Ljónið: Fótboltasaga mín 37/1000

25. júní 1994. Nígería 1 : Argentína 2

1994 var ár Rauða ljónsins. Um 18-19 ára aldurinn fór skemmtanalífið í vaxandi mæli að snúast um að bregða sér út á lífið og drekka bjór. Miðbærinn varð oft fyrir valinu, en Rauða ljónið var ekki síður vinsælt. Á Rauða ljóninu þurfti nefnilega aldrei að hafa áhyggjur af skilríkjum eða öllu heldur skilríkjaleysi.

Minnisstæð var uppákoman þegar MR-spurningaliðsklíkan fjölmennti á Ljónið eftir útvarpskeppni í Gettu betur. Eftirlitið kom aðvífandi og sá stóran hóp 16-20 ára stráka þar sem allir voru að drekka bjór. Eftir að hafa virt okkur lengi fyrir sér, bentu þeir á Óla Jó – sem augljóslega var elstur í hópnum, nýskriðinn yfir tvítugt. Hann var látinn sýna ökuskírteinið og þegar hann reyndist löglegur kinkuðu fulltrúar valdsins til okkar kollinum og héldu á brott. Það var greinilega enginn áhugi á að koma Rauða ljóninu í vandræði.

Það hefur varla liðið sú vika árið 1994 af ég ræki ekki kollinn inn á Rauða ljónið, þó ekki væri nema í eina kollu. Fyrir vikið hef ég heyrt „Undir bláhimni“ leikið oftar á skemmtara og gítar en ég kæri mig um að rifja upp.

Sumarið 1994 var líka heimsmeistarakeppni í fótbolta. Mótið var í Bandaríkjunum og verður seint talið einn af hápunktum HM-sögunnar. Þar voru þó engir Englendingar meðal þátttökuliða, sem var mikill kostur.

RÚV sýndi HM og ruddi að mestu hefðbundinni dagskrá í burtu fyrir beinu útsendingunum. Á því voru þó nokkrar undantekningar, einkum um helgar. Þannig fengu sjónvarpsáhorfendur laugardagskvöldið 25. júní að fylgjast með Simpson-fjölskyldunni, Morðinu á Mary Phagan (fyrri hluta bandarískarar sjónvarpsmyndar frá 1988) og hollenskri mynd frá 1991 um kokkál í smábæ á sjötta áratugnum.

Þetta var vont mál í ljósi þess að sama kvöld áttust Argentína og Nígería við í annarri umferð riðlakeppninnar. Argentínumenn slátruðu Grikkjum í fyrsta leik, 4:0, þar sem Maradona var stórkostlegur. Hann mætti til leiks tiltölulega grannur og í fantaformi. Ég sannfærðist um að þeir yrðu heimsmeistarar. Síðar kom í ljós hvers vegna hann var í svona fínu standi og HM-ævintýrið endaði í tárum.

Nígeríumennirnir voru líka þrusuflottir í sínum fyrsta leik, þar sem þeir völtuðu yfir Búlgari sem höfðu það eina plan í keppninni að dæla boltum á Stoichkov og vona að hann framkallaði einhverja snilld. Það var reyndar fínt plan. Stoichkov var æðislegur leikmaður. – En gegn Nígeríu komst hann ekkert í takt við leikinn. Minnisstæð voru fagnaðarlæti Rashidi Yekini í fyrsta markinu, þar sem hann stóð og hélt öskrandi í netið. Nígería leit út fyrir að vera næsta stórveldi í alþjóðaboltanum.

Það var ekki hægt að láta þennan leik fram hjá sér fara svo við Óli Jó ákváðum að skella okkur á Rauða ljónið sem státaði af gervihnattadisk. Óli sótti mig á Neshagann þar sem ég var í mat hjá afa og ömmu, eins og alltaf á laugardagskvöldum.

Afi heitinn fór eitthvað að hafa orð á því hvað það væri skítt að missa af leiknum, sem yrði augljóslega einn af viðureignum keppninnar. Við sögðumst vera á leiðinni á barinn og spurðum hvort hann vildi ekki bara skella sér með? Það hýrnaði yfir gamla manninum og við fórum strax að búa okkur. Í stað þess að við löbbuðum út á Nes var ég gerður að bílstjóra og sötraði kaffi yfir leiknum, en afi og Óli fengu sér bjór. Annars drakk afi sjaldan bjór. Hann náði aldrei að læra almennilega á þann drykk, heldur var meira í Tindavodkanum með slettu af Ginger ale útí.

Nígeríumenn mættu fullir sjálfstrausts og ætluðu að beita sömu aðferð og gegn búlgörsku silakeppnum fáeinum dögum fyrr: að sprengja upp argentínsku vörnina með hraða sínum. Og það virtist ætla að virka. Eftir tæpar tíu mínútur kom Samson Siasia þeim í 1:0. Argentínumenn voru í tómu klandri og hefðu getað fengið á sig fleiri mörk, en fljótlega tókst þeim að ná vopnum sínum á ný.

Með Maradona að stjórna spilinu á miðjunni og Batistuta og Caniggia að ógna frammi, hlaut eitthvað undan að láta hjá Nígeríumönnum. Þeir áttu hvort sem er aldrei séns, enda hafði fáráðurinn Péle jinxað þetta með því að spá því fjórum árum fyrr að næstu heimsmeistarar kæmu frá Afríku. Betri öfugan barómeter en Péle er erfitt að finna.

Canniggia skoraði tvisvar um miðjan fyrri hálfleikinn og í leikhléi voru allir sammála um að þetta væri leikur ársins. Í seinni hálfleik gerðist minna. Argentínumenn drápu leikinn og fóru líklega í huganum að máta sig við heimsmeistaratitilinn sem þeir hefðu líka unnið ef ekki væri fyrir eitt andskotans lyfjapróf.

Við fórum aftur á Neshagann og afi var í skýjunum. Örlítið hreifur eftir bjórinn og ánægður með að hafa í fyrsta sinn skellt sér á sportbar án þess að vera á ferðalagi í útlöndum.

Við útidyrnar hittum við Dísu frænku, Ásdísi Steinþórsdóttur afasystur mína og kennslukonu við Melaskóla um áratuga skeið. Dísa bjó á efstu hæðinni á Neshaganum og spurði hvaða ferðalag væri á okkur. Afi lyftist upp og útskýrði í löngu máli hvað strákarnir væru nú snjallir: að leikurinn hefði ekki verið á RÚV en við komið með krók á móti bragði og farið á Rauða ljónið í staðinn!

Svipurinn á Dísu frænku bar vott um fullkomið skilningsleysi. Að hennar mati var augljóslega alveg nóg af þessum helvítis fótbolta í heilan mánuð. Hvað þá að það væri sérstök snilld fólgin í því að grafa upp einn leikinn í viðbót, auk þess að harðfullorðinn maðurinn teymdi táninga með sér á knæpu! Í þessu efni ákváðu þó systkinin að vera sammála um að vera ósammála.

(Mark Nígeríu: Samson Siasia. Mörk Argentínu: Claudio Canigga 2)