Jesper: Fótboltasaga mín 50/100

16. ágúst 2009. Breiðablik 3 : Fram 3

Í fótbolta er það ekki alltaf niðurstaðan sem skiptir mestu máli, heldur leiðin að henni. Jafntefli eru bestu dæmin um það. Jafntefli þýðir vissulega að bæði lið fá sitt stigið hvort – en liðinu sem skoraði á undan finnst það hafa tapað, meðan hitt liðið fagnar nánast sigri. Einkum þegar jöfnunarmarkið kemur í lokin. Sjaldan hef ég skemmt mér betur á jafnteflisleik en á Kópavogsvellinum 2009.

Lilja vinkona Steinunnar sem býr í Danmörku var í heimsókn á Íslandi með Jesper kærastann sinn. Ég reikna með að Jesper hafi hálfleiðst í endalausum heimsóknum þar sem mest var töluð íslenska. Þar sem hann er mikill fótboltaáhugamaður (gallharður OB-aðdáandi) varð úr að ég tæki hann með á völlinn, Breiðablik : Fram.

Ekki byrjaði það vel. Framararnir voru úti að aka. Blikarnir skoruðu á upphafsmínútunum og bættu tveimur við fyrir hlé, í öllum tilvikum var Guðmundur Kristjánsson á ferðinni. Blikarnir virtust skora að vild en leikmenn Fram voru í tómu rugli. Þannig mátti Auðun Helgason hrósa happi fyrir að fá ekki rauða spjaldið eftir hálftíma fyrir stympingar.

Stemningin var ansi súr hjá okkur Framstuðningsmönnunum í leikhléi og Jesper hlýtur að hafa íhugað að færa sig yfir í hinn hluta stúkunnar, þar sem ættingjar Lilju voru Blikahópnum. Hann sat þó áfram með okkur og reyndi að leyna því hvað honum þætti lítið til hvítklædda liðsins koma.

Seinni hálfleikurinn byrjaði á sama hátt. Blikarnir virtust ætla að skora nokkur mörk í viðbót á meðan Framararnir söfnuðu bara spjöldum. Þegar kortér var eftir tókst okkur aðeins að klóra í bakkann þegar Sam Tillen minnkaði muninn úr víti. Eftir sem áður voru Kópavogsbúarnir algjörlega með leikinn í höndum sér og það svo mjög að Ólafur þjálfari ákvað að leyfa sér að hvíla Arnar Grétarsson síðustu mínúturnar. Sígild mistök!

Heiðar Geir skoraði 3:2 með skalla eftir sending frá Almarri þegar fáeinar mínútur voru eftir. Heiðar hljóp við annan mann inn í markið til að sækja boltann og koma honum á miðlínuna. Ingvar Kale í Blikamarkinu var ekki á því og greip knöttinn, en Framararnir virtust henda honum í netið og rífa soppinn úr höndum Ingvars með handalögmálum. Blikastuðningsmennirnir ærðust, en við fögnuðum. Jesper hafði aldrei séð aðrar eins aðfarir á knattspyrnuvelli og ýmist hló eða hristi höfuðið í forundran.

Það sem eftir var sóttu Framarar linnulaust en Blikar lágu í nauðvörn. Þetta gat bara farið á einn veg. Á þriðju mínútu uppbótartíma tók Tillen hornspyrnu sem Jón Guðni Fjóluson stangaði í netið. Rétt á eftir var flautað til leiksloka, þar sem litlu munaði að slagsmál brytust út milli Þorvaldar Örlygssonar og Ingvars Kale. Framarar sungu Siggi-saggi og gengu hnarreistir að bílastæðunum, en heimamenn voru niðurlútir.

Við Jesper ókum heim og hann spurði hvort íslenskir fótboltaleikir væru alltaf svona dramatískir. Ég játti því og sagði að okkur þætti ekki taka sig að byrja fyrir minna en svona fimm mörk. Síðar í Íslandsheimsókninni tók ég hann aftur með á völlinn að sjá Fram vinna Grindavík 4:3. Þá þurfti ekki frekari vitnanna við.

(Mörk Breiðabliks: Guðmundur Kristjánsson 3. Mörk Fram: Sam Tillen, Heiðar Geir Júlíusson, Jón Guðni Fjóluson)