30. ágúst 1987. Fram 5 : Víðir 0
„Hvað er aftur metið fyrir stærsta sigur í bikarúrslitaleik?“ – spurði rallhálfur Garðbæingur yfir hlandskálunum á Laugardalsvelli í leikhléinu síðasta sumar. Stjarnan var að vinna Framara með tveimur mörkum gegn engu og Silfurskeiðarmenn virtust hafa ástæðu til að vera roggnir. Ég umlaði eitthvað, en vissi auðvitað svarið mætavel. Allir Framarar af minni kynslóð muna eftir úrslitaleiknum 1987.
Seinni hluti níunda áratugarins var blómaskeið í íslenskri knattspyrnu. Íslendingar áttu marga góða leikmenn sem flestir léku meira eða minna allan sinn feril hérna heima, í stað þess að stökkva til Noregs eða Belgíu um leið og færi gafst. Íslensku félagsliðin náðu oft ótrúlega góðum úrslitum í Evrópukeppni og flest liðin voru sókndjörf, öfugt við það sem tíðkast hafði fáeinum árum áður á meðan tveggja stiga reglan var við lýði.
Valsmenn urðu Íslandsmeistarar sumarið 1987. Þeir voru bestir, en Fram og ÍA komu skammt á eftir. Þegar dregið var í undanúrslit bikarkeppninnar virtist draumaúrslitaleikurinn innan seilingar. Fram fékk Þórsara í heimsókn meðan Valsmenn héldu í Garðinn að leika við Víði. Þórsarar voru engir aukvisar á þessum árum, en Fram vann frekar vandræðalítið 3:1. Í leikslok bárust hins vegar þær fréttir að Víðismenn hefðu unnið 1:0!
Dvöl Víðismanna í efstu deil árin 1985-87 er stöff í epíska bíómynd með Local Hero-sándtrakkinu frá Dire Straits. Þetta var ekki samtíningslið útlendinga og farandleikmanna. Nokkrir í hópnum höfðu spilað með Keflavík, en að öðru leyti var um heimamenn að ræða, þar á meðal bræðurna Daníel, Grétar og Vilhjálm Einarssyni. Árið áður hafði Víðir haldið sér uppi með því að sigra Þrótt og senda niður í sinn stað í lokaumferðinni á dramatískan hátt.
Fyrir löngu rakst ég á sögu Knattspyrnufélagsins Víðis á bókasafni og renndi í gegnum hana. Höfundur þess rits dró engan dul á að stærsta stund í sögu félagsins væri bikarúrslitaleikurinn gegn Fram, sem rakinn var ítarlega í máli og myndum.
Það hlýtur samt að vera dálítið skringileg tilfinning fyrir stuðningsmenn félags að hápunkturinn í sögunni skuli vera stórtap. Víðismenn áttu nefnilega aldrei séns á Laugardalsvelli. Eftir tæpan hálftíma var öll spenna úr sögunni og Fram komið með 3:0 forystu. Gummi Steins var þá búinn að skora tvisvar og Ragnar Margeirsson einu sinni. Viðar Þorkelsson og Ormarr Örlygsson bættu tveimur mörkum við í upphafi seinni hálfleiks, en þá þótti mönnum greinilega nóg komið og það sem eftir var léku Framarar boltanum sín á milli óáreittir á miðjunni.
Í minningunni þurfti Friðrik Friðriksson ekki að verja einn einasta bolta í leiknum og blaðaumfjallanir virðast styðja þá minningu. Um miðjan seinni hálfleikinn voru varnarmenn Víðis orðnir úrvinda og áhorfendur fengu á tilfinninguna Framarar gætu stungið sér í gegn að vild, en kysu að gera það ekki. Það var góð og íþróttamannsleg ákvörðun. Líklega hefðu flestir fótboltaáhugamenn fundið skítabragð af því að sjá smálið sigrað með mikið meiri mun í úrslitaleik.
Þrátt fyrir yfirburðina var Ásgeir Elíasson ekkert að spreða varamönnunum. Að venju notaði hann bara aðra skiptinguna. Arnljótur Davíðsson fékk hálftíma. Sjálf gamla landsliðskempan Janus Guðlaugsson mátti sætta sig við að sitja á bekknum allan tímann. Íhaldssemi Ásgeirs heitins í skiptingum var alla tíð með ólíkindum. Janusi var ekki skemmt og það er athyglisvert að hann er hvergi að sjá á myndinni í Íslenskri knattspyrnu sem tekin var af liðinu eftir verðlaunaafhendinguna.
Víðismenn fengu ekki langan tíma til að sleikja sárin. Lið þeirra var í botnsæti deildarinnar og þurfti að vinna báða síðustu leikina sína og vonast eftir hagstæðum úrslitum annars staðar til að halda sér uppi þriðja árið í röð. Fyrsta skrefið í flóttanum mikla stigu þeir á Akranesi, með því að vinna Skagamenn 3:4 í mögnuðum leik. Í lokaumferðinni skelltu þeir svo KR-ingum á heimavelli, 2:0. Fyrr um sumarið höfðu Víðimenn gert jafntefli í Frostaskjóli og slegið KR út úr bikarnum.
Víðismönnum tókst næstum hið ómögulega… en Valsmenn klúðruðu þessu fyrir þeim. Í lokaumferðinni gerði Valur aðeins markalaust jafntefli við Völsung á heimavelli. Norðanmenn héngu uppi á einu marki á markatölu. Skömm Valsara verður lengi uppi!
Samkvæmt opinberum tölum voru 311 áhorfendur á Hlíðarenda sem sáu Val halda Völsungi í deildinni og til að fylgjast með afhendingu Íslandsbikarsins. Það eru lægri tölur en vænta mætti á fámennasta leik efstu deildar á heilli leiktíð nú um stundir. Verði mönnum að góðu að trúa þeirri tölfræði.
(Mörk Fram: Guðmundur Steinsson 2, Ragnar Margeirsson, Viðar Þorkelsson, Ormarr Örlygsson)