Tárin: Fótboltasaga mín 27/100

1. september 1985. Fram 1 : Þróttur 1

Ég er hættur að gráta sorgartárum yfir fótboltaúrslitum. Áratugareynsla og harðnað hjarta hafa gert það af verkum að ég þoli jafnvel sárustu ósigra án þess að brynna músum, þótt auðvitað bölvi maður í hljóði. Ég man raunar ekki hvenær ég skældi síðast yfir fótboltatapi, en ég man hvenær ég grét fyrst.

Eins og áður hefur komið fram, var sumarið 1985 það fyrsta sem ég fylgdist virkilega með íslenskum fótbolta. Ég var tíu ára og Framarar voru langflottastir. Við rúlluðum upp Reykjavíkurmótinu, Meistarakeppni KSÍ, urðum bikarmeistarar og gerðum góða hluti í Evrópukeppninni. Allt gekk upp… nema Íslandsmeistaratitillinn.

Um mitt mót virtist Fram ætla að stinga alla aðra af í baráttunni um Íslandsbikarinn og tíu ára guttinn ég var himinsæll. Svona yrði líf mitt sem fótboltaunnanda alltaf! Ég var enn of ungur og blautur á bak við eyrun til að sjá hættumerkin – að Framliðið væri of ungt og reynslulítið og að andstæðingarnir hefðu seigluna og söguna á sínu bandi.

Forskotið mikla skrapp saman þegar Framarar fóru í gegnum vondan kafla um mitt mót. Í fimmtándu umferð mistókst okkur að ná tveggja stiga forskoti á toppnum með jafntefli á KR-vellinum, en vorum þó stiginu á undan Valsmönnum þegar þrír leikir voru eftir: tveir gegn liðum úr neðri hlutanum og svo mögulegur úrslitaleikur í Laugardalnum gegn Skagamönnum.

Fyrsti þessara leikja var gegn fallkandídötum Þróttar sem höfðu byrjað ágætlega, en misstu svo aðalmarkaskorara sinn Pál Ólafsson í atvinnumennsku í handbolta og sigldu eftir það hraðbyri niður um deild. Leikið var á Valbjarnarvelli, þótt komið væri fram í september. Aðalleikvangurinn í Laugardal var nefnilega furðuoft óleikfær á skringilegustu tímum á þessum árum.

Samkvæmt uppgefnum tölum var ekki nema 721 áhorfandi á leiknum. Samkvæmt sömu heimildum sáu innan við 500 manns Valsmenn koma sér í toppsætið með sigri á Víði fyrr í sömu umferð. Þessum tölum tek ég með miklum fyrirvara, enda höfðu knattspyrnufélög talsverðan hvata til að ljúga niður áhorfstölur á þessum árum. Með því að gefa upp færri áhorfendur var hægt að skjóta undan aðgangseyri sem nota mátti til að borga leikmönnum smáþóknun í brúnum umslögum undir borðið. Í dag eru knattspyrnudeildir hins vegar reknar fyrir styrktarfé en ekki miðasölu og hvatinn orðinn í hina áttina: að ljúga upp áhorfendatölurnar.

Framarar mættu sigurvissir til leiks gegn Þrótti, en á upphafsmínútunum reið ógæfan yfir. Ásgeir Elíasson, hinn spilandi þjálfari Fram og maðurinn sem komið hafði Þrótti upp í efstu deild, skoraði fáránlegt sjálfsmark með því að skalla fram hjá Friðriki Friðrikssyni markverði. Með eins marks forgjöf tókst Þrótturum að verjast allt til loka. Fengu reyndar á sig jöfnunarmark frá Gumma Steins undir lok fyrri hálfleiks en slappir og bitlausir Framarar fóru aldrei nærri því að skora sigurmarkið. Lokatölur 1:1.

Um leið og flautað var til leiksloka vissi ég að þetta væri búið. Valsmenn myndu aldrei henda þessu frá sér í lokaleikjunum. Það stóð heima og Framarar höfnuðu að lokum í fjórða sæti – nokkuð sem talið hefði verið fráleitt um mitt sumar.

Ég var eyðilagður. Í fyrsta – en fráleitt síðasta skipti á löngum ferli fótboltagláps – upplifði ég djúpstæð vonbrigði, höfnun og jafnvel svik. Ég kenndi Ásgeiri Elíassyni um. Hvað var hann að spila ennþá, 36 ára gamlinginn sem löngu ætti að vera farinn í límverksmiðjuna? Af hverju gátu Gummi Steins, Gummi Torfa eða Ómar Torfason – allt fyrsta klassa markaskorarar – ekki drullast til að brjóta niður vörnina hjá Þrótti? ÞRÓTTI!!! Fokkíngs Þrótti!!! Liðinu sem pabbi hélt með og var sönnun þess að hann vissi ekkert um fótbolta???

Ég grét mig í svefn þetta kvöld. Það voru þung tár.

(Mark Fram: Guðmundur Steinsson. Mark Þróttar: Ásgeir Elíasson (sjálfsmark))