Úrhellið: Fótboltasaga mín 28/100

16. september 2001. KR 2 : Fram 1

Sumarið 2001 var ég í Edinborg að skrifa ritgerð um sagnfræðilegar deilur um orsakir Svarta dauða. Á leikdögum hjá Fram fór ég í næsta tölvuver og rífressaði Textavarpið. Reyndar voru einhverjar smátextalýsingar á Vísi, ein og ein setning um gang leiksins á 5-10 mínútna fresti. Það var frústrerandi leið til að fylgjast með fótbolta – og því hvimleiðari þar sem Fram átti hörmungartímabil.

Okkur var spáð falli fyrir mót og undirbúningstímabilið lofaði ekki góðu. Á þessum árum voru nánast allir útlendingar sem fengnir voru til liðsins slappir. Flestum ber þó saman um að Súper-Maríóbræður hafi skrapað botninn. Þeir voru reyndar ekki bræður, heldur tveir Króatar sem báðir hétu Maríó að fornafni og voru sendir heim eftir þrjár umferðir. Ég hef hitt menn sem segja að þetta hafi ekki verið algalnir leikmenn, en sagan hefur ekki farið um þá mjúkum höndum.

Eftir tíu umferðir af átján var Fram með fjögur stig. Glasiðerhálffullt-týpurnar reyndu þó að benda á að liðið hefði verið ferlega óheppið. Stærsta tap Framara þetta sumarið var 4:2 gegn Fylki, annars voru þetta eins marks ósigrar.

Í hugum flestra voru Framarar dauðadæmdir. Spurningin væri helst hvort liðið hafnaði fyrir ofan eða neðan Breiðablik. En frá og með elleftu umferð byrjaði landið að rísa. Sigrar á Blikum, í Vestmannaeyjum og í Grindavík, þokuðu stigatölunni upp. Á síðarnefnda staðnum endaði varnarmaðurinn Ingvar Ólason í markinu og hélt hreinu! Fram pakkaði saman Fylki og gerði jafntefli við FH í Kaplakrika – úrslit sem settu bæði lið úr leik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Öllu þessu fylgdist ég með í gegnum Textavarp.is.

Þann þrettánda september kom ég aftur heim til Íslands. Þorstinn í að komast á íslenskan fótbolta hefur aldrei verið meiri – og það voru bara tvær viðureignir eftir. Sú fyrri gegn KR-ingum í Frostaskjóli.

Stemningin fyrir leikinn var sú að merkilegir atburðir væru í uppsiglingu. Framarar voru á blússandi siglingu, en KR-liðið sökk eins og steinn. Eftir níu leiki voru KR-ingar með ellefu stig, en í næstu sjö leikjum bættust bara fimm í sarpinn. Í leiknum á undan gerði KR markalaust jafntefli við botnlið Breiðabliks.

Hrun KR-inga sumarið 2001 var magnað. Liðinu var spáð auðveldum Íslandsmeistaratitli. Liðið sem fékk næstflest atkvæðin í kjörinu fyrir mót var Grindavík! – Mannskapurinn virtist fínn, en það var bara eitthvað sem ekki virkaði. Og núna sáu menn að ekkert nema náttúruhamfarir gætu komið veg fyrir að Framarar ynnu í Frostaskjóli og sendu KR-inga hálfa leið niður. Skemmtilegt er að velta því fyrir sér hvort íslenskur fótbolti hefði þróast með mikið öðrum hætti ef sú hefði orðið raunin?

En já, það var þetta með náttúruhamfarirnar…

Ég hef aldrei horft á fótboltaleik við jafn fáránlegar aðstæður og á KR-vellinum þann sextánda september 2001. Eftir úrhellisrigningu var völlurinn á floti. Stórir hlutar hans voru undir pollum. Það var útilokað að rúlla knetti eftir vellinum fáeina metra, nema helst með því að fleyta kerlingar. Það var slagveðursrigning allan tímann og ekki hundi út sigandi, hvað þó knattspyrnumönnum. Það var út í hött að leikurinn væri ekki tafarlaust flautaður af.

Daginn eftir kom í ljós að misskilningur dómarans réð ákvörðuninni. Reglur KSÍ kveða á um að lokaleikir á Íslandsmóti skuli settir niður á sama tíma, í það minnsta þeir sem ráða úrslitum um sigur eða fall. Út frá þessu taldi dómarinn að sér væri óheimilt – eða í það minnsta væri honum afar örðugt – að stöðva leikinn því þá yrði jafnframt að stöðva alla hina leikina. Þetta var rangtúlkun, enda var viðureign ÍA og Fylkis á Akranesi á sama tíma blásin af án þess að sú ákvörðun hefði áhrif á aðra leiki.

Í slagviðrinu var það hrein hending hvernig leikurinn myndi fara. Heimspekingurinn Andri Fannar Ottósson kom Frömurum reyndar yfir í fyrri hálfleik, en eftir hlé hafði frekar bætt í fárviðrið og einn KR-ingurinn skoraði tvisvar. Hann hefur væntanlega verið rauðhærður og barnungur – þeir eru það einhvern veginn allir.

Kallið mig bitran Vesturbæjar-Framara, en KR hefði ALDREI unnið Fram við almennileg leikskilyrði þetta skrítna haust. Það var einfaldlega eitthvað mikið að hjá þessu annars velskipaða liði. Auðvitað hefði KR getað rifið sig upp í lokaumferðinni og unnið í Grindavík eins og raunin varð – og fallnir Blikar haldið sínu striki og sent Val niður… en ég er jafnsannfærður um að þetta hefði ekki spilast þannig. Veðurguðirnir björguðu KR.

En mér var nokk sama um það vikunni síðar þegar Framarar unnu Keflavík í lokaumferðinni og tryggðu sér áttunda sætið. Sjáum til hvort ég nenni að fjalla um þann leik við tækifæri.

(Mark Fram: Andri Fannar Ottósson. Mörk KR: Arnar Jón Sigurgeirsson 2)