9. mars 1991. Aston Villa 1 : Luton 2
Þótt mínir menn í Luton séu sem stendur í fimmtu efstu deild í Englandi, finnst mér ég geta gert kröfu til þess að sjá 2-3 leiki á ári í beinni útsendingu í sjónvarpi. Það er í raun svipuð tala og þegar við vorum í efstu deild fyrir rúmum tuttugu árum. Sjónvarpsleikirnir voru fáir og þá helst heimaleikir gegn „stóru liðunum“ í þeirri von að óvænt úrslit litu dagsins ljós. Einn af fáum útileikjum sem rataði í beina útsendingu RÚV var viðureignin á Villa Park snemma vors 1991.
Á þessum árum var Luton krónískt fallbaráttulið. Kenilworth Road var minnsti völlurinn í deildinni, velta félagsins var líklega sú minnsta sömuleiðis og stjórnendur annarra liða drógu ekkert dul á að þeim þætti algjör óþarfi að drattast með svona smáklúbb í eftirdragi á meðan lið eins og Newcastle væru föst í deildinni fyrir neðan með alla sína fjölmörgu stuðningsmenn.
Bjartsýnismenn vonuðust þó til að Luton gæti haldið sig frá allra svæsnustu fallbaráttunni leiktíðina 1990-91, því fjölgun stóð fyrir dyrum. Aðeins tvö lið færu niður og Derby County yrði vafalítið annað þeirra. Svo fór þó að Luton slapp ekki fyrr en á síðasta leikdegi, þriðja árið í röð. Sendi Sunderland niður með því að vinna Derby 2:0. Sá sigur er frægastur fyrir þær sakir að Mick Harford, gamla Luton-goðsögnin sem þá var orðinn leikmaður Derby, skoraði sjálfsmark með skalla.
Stuðningsmenn Luton hafa alla tíð viljað trúa því að „Stóri Mick“ hafi gert þetta viljandi og sjálfur hefur Harford gefið það fastlega í skyn í viðtölum. Ég er þó ekki sannfærður. Upptökurnar benda frekar til klunnalegs varnarleiks miðframherja sem átti helst ekkert að hætta sér til baka en djöfullegs samsæris. Hin sagan er samt betri.
Luton hafnaði sem sagt í átjánda sæti vorið 1991, en í sætinu fyrir ofan var Aston Villa. Varla er hægt að hugsa sér óstöðugra lið en Aston Villa á þessum árum. 1990 hafnaði Villa í öðru sæti á eftir Liverpool og varð aftur í öðru sæti 1993. Mannskapurinn var líka öflugur þrátt fyrir fallbaráttuna. David Platt og Tony Cascarino hefðu komist í hvaða lið sem er, svo dæmi séu tekin.
Svipmyndir frá leiknum má finna á Jútúb og ættu að fylla hvern mann af tíunda áratugs nostalgíu. Luton-menn voru gestir og spiluðu í samræmi við það. Lágu til baka og beittu skyndisóknum, enda með leikmenn innanborðs sem gátu ógnað hratt. Aðalmarkaskorarinn var Lars Elstrup, danskur landsliðsmaður og lengi dýrast leikmaður í sögu félagsins. Hann gekk síðar af göflunum – meira um það í seinni pistlum.
Sá frýnilegi Ian Dowie var uppáhald stuðningsmannanna. Danny Wilson var seigur á miðjunni. Hann er væntanlega frægastur fyrir að hafa þjálfað bæði Sheffield United og Wednesday. Besti leikmaðurinn að mínu mati var þó Kingsley Black. Það er einn af mörgum góðum leikmönnum sem Brian Clough tókst að eyðileggja.
Black átti sendinguna fyrir markið sem Derek Mountfield setti í eigið net og kom Luton í 1:0. Látið dagsetninguna ekki blekkja ykkur. Hjá hr. Mountfield var alltaf Mottumars. Mark Pembridge skoraði svo eitt af mörkum ársins. Pembridge var gríðarlega efnilegur og rauðhærður leikmaður frá Wales. Hann kom víða við með rauða kollinn sinn og spilaði meðal annars í eitt ár með Benfica í Portúgal. Þar hefur hann væntanlega þurft að nota sólarvörn númer 1800.
Tony Cascarino minnkaði muninn, en hafði áður klúðrað vítaspyrnu. Ætlaði að senda Chamberlain í annað hornið og negla á mitt markið. Markvörðurinn lét ekki plata sig, stóð kyrr og varði auðveldlega. Það er eins með svona víti og þegar menn vippa yfir markmanninn í handboltanum: eins og það er svalt þegar það gengur upp er það lúðalegt þegar það klikkar.
Chamberlain fær almennt ekki háa einkunn hjá stuðningsmönnum Luton og vissulega stóð hann í skugga forvera sinna, manna eins og Les Sealey og Andy Dibble. Ætli akkilesarhæll hans hafi samt ekki frekar verið sá að hann leit ekkert sérstaklega íþróttamannslega út, heldur minnti meira á barnaskólakennara. Og svo fór hann til Watford. Það er aldrei vinsælt.
Hvað sem því líður fór Chamberlain á kostum í þessum leik og átti stærstan þátt í sigrinum og þar með þremur stigum sem áttu svo sannarlega eftir að reynast dýrmæt í lok tímabils.
(Mark Aston Villa: Tony Cascarino. Mörk Luton: Derek Mountfield (sjálfsmark), Mark Pembridge – mundi ég eftir að taka fram að hann væri rauðhærður?)