Blaðakóngurinn: Fótboltasaga mín 41/100

6. febrúar 1988. Luton 7 : Oxford 4

Tveggja metra hár tónleikahaldari hér í borg, Valsmaður, spyr mig yfirleitt þegar við hittumst: „Hvað er að frétta af Steve Foster, með krullurnar og ennisbandið?“ Áhugi bassafantsins fyrrverandi á velferð Fosters er nálega þráhyggjukenndur, en þó skiljanlegur. „Fozzie“ (viðurnefni fótboltamanna eru sjaldnast mjög svöl) var nefnilega frábær og eftirminnilegur leiðtogi í Luton-vörnininni á níunda áratugnum.

Ég fæ reyndar oft svipuð viðbrögð frá fólki þegar Luton ber á góma. „Mick Harford, hann var í Luton!“ „Hvað hét hann aftur svarti framherjinn, Brian Stein?“ Einhverjir muna eftir Paul Walsh eða rámar í að David Pleat hafi stjórnað liðinu. Þeir elstu muna eftir David Moss eða Brian Horton. Og svo rifja margir upp Oxford-leikinn 1988.

Ætli beinu útsendingarnar frá ensku knattspyrnunni hafi verið nema svona 20-25 á ári á seinni hluta níunda áratugarins? Það þýddi að einstakir fjörugir leikir gátu orðið afar minnisstæðir og fótboltaáhugamenn létu sig hafa það að horfa á hvern leik, nánast óháð því hvaða lið væru að spila.

Luton : Oxford var svo sem ekkert verri sjónvarpsvalkostur en hver annar leikur þarna í byrjun febrúar 1988. Liverpool var löngu stungið af, enn án taps í deildinni. Luton var í hópi sex liða sem bitust um sæti fjögur til níu, en þar var ekki um nein Evrópusæti að tefla, þar sem ensku liðin voru enn bönnuð í Evrópu. (Takk Liverpool!) Oxford var hins vegar í næstneðsta sæti.

Þetta ár hafnaði Oxford á botninum og þriggja ára ævintýri þeirra í efstu deild lauk. Örfáum árum áður hafði fjölmiðlakóngurinn Robert Maxwell bjargað félaginu frá gjaldþroti í gömlu þriðju deildinni – reyndar með það í huga að sameina það Reading og stofna nýtt félag sem kennt yrði við Thames Valley.

Þegar sameiningaráformin runnu út í sandinn, sneri Maxwell sér að því að byggja upp Oxford United og kom liðinu upp í efstu deild árið 1985. Fyrsta árið þar var best. Oxford vann deildarbikarinn eftir sigur á QPR á Wembley og hélt sér uppi á síðasta degi með því að skella Arsenal 3:0. Árið eftir var áframhaldandi fallbarátta sem lauk loks með því að liðið fór niður 1988, enda Maxwell búinn að missa áhugann á Oxford og farinn að snúa sér að öðrum félögum með meiri vaxtarmöguleika.

Fyrri leikur Oxford og Luton þetta tímabilið fór 2:5 fyrir gestina svo búast mátti við markaveislu. Sú varð líka raunin. Ellefu mörk litu dagsins ljós í leik hinna slysalegu varnar- og markmannstilburða.

Luton skoraði tvö fyrstu mörkin og hélt svo tveggja til þriggja marka forystu út leikinn – 3:1, 5:2, 6:3 og loks 7:4. Markvörður Oxford missti aðalliðssætið sitt í kjölfarið og Les Sealey leit ekkert sérstaklega vel út í Luton-markinu heldur. Flest mörk Luton voru keimlík: Tim Breaker braust upp kantinn og sendi fyrir, þar sem einhver (helst Mick Harford) stangaði knöttinn í netið eða leikmönnum Oxford tókst ekki að hreinsa nógu vel frá og einhver kom aðvífandi og setti boltann í hornið framhjá taugaveikluðum markverðinum.

Mark Stein skoraði þrennu í leiknum á rétt rúmum tíu mínútum. Hann var litli bróðir Brians Stein og stóð honum talsvert að baki. Eftir tímabilið var hann látinn fara til QPR, þaðan sem leiðin lá til bæði Oxford og Stoke uns Glenn Hoddle ákvað óvænt að gefa honum annað tækifæri í efstu deild, með Chelsea. Um aldamótin átti Mark Stein svo fremur misheppnaða tilraun til endurkomu hjá Luton. Sú ákvörðun skýrðist væntanlega ððru fremur af fortíðarþrá.

Þótt auðvitað væri gaman að skora sjö mörk í beinni sjónvarpsútsendingu, litu Luton-stuðningsmenn þó fyrst og fremst á leikinn sem upphitun fyrir fyrri viðureign sömu liða í undanúrslitum deildarbikarsins fjórum dögum síðar. Luton sigraði í því einvígi og mætti Arsenal í úrslitaleiknum, en það er önnur saga.

(Mörk Luton: Mick Harford 2, Brian Stein, Mark Stein 3, Darron McDonough. Mörk Oxford: Dean Saunders, Martin Foyle, Richard Hill, Les Phillips)