6. nóvember 1985. Fram 2 : Rapid Vín 1
Þökk sé Jútúb, get ég hlustað á smellinn Lonely Boy með Johann K, sem fór í annað sætið á austurríska vinsældarlistanum árið 1985. Þótt mér sé oft ruglað saman við Arnar Eggert Thoroddsen, hef ég lítið af tónlistarþekkingu hans. Engu að síður leyfi ég mér að fullyrða að sigurganga lagsins í austurríska útvarpinu hafi minnst byggst á gæðum flutningsins, en þeim mun meira á því hver flytjandinn var.
Johann K var nefnilega listamannsnafn knattspyrnumannsins Hans Krankl. Mér er til efs að margir ungir fótboltaáhugamenn, jafnvel þeir sem pæla í sagnfræðinni, þekki Hans Krankl í dag, en í byrjun níunda áratugarins var hann einn af þeim allra stærstu. Austurríkismenn telja hann almennt besta knattspyrnumann í sögu sinni, sem þó státar ekki af neinum smákörlum. Alþjóðleg frægð hans er enn merkilegri í ljósi þess að ef frá eru talin fáein misseri hjá Barcelona lék Krankl allan sinn feril í Austurríki.
Framarar komust í aðra umferð (16-liða úrslit) Evrópukeppni bikarhafa árið 1985 eftir sigur á Glentoran frá Norður-Írlandi í fyrstu umferð. Óskamótherjar Framara voru vafalítið þýsku bikarmeistararnir í Bayer Uerdingen, sem höfðu Lárus Guðmundsson innanborðs. Rapid Vín var hins vegar ekki síður spennandi kostur, einkum út af Hans Krankl.
En það átti ekki að verða. Krankl meiddist í deildarleik með Rapid skömmu fyrir fyrri leikinn í Vínarborg. Hann kom inná sem varamaður gegn Fram en hafði sig lítið í frammi í 3:0 sigri. Framarar voru hundsvekktir eftir leikinn yfir að hafa mistekist að skora úr dauðafærum og fengið á sig mark sem virtist ólöglegt. Einvígið var í raun búið og því ekki von á mörgum áhorfendum á Laugardalsvöll – einkum eftir að í ljós kom að Krankl væri meiddur og fylgdi ekki með til Íslands.
Viðureignin í Reykjavík var lengi í minnum höfð fyrir þær sakir að tekist hefði að leika fótboltaleik á Laugardalsvelli þann sjötta nóvember. Ólíklegt má teljast að slíkar aðstæður væru samþykktar í dag. Klaki var í vellinum og leikmenn beggja liða léku á sléttum gervigrasskóm. Hitablásarar voru settir upp í varamannaskýlunum og áhorfendum var kalt. Rosalega kalt.
Kristinn R. Jónsson skoraði eftir kortér og í kjölfarið fengu Framarar nokkur fín tækifæri til að auka muninn í 2:0 og gera einvígið áhugavert á ný. Það tókst ekki og Austurríkismennirnir áttu svo sem sína sénsa líka. Þeir jöfnuðu um miðjan seinni hálfleikinn áður en Gummi Torfa skoraði sigurmark Fram úr víti á lokamínútunum.
Auðvitað máttu Framarar vel við una að vinna á heimavelli lið sem leikið hafði til úrslita í sömu keppni þá um vorið og tapað gegn Everton. Samt gengu menn eilítið svekktir af velli – fannst að það hefði ekki mátt svo miklu muna að liðið kæmist í fjórðungsúrslitin. Líklega var þó eins gott að það gerðist ekki. Rapid Vín fékk Dynamo Kiev í næstu umferð og tapaði 9:2 samanlagt. Óðinn má vita hvaða útreið íslenskt lið hefði fengið í mars.
En ergilegast var þó að missa af Hans Krankl – frægasta fótboltamanni sem ég hef næstum séð með berum augum. Og slappt af honum að fljóta ekki í það minnsta með liðinu til Íslands. Hann hefði t.d. getað riggað upp tónleikum á Broadway eða í Klúbbnum. Hver veit nema hann hafi lumað á fleiri Paul Anka-slögurum með þýskum texta?
(Mörk Fram: Kristinn R. Jónsson, Guðmundur Torfason. Mark Rapid Vín: Peter Pacult)