Grafarþögn: Fótboltasaga mín 47/100

27. september 2008. Keflavík 1 : Fram 2

Það var gaman að vera Framari sumarið 2008. Þorvaldur Örlygsson tók við liðinu fyrir tímabilið og gekk strax í að þétta vörnina. Eftir átján umferðir var markatala liðsins 23:15, sem er fjári gott. En þó lítið væri skorað í Framleikjunum, þá lék liðið alls ekki leiðinlegan bolta. Margir leikjanna voru bráðskemmtilegir, til dæmis 4:1 sigurinn á FH í Laugardalnum í 20. umferð þar sem Framarar komust í 4:0.

Með þeim sigri töldu flestir að Fram hefði afhent Keflvíkingum Íslandsmeistaratitilinn, þann fyrsta frá 1973. Keflavík var með 46 stig og átti tvo leiki eftir, en FH með 38 stig en leik meira til góða. Jafntefli Keflvíkinga í Kaplakrika í næstsíðustu umferð hefði dugað, en sigurmark FH í uppbótartíma hélt lífi í mótinu.

Í lokaumferðinni tók Keflavík á móti Fram. Við Framarar vorum í bullandi séns að komast í Evrópukeppni. Sigur myndi tryggja þriðja sætið og jafntefli raunar líka að því gefnu að rétt úrslit yrðu í leik KR og Vals á sama tíma. Eftir á að hyggja hefðu KR-ingar mátt ná þriðja sætinu, því viku síðar urðu þeir bikarmeistarar með sigri á Fjölni – en á það gátum við Framarar ekki treyst. Við urðum því að leika til sigurs.

Stemningin suður með sjó var mögnuð. Nærri fjögurþúsund manns voru á vellinum. Við Framararnir vorum fáliðaðir. Ansi margir fastagestir virtust hafa tekið þann kostinn að horfa á leikinn í sjónvarpinu heima. Við þessir fáu rottuðum okkur þó saman í einu horninu og reyndum að láta aðeins í okkur heyra á móti lúðrasveitum og trumbuslögurum.

Keflvíkingar ætluðu sér svo sannarlega að vinna og létu vaða á Frammarkið í hvert sinn sem færi gafst. Nokkur vafaatriði í dómgæslunni féllu Frömurum í vil og við máttum vera bærilega sáttir við að halda jöfnu í hálfleik. Í síðari hálfleik kom Símun Samúelsen heimamönnum yfir og fáeinum mínútum síðar var Hannes Þór stálheppinn að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu eftir samstuð við Færeyinginn. Keflvíkingar voru farnir að syngja sigursöngva enda spurningin helst hversu stór sigur þeirra yrði.

Þorvaldur reyndi að höggva á hnútinn og setti frænda sinn, Almarr Ormarrsson inná. Almarr hafði komið frá KA á miðju sumri og komið nokkrum sinnum inná. Hann virtist geta gengið í allar stöður og var jöfnum höndum notaður sem bakvörður, miðjumaður og framherji. Almarr hljóp inn á völlinn og skoraði í fyrstu snertingu eftir örfáar sekúndur. Hundrað Framarar klöppuðu og blístruðu, en að öðru leyti var dauðaþögn á vellinum.

Enn voru Keflvíkingar þó með aðra hönd á titlinum. FH var bara einu marki yfir í sinni viðureign en þurftu að vinna með tveimur, annars dygði Keflvíkingum jafnteflið. Áfram reyndu heimamenn að sækja, en nú var taugaveiklunin orðið augljós. Framarar urðu hins vegar sífellt brattari og enginn betri en Paul McShane sem var stórkostlegur á miðjunni. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka fengu Keflvíkingar tvö kjaftshögg nánast samtímis. Á Fylkisvellinum skoraði FH annað mark sitt og um leið og þær fregnir fóru að kvisast milli áhorfenda átti McShane stungusendingu í gegnum vörnina þar sem Hjálmar Þórarinsson komst einn í gegn og vippaði laglega yfir markvörðinn.

Þær mínútur sem eftir lifðu af leiknum einkenndust af vaxandi örvæntingu keflvísku leikmannanna og örvinglan áhorfenda. Við Framararnir á pöllunum vorum náttúrlega himinsælir með forystuna, en samt leið engum vel. Allt í kringum okkur voru heimamenn í losti. Sumir bölvuðu og rögnuð. Aðrir áttu erfitt með að halda aftur af tárunum.

Dómarinn flautaði til leiksloka og Framleikmennirnir hlupu út í hornið til okkar. Þar var sungið Siggi-saggi og fallist í faðma – en samt voru gleðilætin einhvern veginn miklu hófstilltari en ætla mætti eftir fyrsta Evrópusætið frá 1992. Ég held að það hafi allir hugsað það sama: að Keflvíkingarnir hefðu nú miklu fremur átt þennan titil skilinn en FH-montrassarnir eina ferðina enn.

Á leiðinni út af vellinum reyndi maður að komast hjá því að horfast í augun við hnuggna Keflvíkinga. Það var svo sem ekki erfitt. Niðurlútari mannskap var varla hægt að hugsa sér. Þarna gekk ég framhjá svekktum feðgum, Úlfari Þormóðssyni og Gauki Úlfarssyni – sem ég held að ég hafi aldrei áður séð á fótboltaleik. Þeir voru álíka hvekktir og aðrir.

Ég sárvorkenndi Keflvíkingunum þar sem ég gekk af bílnum mínum og hélt áfram að kenna í brjóst um þá langleiðina að Kúagerði. Þá bráði af mér góðmennskan og ég mundi eftir öllum nepjuleikjunum suður með sjó, ergilegum töpum og löngum bílferðum aftur í bæinn. Og því næst fór ég að velja mér evrópska andstæðinga í huganum fyrir næsta tímabil. Hvort væri skemmtilegra að fá Færeyinga eða Norður-Íra… eða jafnvel eitthvert glamúrös lið frá Lúxemborg?

(Mark Keflavíkur: Símun Samúelsen. Mörk Fram: Almarr Ormarsson, Hjálmar Þórarinsson)