Bónorðið: Fótboltasaga mín 39/100

29. september 2007. Víkingur 1 : FH 3

Þegar við Steinunn bjuggum á Mánagötunni, bauð plássið í eldhúsinu ekki upp á að hafa uppþvottavél. Við göntuðumst oft með að það væri límið í sambandi okkar að þurfa að vaska upp saman og geta þá rætt málin í rólegheitum. Það voru a.m.k. ófáar ákvarðanirnar teknar yfir uppvaskinu.

Vorið 2007 var Hrönn, æskuvinkona Steinunnar frá Neskaupstað, stödd hjá okkur – líklega á einhverju námskeiðinu í bænum. Hrönn brá sér í sturtu eftir matinn á meðan við Steinunn fórum að vaska upp. Í miðjum klíðum spyr Steinunn hvort ég vilji giftast sér. Ég var nú svona frekar á því. Skömmu síðar kom Hrönn úr sturtunni og við felldum niður tal, enda svo sem ekki um margt frekar að ræða.

Við ákváðum þrennt varðandi brúðkaupið. Í fyrsta lagi ætluðum við einkum að bjóða vinum okkar, í öðru lagi ætluðum við ekki að setja okkur á hausinn með tilstandinu og í þriðja lagi nenntum við ekki að fylla húsið af drasli sem ekkert pláss væri fyrir. Niðurstaðan varð því sú að afþakka gjafir en biðja gestina um að leggja til einn rétt á hlaðborð og léttvín á barinn. Til viðbótar keyptum við svo vænan slurk af bjór og blöndu í fordrykk. Heildarkostnaðurinn varð vel innan við hundraðþúsundkall og við losnuðum við ljótar styttur og fondú-potta.

Þar sem Hilmar Örn allsherjargoði er svo mikill vinur okkar kom ekki annað til greina en að fá hann til að sjá um vígsluna. Staðsetningin var svo nokkuð augljós: félagsheimili Orkuveitunnar í Elliðaárdal. Ég átti fullt af orlofshúsapunktum hjá Starfsmannafélaginu og gat því fengið húsið lánað fyrir slikk, þetta var bara spurning um að finna lausan tíma.

Ég bankaði upp á hjá Starfsmannafélaginu og fékk að skoða hvenær húsið væri laust. Laugardagurinn 29. september var ekki bókaður, svo ég stökk á þá dagsetningu: sumarið ekki alveg búið og Elliðaárdalurinn enn upp á sitt besta. Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að ég áttaði mig á því að þetta var sama dag og lokaumferð Íslandsmótsins…

Framarar voru komnir aftur í efstu deild eftir árshvíld. Ólafur Þórðarson var tekinn við þjálfuninni og í fyrstu hafði ég ekki stórvægilegar áhyggjur af þessum árekstri. Fram myndi ekki blanda sér í toppbaráttuna en varla lenda í mikilli fallbaráttu heldur, svo mín yrði varla sárt saknað í lokaumferðinni. Önnur varð þó raunin!

Framliðið var furðulánlaust allt sumarið og var lengst af í og við fallsæti. Í næstsíðustu umferð náðu Framarar stigi gegn KR á dramatískan hátt á lokamínútunni og héldu sér þannig í áttunda sæti á betri markatölu en KR, með einu stigi meira en botnlið Víkings og einu stigi minna en HK fyrir lokaleikina. Fjölgun í efstu deild stóð fyrir dyrum og því myndi aðeins eitt lið falla.

Förum aftur yfir stöðuna: Víkingar voru á botninum með 14 stig. KR og Fram með 15, en Framararnir með miklu betri markatölu. HK með 16 stig en mun verri markatölu en KR. – Í lokaumferðinni áttu HK og Víkingur toppliðin tvö: Val og FH. Fram og KR áttu Breiðablik og Fylki sem höfðu ekki að neinu að keppa. Framarar gátu því möglega leyft sér að tapa í lokaleiknum, en jafntefli myndi nær örugglega duga. Það var þó ekkert 100% öruggt og því full ástæða til magasárs.

