Steggirnir: Fótboltasaga mín 35/100

 12. júní 2004. Portúgal 1 : Grikkland 2

Ég hélt með Frökkum á HM 1998 og EM 2000 og var ekki svikinn. Á HM 2002 hélt ég tryggð við Frakkana, en þeir voru svo slappir og leiðinlegir að ég hef ekki enn fyrirgefið svikin. Fyrir EM 2004 þurfti ég því að velja mér nýtt lið að styðja. Valið var ekki auðvelt. Tékkarnir komu til greina, en ég var ekki alveg nógu sáttur við þann kost. Tíminn leið og ekki tókst mér að ákveða mig.

Hafði svo sem um annað að hugsa. Í sumarbyrjun 2004 fórum við Steinunn saman til útlanda í hálfan mánuð. Við vorum samferða Elvari Ástráðssyni, vini okkar úr friðarbarátunni og viskýgæðingi. Leiðin lá til Skotlands.

Fyrri vikuna vorum við á viský- og þjóðlagahátíð á Islay, þar sem við heimsóttum öll brugghúsin og drukkum í okkur menningu svæðisins ásamt nokkrum öðrum Íslendingum. Eftir dvölina á Islay héldum við þrjú saman til Glasgow og þaðan fórum Steinunn saman til Edinborgar í nokkra daga. Ákaflega ljúfir dagar.

Við komum til Glasgow um það leyti sem setningarhátíðin á EM í Portúgal var að byrja og enn hafði ég ekki valið mér lið. Við fengum okkur í svanginn á veitingahúsi og trítluðum svo á gistiheimilið. Steinunn ákvað að leggja sig og ég rölti út í leit að bar til að horfa á leikinn.

Ég þurfti ekki að labba langt áður en ég fann stað sem var furðuleg blanda af pöbb, kaffihúsi og fjölskylduveitingastað. Þetta var vissulega vínveitingahús, en gestirnir voru líklegri til að drekka kaffi með paninibrauðinu sínu en að þamba bjór og skella í sig skotum. – Allir nema strákarnir í horninu.

Portúgalir mættu til leiks fullir sjálfstrausts. Þeir ætluðu að verða Evrópumeistarar á heimavelli og Grikkir áttu nú ekki að verða mikil hindrun á þeirri vegferð. Enginn hafði veitt gríska liðinu minnstu athygli fyrir mót. Þjálfarinn Otto Rehagel var svo sem frægur fyrir störf sín í Þýskalandi, en annars var varla í gríska landsliðinu þekktur utan heimalandsins.

En Grikkirnir hans Rehagels voru fáránlega skipulagðir. Þeir vörðust sem einn maður og einsettu sér svo að skora með skyndisóknum eða úr föstum leikaatriðum. Kannski ekki skemmtilegasta leikaðferðin, en afskaplega skynsamleg fyrir lið í þessari stöðu.

Gríska liðið skoraði eftir fáeinar mínútur. Heimamenn urðu pirraðir, en stressuðust ekki strax, enda vissir um að skora nokkur mörk á móti. Eftir því sem leið á hálfleikinn fóru áhorfendur, bresku þulirnir og portúgölsku leikmennirnir þó að að verða órólegri.

Á veitingastaðnum fór hávaðastigið líka hækkandi. Strákarnir í horninu voru greinilega að byrja steggjapartý. Þeir drukku mikið og ráku upp öskur af því tagi sem sérstaklega einkennir skoskt næturlíf. Aðrir gestir skiptust á augngotum og ranghvolfdu í sér augunum, en reyndu annars að leiða þetta hjá sér.

Rétt áður en flautað var til leikhlés var kveikt á græjum veitingahússins og eitthvert popplag fór að drynja. Fram steig stelpa í frakka með lögregluhúfu… stripparinn var mættur!

Og við tók einhver fáránlegasta sena sem ég hef orðið vitni að. Á miðjum degi á björtum veitingastað, þar sem hrekklausir túristar drukku kaffi og fjölskyldur átu hamborgara, byrjaði lítil og þrýstin fatafella að fetta sig og bretta. Hún svipti sér úr frakkanum og fljótlega úr bolnum líka. Á nærbuxum og í háum stígvélum einum fata fór hún að nudda sér utan í stegginn á meðan vinir hans geltu og ýlfruðu. Svo lagið búið og hún snarstoppaði – tíndi upp fötin, sendi hópnum fingurkoss og hljóp út. Og allir sneru sér aftur að leiknum.

Starfsmönnum hússins fannst greinilega ekkert athugavert við uppákomuna heldur og létu eins og þeir sæju ekki reiðisvipinn á sumum hinna gestanna. Gaurarnir í steggjapartýinu voru himinsælir, þó eitt skyggði reyndar á gleði þeirra: Portúgal – eða öllu heldur Ronaldo – væri að tapa. Einn í hópnum var í Manchester United-treyju merktri Ronaldo og annar skartaði portúgölskum landsliðsbol.

Kannski var það pirringurinn út í hljóðabelgina í horninu frekar en bara aðdáunin á gríska varnarleiknum sem sannfærði mig um að Grikkir yrðu mínir menn á EM. Ég fór að lifa mig enn meira inn í leikinn og fagnaði vel þegar Grikkir fengu víti og skoruðu aftur í byrjun seinni hálfleiks. Við tók örvæntingarfull stórsókn Portúgala allt til loka, sem skilaði engu nema einu marki Ronaldos í uppbótartíma. Þá var steggjapartýið reyndar farið að hugsa sér til hreyfings á eitthvert steikhús.

Grikkirnir sviku mig heldur ekki í mótinu. Þeir skoruðu í hverjum leik og unnu allar viðureignirnar í útsláttarkeppninni án þess að grípa þyrfti til vítakeppni. Það voru fáir sem gengust við því að halda með Grikklandi í byrjun móts, en við vorum þeim mun betur verðlaunuð þegar Grikkir unnu Portúgal öðru sinni í sjálfum úrslitaleiknum.

(Mark Portúgal: Cristiano Ronaldo. Mörk Grikklands: Giorgos Karagounis, Algelos Basinas)