Atvikið: Fótboltasaga mín 49/100

5. júní 1995. KR 3 : Fram 1

Eftir að ég hóf að birta knattspyrnuævisögu mína á þessum vettvangi hef ég fengið ýmsar fyrirspurnir um hvort og þá hvenær ég muni skrifa um þennan leikinn eða hinn. Langflestir spyrja þó sömu spurningarinnar: „Hvenær ætlarðu að skrifa um innkastið?“ – Föstudagurinn langi var hið augljósa svar. Dagur svika og sorgar…

Ætli það séu margir leikir í knattspyrnusögunni sem hægt er að vísa til með einu orði nærri tuttugu árum síðar og allir viti hvað klukkan slær? Undir eðlilegum kringumstæðum hefði þriðju umferðar leikur með enn einum sigri KR á Fram í Frostaskjólinu, í móti sem Akranes vann með yfirburðum, orðið lítt eftirminnilegur – en þökk sé „atvikinu“ á 58. mínútu, er þetta ein frægasta viðureign seinni áratuga. Framarar sem ekki voru fæddir árið 1995 eru meðvitaðir um þennan leik.

Það er aldrei góður tími til að láta sparka í punginn á sér, en þetta var óvenjulega slæmur dagur til slíkra hluta. Stjórnin hafði rekið Martein Geirsson eftir aðeins tvær umferðir. Það var stórkostlega misráðin ákvörðun og félagið logaði stafnanna á milli. Í staðinn var ráðinn geðþekkur ungingaþjálfari, Magnús Jónsson, með enga reynslu af þjálfun meistaraflokks. Stemningin í klefanum var varla betri en meðal stuðningsmannanna.

Framarar mættu til leiks með það að markmiði að verja stigið. Það leit ágætlega út í fyrri hálfleik. Við fengum víti eftir rúmlega hálftíma leik sem Ríkharður Daðason skoraði úr. Eftir það lágu Framararnir enn aftar á vellinum og vonuðu það besta. Sú leikaðferð er sjaldan vænleg til árangurs.

Sókn KR þyngdist og snemma í seinni hálfleik fengu heimamenn víti sem Mihajlo Biberzic skoraði úr. Biberzic var merkilegur leikmaður. Mikill markahrókur, en einkennilega illa þokkaður af knattspyrnuáhugamönnum, jafnvel stuðningsmönnum þeirra liða sem lék með hverju sinni. Hann var talinn kvartsár og óheiðarlegur – sem var að hluta til rétt, en sennilega allt eins mikið afleiðing af ótrúlega rótgrónum staðalmyndum Íslendinga af fólki frá Balkanskaga. Biberzic þótti líka alltaf í þybbnara lagi fyrir knattspyrnumann í efstu deild. Undi lok ferilsins hljóp hann hreinlega í spik og varð þá vinsæll skotspónn á velli. En alltaf gat helvítið skorað.

Áfram héldu Framarar að verjast og KR-ingar að sækja. En svo varð fjandinn laus.

Mörgum árum síðar gaf ég út blað fyrir leik KR og Fram í Frostaskjóli (meira um það seinna). Meðal efnis í því var ítarleg umfjöllun um innkastið alræmda með viðtali við Ágúst Hauksson félaga minn. Grípum niður í blaðið:

„Ágúst: …Þetta byrjaði á því að KR-ingar voru í sókn sem Framarar brutu auðveldlega á bak aftur. Gauti Laxdal, leikmaður Fram fékk boltann á miðjum eigin vallarhelmingi, leit upp og sá KR-ing liggja eftir. Hann gerði það eina rétta í stöðunni og spyrnti í innkast. Boltinn fór út af við norðurenda stúkunnar þar sem ég og bróðir minn stóðum í góðum hópi Framara. Við vorum því í kjöraðstöðu til að fylgjast með leikritinu sem KR-ingar settu á svið.

Blm.: Hvað áttu við með „leikriti“?

Ágúst: Jú, þeir Þormóður Egilsson og Mihajlo Bibercic tóku sig saman og plötuðu leikmenn Fram upp úr skónum. Steinar Guðgeirsson, leikmaður Fram, rölti í átt að Þormóði sem bjó sig undir að taka innkastið. Við Framararnir sem stóðum þar hjá heyrðum öll orðaskipti þeirra nákvæmlega því dauðaþögn hafði fallið á stúkuna meðan meidda KR-ingnum var tjaslað saman.