Á sjálfan brúðkaupsdaginn var ég verkum hlaðinn. Skutlaðist fram og aftur með veisluföng og skautbúnað og snattaðist fyrir hljómsveitina hans Kolbeins Proppé, sem jafnframt var veislustjóri. Um tvöleytið reyndi ég þó að halda mig í námunda við Minjasafnið, neðar í dalnum. Þar hafði ég kveikt á sjónvarpsútsendingunni frá lokaumferðinni – Víkingur : FH.

Útsendingin var á Sýn og það átti að heita að skipt væri á milli FH-leiksins og viðureignar Vals og HK. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði maður ætlað að Valsleikurinn væri í aðalhlutverki, enda Valsmenn að landa sínum fyrsta Íslandsmeistaratitla í óratíma, en einhverra hluta vegna var útsendingin að mestu úr Víkinni.

Sinisa Kekic kom Víkingum yfir og hjartað í mér sökk. Reyndar komust Valsmenn snemma yfir gegn HK, en það hafði ekkert upp á sig ef Framarar töpuðu í Kópavoginum. Valur Norðri félagi minn var á Breiðabliksvellinum og sendi reglulega sms um stöðu mála, en sjálfur stóð ég í dyragættinni á Minjasafninu og horfði á leikinn á skjá en hlustaði á Rás 2 í útvarpinu í bílnum sem lagt var beint fyrir framan. (Þráhyggja? Neinei…)

Jónas Grani skoraði fyrir Fram seint í fyrri hálfleiknum – til þess eins að Blikarnir jöfnuðu á næstu mínútu. Það var því ennþá allt opið í hálfleik, þótt FH næði að jafna í Víkinni. Á KR-vellinum komust heimamenn yfir snemma leiks og virtust sloppnir. Meðan á leikhlénu stóð rann hægt og bítandi upp fyrir mér hversu lítið þyrfti að breytast til að Framararnir drægjust niður í botnsætið – og það á brúðkaupsdaginn minn.

Ég reyndi að benda sjálfum mér á að enn þyrftu HK-menn að skora á Hlíðarenda – og þótt Valsmenn væru labbakútar og liðléttingar færu þeir varla að henda frá sér Íslandsmeistaratitli á heimavelli gegn fokkíng Handknattleiksfélagi Kópavogs sem hefði ekki skorað nema sautján mörk til þessa í deildinni. En maður veit aldrei…

Snemma í seinni hálfleiknum skoraði FH aftur og þá var loksins hægt að varpa öndinni léttar. Nánast á sömu mínútu komust Blikarnir yfir, en það raskaði ekki ró minni mikið. Víkingarnir voru augljóslega á leiðinni niður. Síðar fengu Framarar víti og Jónas Grani skoraði aftur, til að tryggja sér gullskóinn og á lokamínútunum misstu KR-ingarnir sinn leik niður í jafntefli og Fram hafnaði í sjöunda sæti. Ég lyppaðist nánast niður af spennufalli… en nú voru ekki nema tíu mínútur í að gestirnir renndu í hlað.

Án þess að hafa almennilega náð að meðtaka úrslitin ók ég þennan stutta spöl milli safnsins og félagsheimilisins og byrjaði strax að taka á móti gestum. Þetta var fínt partý og flott vígsla, þegar ég „óð vafurlogann“ (lesist: klofaði á milli sprittkertanna) til Steinunnar og Hilmars Arnar. Hann lyfti blóthringnum á loft eftir að hafa helgað jörðina með pilsner eða bjór. Og þegar við Steinunn gripum saman um blóthringinn og kysstumst hvíslaði hún stríðnislega: „Fyrir Fram!“ Og ég gat ekki annað en flissað eitthvað bjánalega og samhengislaust, enda í margföldu spennufalli.

Lærdómur dagsins: það er mjög sniðugt að velja sér brúðkaupsdag þar sem liðið manns heldur sér naumlega uppi, en frekar súrt að velja þennan dag til að falla niður um deild.

(Mark Víkings: Sinisa Kekic. Mörk FH: Dennis Siim, Matthías Guðmundsson, Arnar Gunnlaugsson)