1. september 2012. Þróttur 3 : Fram 0
Ósanngjarnasta reglan í fótboltanum er sú sem segir að brot á leikmanni sem sloppinn er einn inn fyrir hljóti að þýða rautt spjald. Finnst einhverjum það í alvörunni sanngjarnt þegar markvörður rennir sér í 50/50 tæklingu og brýtur af sér er rekinn af velli, andstæðingarnir fá víti og eru með unnin leik í höndunum? Er vítaspyrnan ekki andskotans nóg, nema þegar um sérlega fólskulegt eða heimskulegt brot er að ræða? Af hverju mega dómarar ekki láta heilbrigða skynsemi ráða í þessum tilfellum?
Sumarið 2012 var það einmitt svona atriði sem eyðilagði vinnu heils sumars hjá Framstelpunum.
Næstefsta deildin í kvennaboltanum skiptist upp í tvo riðla sem hvor um sig skilar tveimur liðum í undanúrslit. Sigurliðin þar komast svo upp í efstu deild. Fram var heppið með drátt og lenti í B-riðlinum sem almennt var talinn léttari. Það voru því taldar ágætar líkur á að Framstelpurnar gætu komist í undanúrslitin.
Það sem síðar gerðist kom hins vegar öllum á óvart. Framliðið reyndist óstöðvandi og lagði hverja andstæðingana á fætur öðrum, suma með miklum mun. Þegar uppi var staðið höfðu Framarar unnið þrettán af fjórtán leikjum. Eina tapið var 2:3 gegn HK/Víkingi á grasvellinum í Safamýri. Það var reyndar eini leikurinn sem ég gerðist svo frægur að sjá í riðlinum – og Fossvogsstelpur voru stálheppnar að hirða öll stigin.
Það er gaman að vinna leiki og auðvitað brostu Framarar út að eyrum. Sumir höfðu þó orð á því að þetta væri óþarflega bratt. Framliðið væri of ungt og hefði ekkert upp að gera strax. Betra væri að bíða í 3-4 ár uns meiri festa væri komin á kvennaboltann innan félagsins og yngri flokkarnir farnir að skila sér upp. Aðrir hnussuðu eitthvað um lúxusvandamál og að stjórn félagsins yrði bara að taka á því ef liðið „slysaðist“ upp um deild. Það mætti þá kaupa nokkra sterkari leikmenn til liðsins til að bjarga málum fyrir horn.
En fyrst þurfti náttúrlega að vinna undanúrslitaeinvígið. Andstæðingarnir þar yrðu væntanlega Fjölniskonur, enda allt útlit fyrir að Þróttarar tækju toppsætið í A-riðlinum. Sú hefði orðið raunin ef Þrótti hefði tekist að landa sigri í öðrum af tveimur síðustu leikjum sínum, sem báðir voru gegn Hetti Egilsstöðum. Höttur vann í tvígang og strax fóru að heyrast sögur um að Þróttur hefði tapað viljandi – og að heyrst hefði til forráðamanna Þróttar segja að þrátt fyrir riðlakeppnina væri Fram miklu auðveldari andstæðingur en HK/Víkingur.
Við Framstuðningsmenn urðum súrir yfir þessum fregnum. Töldum liðið okkar eiga meiri virðingu skilið, einkum frá klúbbi sem spilar í treyjum sem minna á brjóstsykursmola. Allar áhyggjur af ótímabæru úrvalsdeildarsæti voru því settar til hliðar fyrir fyrri leikinn á Valbjarnarvelli. Og Framliðið byrjaði af krafti í leik sem virtist ætla að verða opinn…
En eftir rétt rúmar fimm mínútur var leikurinn ónýtur og einvígið búið. Þróttarstelpa slapp í gegn, Frammarkvörðurinn kom út á móti – samstuð, víti, rautt, 1:0. Einum fleiri í 85 mínútur tókst Þrótti að bæta tveimur mörkum við, lokatölur 3:0. Framliðið hafði ekki einu sinni varamarkvörð, heldur var útispilandi varamaður settur á milli stanganna. Sú hafði reyndar æft eitthvað mark í yngri flokkum.
Seinni leikurinn var formsatriði. Markvörðurinn í banni og varaskeifan frá fyrri viðureigninni því látin byrja inná. Þróttarar voru í veisluskapi og unnu auðveldlega, 4:0.
Líklega var Þróttarliðið betra en Framliðið. Of slakir andstæðingar í riðlakeppninni um sumarið höfðu ekki búið Framstelpurnar nægilega vel undir átök gegn sterkari liðum. Þær brotnuðu því of auðveldlega þegar þær mættu mótspyrnu. – Það má því reikna með því að ellefu á móti ellefu hefðu Þróttarar unnið einvígið. En það var samt helvíti gremjulegt að það hafi aldrei reynt á það. Heilt keppnistímabil eyðilagðist útaf einni 50/50 tæklingu aðeins of snemma í leik.
Reglan sökkar! Spái því samt að FIFA muni ekki hrófla við henni fyrr en hún verður búin að eyðileggja úrslitaleik á HM.
(Mörk Þróttar: Margrét María Hólmarsdóttir 2, Valgerður Jóhannsdóttir)