basten skoraði frá hliðarlínunni. Það skal enginn segja mér að það hafi átt að vera markskot.

Ég geymdi upptökuna af undanúrslitaleiknum lengi og stakk stundum í tækið, en það er bara eitthvað svo súrt við að horfa á upptökur af gömlum fótboltaleikjum. Fótbolti er menningarfyrirbæri sem verður að njóta í núinu. Það er líklega eins gott að ég fór ekki að sanka að mér hillumetrunum af gömlum enskum úrslitaleikjum líka.

(Mörk Sovétríkjanna: Hennadyi Lytovchenko, Oleh Protasov)