Í mörg ár á eftir mundi ég orðrétt hvað Þormóður Egilsson sagði við Steinar, en það var eitthvað á þessa leið: „Ég læt þið fá boltann hérna“ og benti í átt til Steinars. Allir í stúkunni, sem og leikmenn Fram biðu eftir að Þormóður hagaði sér eins og heiðursmaður og henti knettinum til baka. En þá kom reiðarslagið!

Í stað þess að kasta á Steinar, varpaði Þormóður honum upp í hornið á Bibercic sem var að sjálfsögðu einn og óvaldaður. Hann fékk nægan tíma til að senda fyrir markið á Enar Þór Daníelsson sem skoraði léttilega því engir voru varnarmennirnir. Staðan var þá orðin 2-1 og Framliðið slegið út af laginu og tapaði loks með þremur mörkum gegn einu.“

Hafi þurft vitnanna við að karma virkar ekki, þá sannaðist það þennan dag. Auðvitað var það Biberzic sem skoraði sigurmarkið.

Gústi hét því að borga sig ekki aftur inn á KR-völlinn fyrr en Vesturbæingar bæðust afsökunar. Sú afsökunarbeiðni hefur enn ekki borist og mér vitanlega hefur hann staðið við heitstrengingarnar.

Viðbrögðin á vellinum voru mögnuð. Framstuðningmennirnir ærðust, bauluðu og skömmuðust þann hálftíma sem eftir leið af leiknum. Drjúgur hluti KR-áhorfendanna sat skömmustulegur og klappaði varla til málamynda eftir markið. Sama mátti segja um hluta leikmannanna sem voru augljóslega frekar vandræðalegir. Guðmundur Stefán Maríasson var dómari leiksins og honum var greinilega líka misboðið, sem kom fram í því að næstu 10-15 mínúturnar máttu Framararnir sparka í KR-inga nálega að vild án þess að fá tiltal.

Umræðurnar dagana á eftir voru merkilegar. Fyrstu viðbrögð margra KR-stuðningsmanna voru þau að þræta fyrir að Framarar hafi spyrnt boltanum útaf viljandi eða að Gauti Laxdal hafi vitað af KR-ingnum liggjandi á vellinum. Sjónvarpsmyndir skutu þá kenningu niður. Önnur útgáfa var sú að öðlingurinn Þormóður hafi reynt að henda boltanum til varnarmanna Fram, en Biberzic hlaupið til og hirt knöttinn öllum að óvörum. Sú kenning er langsótt miðað við upptökurnar úr sjónvarpinu.

Með tímanum fengust velflestir KR-ingar til að viðurkenna að þetta hafi verið svindlmark. Fæstir ef nokkrir þeirra fást til að eigna Þormóði nokkurn þátt í atvikinu, þess í stað er skuldinni rækilega skellt á feita Serbann og stundum líka þjálfarann Guðjón Þórðarson. Þannig er innkastsmarkið endurskilgreint sem lúabragð útlenska atvinnumannsins og liðsfélagar hans gerðir að saklausum fórnarlömbum. Merkilegt nokk virðist engum detta í hug að setja spurningamerki við þátt sjálfs markaskorarans, Einars Þórs.

Sumarið 2015 verður tuttugu ára amæli atviksins á KR-vellinum. Mér vitanlega er ekki enn búið að stofna nefnd til að skipuleggja minningarathöfnina, en ég gæti trúað því að hún muni innihalda kertafleytingu eða að krans verði lagður að styttu gyðju réttlætisins. Mínútuþagnir á knattspyrnuvöllum og minningarstundir í kirkjum og tilbeiðsluhúsum væru líka viðeigandi.

„Er ekki kominn tími til að gleyma þessum atburði og hætta að horfa um öxl?“ – er ég stundum spurður. En þá vitna eg í Simon Wiesenthal: þetta snýst um réttlæti en ekki hefnd! Við skuldum komandi kynslóðum það að láta ekki fals, undirferli og sviksemi fortíðarinnar gleymast! Engin beiskja, ónei!

(Mörk KR: Mihajlo Biberzic 2, Einar Þór Daníelsson. Mark Fram: Ríkharður Daðason)