Smekksatriði: Fótboltasaga mín 33/100

3. ágúst 2005. FH 2 : Fram 2 (8:9 eftir vítakeppni og bráðabana)

2005 var vonbrigðaár hjá Frömurum. Liðið hafði klárað tímabilið 2005 undir stjórn Ólafs H. Kristjánssonar með glæsibrag. Ólafur var endurráðinn og virtist hafa skýrar hugmyndir um hvað hann ætlaði sér. Mannskapurinn virtist nokkuð sterkur, en eftir á að hyggja voru óvissuþættirnir of stórir. Útlendingarnir í liðinu stóðu ekki undir væntingum eða lentu í meiðslavandræðum. Það vantaði líka markahrók í liðið. Enginn leikmaður skoraði meira en fjögur mörk í deildarleikjunum átján.

Þetta byrjaði reyndar vel. Fram vann Eyjamenn 3:0 í fyrstu umferð og komst í toppsætið í fyrsta sinn í fleiri ár. Ýmsir urðu pínlega roggnir í fáeina daga áður en veruleikinn kom og beit okkur í rassinn. Fram féll um haustið og tapaði fyrir Val í tilþrifaminnsta bikarúrslitaleik seinni ára í lokaleik tímabilsins.

En sigurinn á FH í undanúrslitunum var þó ljúfur. Leikið var á miðvikudegi eftir verslunarmannahelgi. Á þeim tímapunkti höfðu FH-ingar unnið alla leiki sína gegn íslenskum liðum um sumarið. Spurningin var ekki hvort FH yrði Íslandsmeistari heldur hvort það yrði á fullu húsi stiga með bikarmeistaratitilinn í kaupbæti.

Og meistaraheppnin virtist ætla að fylgja FH í undanúrslitaleiknum á Laugardalsvelli. Andri Fannar Ottósson skoraði mark í fyrri hálfleik sem líklega var löglegt, en dæmt af vegna rangstöðu. Síðar í sama hálfleik fékk mark Hafnfirðinga að standa þar sem líklega var um rangstöðu að ræða. FH gekk til búningsklefa í leikhléi með 2:0 forystu.

Við sötruðum kaffið okkar í hálfleik og bölvuðum í hljóði. Enginn hafði minnstu trú á að FH gæti glutrað niður slíkri forystu. Ólafur Jóhannesson þjálfari Fimleikafélagsins var líklega á sama máli og farinn að hugsa um næsta leik sinna manna, gegn KR fjórum dögum síðar. Þegar tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma ákvað Ólafur að hvíla Heimi Guðjónsson. Nánast um leið fór að rýmkast um spilið á miðjunni hjá Fram. Fimm mínútum síðar hjálpaði landsliðsþjálfarinn verðandi okkur enn meira með því að taka Dennis Siim útaf.

Síðasta kortérið tóku Framarar völdin á vellinum. FH-ingar urðu skyndilega taugaveiklaðir, enginn þó eins og Daði Lárusson markvörður sem gerði fáránleg mistök á 80. mínútu sem leiddu til marks. „Daða í landsliðið!“ var eitt eftirlætisslagorð Hafnarfjarðarmafíunnar þetta sumarið – svo að sjálfsögðu spratt ég á fætur um það leyti sem fagnaðarlátunum var lokið og þrumaði „Daða í landsliðið!” nokkrum sinnum. Það að vera stór í sigri er stórlega ofmetið fyrirbæri.

Andri Fannar skoraði markið. Um það vorum við sammála á vellinum. Hann var líka talinn markaskorarinn í Mogganum, Fréttablaðinu og bókinni Íslenskri knattspyrnu 2005. Sé þó að á vef KSÍ er markið talið sjálfsmark. Vanhæft knattspyrnusamband! (Setjið inn brandara að eigin vali um kreditkort í Sviss og nætursölu á miðum.)

