Vítabaninn: Fótboltasaga mín 24/100

14. júní 1998. FH 1 : KVA 0

Minnið er skrítið fyrirbæri. Í mörg ár hef ég, í tengslum við stórmót í handbolta, rifjað upp þegar ég sá línumanninn Róbert Gunnarsson standa í marki Austfirðinga og verja þrjú víti í sama leiknum. Leikurinn hafi verið á ÍR-velli og þrátt fyrir hetjudáðina tapaði lið Róberts illa. Ástæðan fyrir að ég sá ÍR : KVA var sú að ég skrifaði um leikinn fyrir Moggann.

Þessi saga var vitaskuld tilvalin í þessa hundraðleikja sjálfsævisögu, svo ég ákvað að slá leiknum upp á timarit.is. Og viti menn, ÍR sigraði KVA 6:2 í Breiðholtinu sumarið 1999 og ég skrifaði um leikinn.

1999 var skrítið tímabil í næstefstu deild. Fylkir stakk af á toppnum, en fjögur lið börðust jafnri baráttu um annað sætið: FH, Stjarnan, ÍR og Dalvík – sem er magnað ef horft er til þess hve ólík staða þessara liða er í dag, fáeinum árum síðar.

KVA, sameiginlegt lið Vals Reyðarfirði og Austra Eskifirði, hafnaði hins vegar á botninum og rann síðar ásamt Þrótti Neskaupstað inn í nýtt lið Fjarðabyggðar.

Nema hvað, það var enginn Róbert Gunnarsson á leikskýrslunni í Breiðholti. Jón Otti Jónsson, stóð milli stanganna. Hann hafði verið aðalmarkvörður Stjörnunnar löngu fyrr. Og ekkert í umsögn minni um leikinn benti til þess að vítaspyrnur hefðu farið í súginn í hrönnum. Þetta var eitthvað skrítið…

Sumarið 1999 var Róbert Gunnarsson hættur í fótbolta og búinn að snúa sér alfarið að handboltanum. En sumarið áður hafði hann vissulega verið í markinu hjá KVA og unglingalandsliðinu. Það ár stóð KVA sig vel, fékk 24 stig og var í fjögurra liða pakka fyrir neðan toppliðin en fyrir ofan afleitt Þórslið og HK. Og það sumar mætti KVA á Kaplakrika.

Fréttaritari Moggans á leik FH og KVA var enginn annar en Stefán Pálsson. Það voru fáir á vellinum. FH-ingar höfðu mætt sigurvissir í mótið undir stjórn Péturs Ormslevs og sannarlega með mannskap sem duga átti til að fara upp. En þrír af fyrstu fjórum leikjunum töpuðust, svo sigur gegn nýliðunum að austan var nauðsyn.

FH var miklu sterkara. KVA hafði þá einu áætlun að pakka í vörn og veðja á skyndisóknir, en þegar Hörður Magnússon skoraði eftir tæpt kortér var ljóst að austanmenn færu tómhentir heim. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði FH átt að skora nokkur mörk í viðbót, enda varðist KVA alltof aftarlega á vellinum og hleyptu andstæðingunum nánast óáreittum upp að vítateig – en Róbert varði og varði.

Hápunktur leiksins var þegar FH fékk víti. Róbert varði en boltinn fór aftur út í teiginn fyrir fætur eins FH-ingsins sem var snarlega sparkaður niður og önnur vítaspyrna dæmd. Róbert varði aftur. Hvort tveggja voru samt ágæt víti.

Auðvitað varð þessi tvöfalda vítamarkvarsla aðalumfjöllunarefnið í stuttri Moggaumsögn minni og DV-fréttaritarinn gerði það sama. Mér fannst þetta þeim mun merkilegra vegna þess að ég var stoltur af mínum manni – Róbert var í grunninn Fylkismaður í fótbolta en byrjaði snemma í handboltanum hjá Fram. Hann hefði vafalítið náð landsleikjum í fótbolta ef sú íþrótt hefði orðið fyrir valinu.

En ekki skil ég hvernig mér tókst að fjölga vörðu vítunum úr tveimur í þrjú í minningunni, færa leikinn milli ára og skipta FH út fyrir ÍR…

(Mark FH: Hörður Magnússon)