9. september 2006. Þór 1 : Fram 0
Það er antíklímax að fagna titli eftir tapleik: að horfa upp á liðið sitt tapa en fá svo fregnir af hagstæðum úrslitum annars staðar sem tryggja toppsætið. Að halda sér svona í deildinni er allt annað mál. Þá getur maður ekki leyft sér neina heimtufrekju, heldur fagnar hverju haldreipi. Að vinna titla með þessum hætti er hins vegar súrara – jafnvel þótt hægt sé að grípa í allar klisjurnar á borð við: „Mótið er átján leikir og vinnst á heilu sumri!“
Framararnir tryggðu sér titilinn í næstefstu deild sumarið 2006 með þessum hætti. Fallið haustið áður var gríðarleg vonbrigði. Fram hafði baslað í fallbaráttu mörg ár þar á undan og vafalítið hafa flestir utanaðkomandi litið svo á að það hefði verið óumflýjanlegt að liðið færi niður að lokum. En 2005 höfðu Framarar leyft sér bjartsýni, hópurinn virtist sterkari og þjálfunin í nokkuð traustum höndum.
Margir óttuðust að félagið væri í spíral niður á við. Félagshverfið orðið alltof lítið og stæði liðinu fyrir þrifum á sama tíma og nágrannafélögin Valur, Víkingur og jafnvel Þróttur væru að styrkjast. Það var ekki margt sem gaf tilefni til bjartsýni. Líklega myndum við komast upp aftur að ári, en lægi leiðin þá ekki bara lóðbeint niður á ný?
Við þessar þunglyndislegu kringumstæður var það ákaflega upplífgandi þegar Framarar tilkynntu nánast strax í lok móts að Helgi Sigurðsson væri að snúa heim úr atvinnumennsku og kæmi í Fram. Það var alvöru yfirlýsing um að félagið ætlaði að rúlla upp fyrstu deildinni og snúa svo tvíeflt aftur í úrvalsdeildina. Þótt dvölin hjá Helga hafi aðeins orðið eitt ár í þetta skiptið, verð ég honum alltaf þakklátur fyrir að hafa bjargað geðheilsu minni þarna um haustið.
Meira að segja án Helga hefði Fram verið langbest í slakri deild. HK, Þróttur og Fjölnir voru þokkaleg og önnur lið verri. Ásgeir Elíasson tók að sér þjálfunina, sem mér fannst hæpin ráðstöfun. Annars vegar vegna þess að Ásgeir heitinn vildi alltaf keyra á svo fáum leikmönnum og var tregur til skiptinga, á meðan það virtist rökrétt að nota árið til að gefa nýjum mönnum séns. Hins vegar vegna þess að mig grunaði að stjórnendur félagsins sæju Ásgeir ekki fyrir sér sem framtíðarþjálfara og því ekki rétt að ráða mann með slíka sögu hjá Fram ef ætlunin væri svo að framlengja ekki við hann samninginn árið eftir. Því miður reyndist sá grunur minn réttur.
Tímabilið reyndist heldur tilþrifalítið. Við spiluðum á Laugardalsvellinum sem þá var verið að taka í gegn, svo notast var við stúkuna austanmegin. Þar horfðum við upp á markalaust jafntefli gegn frískum nýliðum Víkings Ólafsvíkur í fyrsta leik og svo nauma sigra í næstu tveimur leikjum. En eftir það skiptu Framarar um gír.
Í fimmtándu umferð var úrvalsdeildarsætið tryggt og titillinn sjálfur innan seilingar. Ekki tókst að tryggja hann í sextándu umferðinni, en sigur á botnliði Þórs frá Akureyri í næsta leik myndi duga til þess.
Ég sá færi á að slá tvær flugur í einu höggi: ná leik og helgarferð með Steinunni í sama pakka! Foreldrar mínir tóku dóttur í helgarpössun og við ókum í Eyjafjörðinn. Á dagskrá var bara tvennt: Þórsleikurinn og að borða á veitingahúsinu Halastjörnunni, sem þá var starfrækt í einum efsta bænum í Öxnadalnum.
Það var hún Sonja sem rak staðinn, en hún bjó lengi í kjallaranum hjá okkur á Mánagötunni. Halastjarnan var frábært veitingahús. Afurðirnar fengnar úr sveitinni og varla hægt að segja að um matseðil væri að ræða. Fólk borðaði bara það sem var í matinn! – Ég bloggaði annars um heimsóknina, fyrir áhugafólk um veitingahús sem hafa lagt upp laupana.
Ég skildi Steinunni eftir á hótelinu með reyfara meðan á leiknum stóð. Í ljós kom að afar fáir Framarar höfðu látið sig hafa ferðalagið. Fuglafræðingurinn (og nú Stykkishólmsbúinn) Jón Einar var nánast sá eini sem ég kannaðist við, svo ég settist hjá honum. Fátt í leiknum gladdi augað. Þórsarar börðust fyrir lífi sínu og þjálfarinn, Lárus Orri, kom þeim yfir um miðjan fyrri hálfleikinn. Eftir það lágu heimamenn til baka og þótt Framliðið réði spilinu það sem eftir var, reyndi lítið á Þórsvörnina.
Akureyringar fögnuðu vel þegar flautað var til leiksloka, þótt sá fögnuður minnkaði umtalsvert þegar fréttist að Ólafsvíkur-Víkingar hefðu óvænt unnið HK í Kópavogi. Þórsarar voru því enn í botnsætinu (aðeins eitt lið féll þetta árið) og þurftu að vinna aftur um næstu helgi til að bjarga sér. Tap HK þýddi hins vegar að Framarar voru orðnir meistarar.
Staðfestingin á úrslitunum barst ekki strax og þessir fáeinu Framarar á vellinum voru flestir komnir niður í búningsklefa undir stúkunni. Einhver dró fram kampavínsflösku sem keypt hafði verið fyrir leik og annar lét hópinn syngja Siggi-saggi. En fagnaðarlætin voru algjörlega til málamynda – enda óttalega aulalegt að slá upp partýi með fimmtán stuðningsmönnum í búningsklefa úti á landi eftir tap.
(Mark Þórs: Lárus Orri Sigurðsson)