Glugginn: Fótboltasaga mín 31/100

11. maí 1988. KV Mechelen 1 : AFC Ajax 0

Á níunda áratugnum var sjóndeildarhringur fótboltaáhugamannsins ansi þröngur. Enska boltann mátti sjá á laugardögum á RÚV, en varðandi aðrar deildarkeppnir þurftu menn að láta sér umfjöllun dagblaðanna nægja. Blöðin sögu frá úrslitum og stöðu í fjölda landa. Skotland, Vestur-Þýskaland, Spánn, Ítalía, Frakkland og Holland skutu reglulega upp kollinum. Enginn varð heldur hissa þótt stöðutaflan í Belgíu, Sviss, Grikklandi, Portúgal, Norðurlöndunum eða jafnvel Sovétríkjunum birtist. Á einhvern skringilegan máta vorum við einangruð en um leið alþjóðlega þenkjandi í senn.

Við þessar aðstæður var ekki að undra þótt úrslitaleikirnir í Evrópukeppni meistaraliða og Evrópukeppni bikarhafa vektu sérstaka eftirvæntingu. Þar fékk maður loksins glugga til að sjá sjálfur spænsku, þýsku og ítölsku stórliðin sem maður vissi svo mikið um án þess að hafa nokkru sinni barið augum.

Evrópukeppni meistaraliða var augljóslega aðalleikur ársins og oft bölvaði maður því að UEFA-bikarinn væri ekki sýndur, þar sem leikið var til úrslita heima og heiman. Bikarhafakeppnin var hins vegar samviskusamlega sýnd, þótt hún væri að jafnaði mun veikari en hinar tvær. Þannig skutu lið á borð við Lokomotiv Leipzig og Rapid Vín upp kollinum í úrslitaleikjum þessara ára.

Úrslitaleikurinn vorið 1988 í Strasbourg hljómaði heldur ekki glamúrös. Að flestra mati hafði hinn eiginlegi úrslitaleikur farið fram í undanúrslitunum, þar sem Ajax sló út Marseille. Obskjúr belgískt smálið yrði varla mikil fyrirstaða í lokaleiknum.

Ajax var samkvæmt skilgreiningu eitt af stórliðum Evrópu og Holland rísandi stjarna í heimsfótboltanum. Reyndar klingdu nöfnin í leikmannahópnum ekki mörgum bjöllum hjá manni, en fáeinum vikum síðar átti það eftir að breytast á EM 88.

Mechelen var hins vegar alveg óþekkt stærð. Íslenskir knattspyrnuáhugamenn höfðu svo sem ágætis þekkingu á belgíska boltanum, þökk sé Ásgeiri Sigurvinssyni og Arnóri Guðjohnsen. Anderlecht var risinn í Belgíu en flestir gátu talið upp nokkur lið í viðbót. Sjálfur hélt ég með Antwerpen (maður átti náttúrlega uppáhalslið í öllum deildarkeppnum á þessum árum).

Mechelen skaust snögglega á toppinn, rækilega stutt af vellríkum eiganda. Liðið lék í hálfaulalegum rauð- og gulröndóttum búningum sem minntu mig alltaf á sælgætistöflur sem voru seldar í ópal-pökkum. Man ekki nafnið. Heimavöllur liðsins tók langt innan við 20.000 manns og það átti örfá góð ár í sólinni. Varð belgískur meistari og bikarmeistari – áður en allt endaði í gjaldþroti og tárum.

En fjármálalögfræðingarnir voru enn víðs fjarri veturinn 1987-88 þegar Mechelen ruddi hverjum andstæðingnum á fætur öðrum úr vegi. Leiðin í úrslitin var raunar furðugreið: Dinamo Búkarest, St. Mirren, Dinamo Minsk og Atalanta. Það var helst að Atalanta hefði getað talist stórfiskur í þessari upptalningu.

Og ætli Ajax hefði ekki unnið frekar greiðlega ef Danny Blind hefði ekki verið rekinn útaf eftir kortér. Tíu á móti ellefu var jafnræði með liðunum. Mechelen skoraði í byrjun seinni hálfleiks og þótt Hollendingarnir reyndu sitt besta, komust þeir aldrei framhjá Michel Preud´homme í markinu. Það var reyndar eini Mechelen-maðurinn sem maður þekkti fyrir leikinn.

En hverjir aðrir voru í þessu belgíska liði? Jú, Erwin Koeman. Hann var frægur fyrir að vera helmingurinn af Koeman-bræðrum – en þó óneitanlega mun síðri helmingurinn. Fyrirliðinn hét Leo Clijsters. Það nafn sagði manni ekki neitt á sínum tíma, en í dag er hann frægur fyrir að vera pabbi hinna frægu Clijsters-tennissystra. Eins veitti ég því enga athygli þegar Ajax reyndi að klóra í bakkann með því að senda inn kornungan framherja. Hann hét Dennis Bergkamp.

Ég var ofsakátur með úrslitin, enda á þessum tíma sökker fyrir því þegar minni liðin unnu þau stærri (og er það svo sem enn). Það var ekki fyrr en seinna að ég fór að láta nýrík fótboltalið fara í taugarnar á mér: lítil félög og sneydd sögu sem rjúka upp eins og rakettur og enda yfirleitt með einum blossa áður en prikið fellur til jarðar. Búningurinn var samt fábjánalegur.

(Mark KV Mechelen: Piet Den Boer)