27. febrúar 1999. Luton 1 : Blackpool 0
Ég fór nokkrum sinnum til útlanda með foreldrum mínum sem krakki. Þegar komið var fram á táningsár kaus ég hins vegar oftar að vera heima, enda keppikeflið að fá sem mestar sumartekjur auk þess sem það var ekki slæmt að hafa íbúðina einn fyrir sig. Snemma árs 1999 ákváðu mamma og pabbi hins vegar að skella sér í helgarferð til London og buðu okkur Þóru systur með. Ég gat losað mig úr vinnu og sló til.
Við gerðum flest það helsta sem ætlast er til af túristum í stórborginni: fórum á veitingastaði, brugðum okkur í leikhús og þræddum verslunargötur og pöbba. En á laugardeginum skiptum við liði: ég stökk upp í lest og hélt til Luton á minn fyrsta enska deildarleik.
Ég lagði snemma af stað enda ætlaði ég mér góðan tíma í Luton. Hafði þó verið varaður við því að hún yrði seint valin menningarborg Evrópu. Raunar trónaði Luton um árið á toppnum í valinu „the Shittiest Town in Britain“ og í nýlegri kosningu eins vefmiðilsins á ljótustu miðborg Bretlandseyja fékk Luton meira en 60% atkvæða af tíu valkostum.
Luton er ein þeirra borga sem farið hefur illa út úr hnignun breska iðnaðarins. Þar voru miklar bílaverksmiðjur sem hafa að mestu hætt eða dregið saman seglin. Luton-flugvöllur er helsti vinnuveitandinn, en annars er atvinnuleysi mikið. Í borginni er mjög stórt múslimasamfélag, svo að gárungar kalla hana Norður-Karachi. Félagsleg hnignun borgarinnar hefur svo leitt til þess að hún er gróðrastía ofstækisafla. Þannig eru íslamskir öfgamenn áberandi í Luton og þaðan komu mennirnir sem framkvæmdu sprengjuárásirnar í lestakerfi Lundúna um árið. Og jafnframt er Luton ein helsta miðstöð nýnasista og kynþáttahatara í Englandi.
En um þetta vissi ég ekki mikið árið 1999. Ég svipaðist um í grennd við járnbrautarstöðina og miðbæinn, en flýtti mér svo í átt að vellinum. Mér lá á að tryggja mér miða og hugsaði mér gott til glóðarinnar að finna pöbb í námunda við völlinn og jafnvel ná að spjalla við einhverja stuðningsmenn, sem hlytu að fagna gesti sem kominn væri langt að.
Völlinn fann ég og keypti miðann. Gerðist meira að segja félagsmaður, því þeir einir mega sitja í sætunum fyrir aftan mörkin. Því næst rölti ég umhverfis völlinn til að skoða hinn fræga inngang þar sem stuðningsmenn aðkomuliðanna fara inn. Það er í miðri húsalengju, þar sem hópurinn marserar upp tröppur sem liggja fyrir utan eldhúsglugga nágrannanna.
Kenilworth Road er í Bury Park-hverfinu. Þar búa nær einvörðungu múslimar sem ættaðir eru frá Pakistan. Ég mátti því þramma fram og til baka allar götur umhverfis völlinn, uns ég var farinn að hnita sífellt stærri hringi í von um að rekast á bar. En góðir múslimar drekka ekki áfengi. Hverfisbúðirnar seldu ekki einu sinni öl. Hins vegar var enginn hörgull á slátrurum sem buðu upp á kjöt af skepnum sem höfðu verið aflífaðar á hátt sem spámanninum var þóknanlegur.
Eftir maraþongöngutúr gafst ég upp og rölti aftur að vellinum. Þar inni mátti lepja Carlsberg úr plastglösum og glugga í leikskrána. Áhorfendur dreif að og ég kom mér fyrir í stúkunni nógu tímanlega til að heyra vallarþulinn segja nafn mitt í hljóðkerfinu og taka fram að hér væri íslenskur stuðningsmaður mættur á sinn fyrsta leik. Þessu fylgdi mikil súpa af nöfnum yfir afmælisbörn úr hópi áhorfenda.
Andstæðingarnir voru Blackpool og leikurinn í þriðju efstu deild. Blackpool og Luton voru þennan vetur á sama róli um nákvæmlega miðja deild, laus við að vera í nokkurri fallhættu en jafnframt án þess að eiga raunhæfan möguleika á að komast í umspil. Leikurinn var því nánast orðabókarskilgreining á miðjumoði.
Það voru fáir frægir í Blackpool-liðinu, fyrir utan stjórann Nigel Worthington. Stórnöfnunum var svo sem ekki fyrir að fara hjá Luton heldur. Fæst nöfnin klingja bjöllum hjá öðrum en Luton-stuðningsmönnum. Phil Gray, gamli Tottenham-maðurinn var reyndar hjá okkur um þessar mundir og Emmerson Boyce, sem síðar fór til Crystal Palace og Wigan var í vörninni. Julian James og Marvin Johnson voru þeir einu sem eftir voru af þeim sem leikið höfðu með Luton í efstu deild.
Leikurinn var óskaplega bragðdaufur. Raunar svo bragðdaufur að í mörg ár minnti mig að hann hefði farið 0:0. Síðar sló ég þessu upp og komst að því að Stuart Douglas hefði skorað eina markið í 1:0 sigri okkar. Einhver hefur meira að segja haft fyrir því að taka mynd af vídeóupptöku af markinu og skella á Jútúb. Í þessum rituðum orðum hefur sú upptaka verið skoðuð 66 sinnum, þar af þrívegis af mér.
Eftir leikinn fór ég í minjagripaverslunina og sankaði að mér treyjum, stuttbuxum, kaffikrúsum, pennum, treflum, húfum, lyklakippum, myndabandsspólum o.s.frv. Afgreiðslufólkið sá að þarna var augljóslega sturlaður maður á ferð og spurði mig sem fæstra spurninga. Klukkutíma síðar var ég kominn aftur um borð í lestina til Lundúna, þar sem ég hafði mælt mér mót við famelíuna í kvöldmat. Pílagrímsferðinni var lokið.
(Mark Luton: Stuart Douglas)