FH-ingar fóru á taugum og drógu sig enn aftar. Það gat bara farið á einn veg og Bo Henriksen (einhver allra besti útlendingur sem hér hefur spilað, þá sjaldan hann var ekki meiddur) jafnaði metin þegar fimm mínútur voru eftir. Daði Lárusson leit heldur ekkert sérstaklega vel út í það skiptið.

Í framlengingunni náðu Hafnfirðingar að skipuleggja sig á nýjan leik, auk þess sem nokkuð var af Frömurum dregið eftir að hafa þurft að elta mestallan leikinn. Við lékum upp á vítakeppni og náðum henni.

Daði og Gunnar Sigurðsson, markvörður Framara vörðu hvor sína spyrnuna í upphafi vítakeppninnar (spyrnur nr. 2 og 3) en upp frá því fór allt í netið. Það var ekki fyrr en eftir þrefaldan bráðabana að Gunnari tókst að verja spyrnu og Fram var komið í úrslit. Það var ekki leiðinlegt, ónei!

Mér er alveg sama hvað leikskýrslur KSÍ segja, í mínum huga skoraði Andri Fannar markið sem kom okkur inn í leikinn. En það sem engan óraði fyrir á þessum tíma var að þetta yrði næstsíðasta mark hans í deild eða bikar. Sumarið eftir lagði hann skóna á hilluna, aðeins 24 ára gamall, eftir fáeinar umferðir.

Andri Fannar er einn af  uppáhaldsleikmönnunum mínum, meðal annars vegna þess að hann var óvenjuleg týpa af fótboltamanni. Í eftirminnilegum pistli útskýrði Duleep Allirahjah íþróttaskríbent vefritsins Spiked, hvers vegna betra væri að knattspyrnumenn hlustuðu bara á Coldplay og Phil Collins frekar en framsækið tilraunarokk. Knattspyrnumenn næðu nefnilega bestum árangri þegar þeir settu sér það eina markmið í lífinu að sparka bolta með meiri nákvæmni – slíkt væri ekki viðfangsefni fyrir leitandi sálir.

En Andri Fannar hafði greinilega áhuga á fleiri hlutum. Hann var skemmtilegur bloggari, áður en Mogganum var búið að takast að drepa það fyrirbæri. Hann hlustaði á Megas og lærði heimspeki í Háskólanum. Það var alltaf hætta á að slíkur maður gæti komist að þeirri niðurstöðu að hægt væri að gera annað í lífinu en mæta á æfingar.

Í lok júní 2006 lak það loks út að Andri Fannar væri hættur að æfa með Fram. Fréttablaðið sagði frá málinu í epískri smáfrétt, þar sem stóð meðal annars:

„… Framararnir sýndu mér mikinn skilning og allir fara sáttir frá borði“, sagði Andri Fannar. „Eins og Megas sagði eitt sinn: „Að ætla að fara að temja sér þeirra siði, en þetta er allt í lagi, þetta er bara smekksatriði,“ og smekkur minn liggur annars staðar en í fótbolta núna, “ sagði Andri Fannar, sem var vonsvikinn yfir því að blaðamaðurinn hafði ekki hugmynd um hvaða lag þessa væri. „Englaryk í tímaglasi, lag númer fimm, Aðeins smekksatriði,“ sagði heimspekineminn spakur.“

Auðvitað tókst filisteanum á íþróttadeildinni að klúðra aðeins Megasar-tilvitnuninni, en engu að síður er mér til efs að margir íslenskir fótboltamenn hafi lokið ferliðinum með mikið töffaralegri tilkynningu. Alltaf að vitna í Megas þegar það er hægt! – Eftir stendur að það hefði óneitanlega haft sína kosti ef Andri Fannar hefði hlustað aðeins minna á Megas en aðeins meira á Phil Collins.

(Mörk FH: Allan Borgvardt 2. Mörk Fram: Andri Fannar Ottósson, Bo Henriksen)