Proppé: Fótboltasaga mín 25/100

27. júní 2009. Fjölnir 2 : Fram 1

Fyrir utan kvótapeningana, er það tvennt sem heldur lífi í Mogganum: dána fólkið og íþróttirnar. Þeir sem vilja fylgjast með minningargreinum og andslátsfregnum komast ekki af án Moggans og það sama gildir um þá sem vilja lesa íþróttafréttir á pappír.

Íþróttafréttir Fréttablaðsins hafa hins vegar alltaf verið furðuleg samsuða. Snemma ákvað blaðið að reyna ekki að gera öllum leikjum skil, heldur taka út eins og einn leik í umferð auk tölfræði úr öðrum viðureignum og vísa svo áhugasömum bara á Vísi eftir frekari upplýsingum. Þetta er væntanlega útpæld nálgun.

Sumarið 2009 var Kolbeinn Proppé vinur minn starfandi blaðamaður á Fréttablaðinu. Í einhverju bríaríi í spjalli við kaffivélina féllst hann á að taka nokkrar fótboltavaktir, sennilega bara til að geta sagst hafa verið íþróttafréttaritari. Einn af þessum leikjum – líklega þó ekki sá fyrsti – var viðureign Fjölnis og Fram í níundu umferð.

Fjölnisliðið festist strax við botninn þetta sumar, var meira og minna í fallsæti alla leiktíðina og endaði að lokum neðst í deildinni. Framarar sigldu hins vegar lygnari sjó. Töpuðu of mörgum stigum í fyrri hlutanum en enduðu loks í fjórða sæti, sem var vel ásættanlegt.

Leikurinn í Grafarvoginum var daufur. Framarar eitthvað sterkari en það var samt óskaplega lítið að gerast. Áhorfendum leiddist og hópur táningsstráka í Fjölnisgöllum stytti sér stundir með því að syngja háðulega söngva um Ívar Björnsson – Fjölnismanninn sem gengið hafði í raðir Fram fyrir tímabilið. Pjakkarnir höfðu greinilega ekki heyrt um hugtakið að jinxa. Auðvitað hlaut Ívar að skora eftir þetta og koma Fram yfir undir lok fyrri hálfleiks. Jónas Grani jafnaði fyrir FJölni eftir hlé, en þegar líða tók á leikinn dró af heimamönnum og að lokum skoraði Almarr Ormarsson sigurmark Fram, 1:2.

Ég var enn á bílaplaninu við Fjölnisvöllinn þegar Kolbeinn hringdi til að fá mitt álit á leiknum. Ég gaukaði að honum einhverjum punktum, en annars vorum við sammála um flest. Mann leiksins töldum við vera Sam Tillen, sem fékk hæstu einkunn eða 8 af 10 mögulegum.

Tillen kom til Fram árið áður og átti stóran þátt í að Framararnir náðu þriðja sæti það sumar. Hann var grjótharður bakvörður með flottar sendingar, gat tekið aukaspyrnur og hornspyrnur og skapað með þeim meiri usla en Framarar höfðu mátt venjast lengi. Það merkilega var hins vegar að íþróttafréttamenn virtust ekki meta hann mikils.

2008 og fram eftir sumri 2009 fékk Tillen sjaldnast merkilegar einkunnir hjá Mogganum eða Fréttablaðinu. Í fótboltaþáttunum í sjónvarpinu var hans sjaldnast getið, heldur fengu menn eins og Auðun Helgason og Paul McShane alla athyglina.

Þessi þögn var svo sem skiljanleg. Í fyrsta lagi þurfa erlendir leikmenn að standa sig betur en heimamenn til að fá athygli og í öðru lagi var Tillen ekki týpan sem fréttamenn heilluðust af. Hann var orðljótur, sífellt bölvandi og ragnandi, sendi dómurum og andstæðingum tóninn og var mjög gjarn á að hefna sín. Ef andstæðingur komst upp með að brjóta á Sam vissi maður að í næstu sókn fengi hann það óþvegið og gula kortið færi á loft. Ef sá brotlegi hafði svínað á Joe litla bróður hans var spurning um hvort liturinn á spjaldinu yrði rauður.

Þarna um sumarið vorum við Fram-stuðningsmennirnir farnir að svekkja okkur á því hvað sumir okkar manna væru ekki metnir að verðleikum. Gilti það sérstaklega um Tillen og Halldór Hermann Jónsson, sem var ekki flinkasti maðurinn í deildinni með bolta en gat hlaupið þindarlaust á miðjunni og kveinkaði sér aldrei.

Fjölnisleikurinn var fyrsta skiptið þar sem Sam Tillen fékk hæstu einkunn og mig minnir hálfpartinn að hún hafi dugað honum til að verða leikmaður umferðarinnar. Og það merkilega var að í kjölfarið virtist hann komast á kortið ef svo má segja. Í stað þess að vera um eða fyrir neðan miðjan hóp í einkunnagjöf Framara, varð hann alltaf meðal þeirra efstu – og það án þess að sérstakur munur sæist á leik hans. Þegar álitsgjafarnir í fótboltaþáttunum vildu hljóma gáfulega fóru þeir að segja eitthvað í átt við: „Og svo er nú einn leikmaður í þessu Framliði sem mér hefur alltaf fundist mjög vanmetinn og gleymist oft – það er Sam Tillen!“

Kolbeinn entist ekki marga leiki sem fótboltaskríbent. Þetta var illa borgað, óspennandi að eyða þessum fáu kvöldum þar sem hann var á frívakt í að fylgjast með misskemmtilegum fótboltaleikjum – en það sem mestu skipti, þá fylgdi alls konar vesen að þurfa að halda úti textalýsingum á Vísi meðan á leik stóð, milli þess að safna hvers kyns tölfræði.

En eftir skammvinnan íþróttafréttaraferil getur hann þó ornað sér við að hafa uppgötvað Sam Tillen.

(Mark Fjölnis: Jónas Grani Garðarsson. Mörk Fram: Ívar Björnsson, Almarr Ormarsson)