18. ágúst 1983. ÍR 1 : Stjarnan 3
Ég sýktist af fótboltabakteríunni árið 1983, átta ára gamall. Á þeim tíma var ég ekki fær um að gera greinarmun á hágæða- og lággæðafótbolta. (Sumir myndu segja að ég ætti enn við það vandamál að stríða.) Ég drakk í mig allt sem tengdist knattspyrnu. Las allar fótboltabækurnar úr barnadeildinni á Borgarbókasafninu, lúslas íþróttafréttirnar og nýtti mér að búa nánast við hliðina á Melavellinum. Ef það var leikur með fullorðnum karlmönnum í búningum, þá var ég sáttur.
Þetta sumar gaf afi heitinn mér bók (eða hvort hann gaf mér peninga til að kaupa hana sjálfur, ég man það ekki). Það var Mótaskrá KSÍ 1983. Enga bók hef ég lesið oftar.
Mótaskrána á ég enn upp í hillu, reyndar í tætlum. Í henni gat ég lesið gömul úrslit, skrár yfir meistaralið, landsliðsmenn o.s.frv. Ég drakk hana í mig og vann lista upp úr tölfræðinni í henni: merkti inn á kort þá bæi þar sem landsleikir höfðu farið fram og staði þaðan sem félög höfðu komist í næstefstu deild í það minnsta…
Skemmtilegast var þó að lesa um öll liðin í neðrideildunum. Ég kunni nöfnin á öllum félögunum, hvaðan þau kæmu, gat borið kennsl á merkið og vissi hvernig búningurinn væri á litinn. Og að sjálfsögðu fór ég að „safna liðum“. Ég merkti við þau félög sem ég hafði séð spila.
Miðað við fjölda merkinga í 1983 leikskránni er ljóst að ég hef stolist til að merkja aftur í tímann næstu misserin á eftir. Það er útilokað að ég hafi náð öllum þessum liðum þarna um sumarið. Á listanum má finna tólf lið úr efstu tveimur deildunum, en sjö úr fjórðu deildinni. Þar má nefna Augnablik, Létti, Víkverja, Árvakur (sem auglýsti Moggann) og Óðinn Reykjavík. Um þetta Óðins-lið veit ég ekki neitt, það sendi inn lið í deildarkeppnina í bæði handbolta og fótbolta í nokkur ár og gufaði svo upp. Allar upplýsingar vel þegnar.
Allt voru þetta lið sem áttu það sameiginlegt að spila á Melavellinum fyrir framan sjö áhorfendur, gamlan kött og opinmynntan hrokkinhærðan strák með gleraugu.
Fjórðudeildarliðin tvö sem uppá vantar í upptalningunni voru ÍR og Stjarnan. Og það voru einmitt liðin sem sá að kvöldi átjánda ágúst þetta sumarið. Eftir á að hyggja er það kannski til marks um glatað sakleysi að ég hafi verið á vellinum. Leikurinn hefur byrjað klukkað sjö og verið búinn um klukkan níu. Það er sem ég sæi okkur Steinunni leyfa einkadótturinni að fara ein að horfa á fótbolta að kvöldlagi nú í sumar, verður hún þó orðin árinu eldri en ég á þessum tíma! Þess utan þurfti ég að fara snemma í bælið, því á sumrin bar ég út Þjóðviljann eldsnemma á morgnanna.
ÍR : Stjarnan var eini leikurinn í fjórðu deildinni þetta sumar sem varð mér sérstaklega minnisstæður. Líklega af því að fleiri áhorfendur voru á vellinum en vant var og greinilega eitthvað í húfi. Með sigri í leiknum fóru Stjörnumenn langleiðina með að tryggja sér efsta sætið í riðlinum á kostnað Augnabliks og ÍR og þar með þátttöku í úrslitakeppninni. Þar unnu þeir Víkverja og Hauka, komust upp um deild en töpuðu þó í úrslitaleiknum gegn Leiftri Ólafsfirði.
Það hafa örugglega verið hundrað manns á leiknum. Stjörnumenn voru fjölmennari og þeim var ekki skemmt þegar Tryggvi Þór Gunnarsson kom ÍR yfir. Tryggvi var þjóðfrægur markakóngur sem alla tíð spilaði í neðri deildunum (nokkuð sem telja má óhugsandi í dag). Þetta sumar setti hann met með því að skora sjö eða átta mörk í sama leiknum og lauk keppni með 23 mörk í 12 leikjum. Hvernig ÍR mistókst að komast upp úr riðlinum með slíkan framherja er sjálfstætt rannsóknarefni.
Stjörnumenn svöruðu fyrir sig í þrígang. Sveinn Axel Sveinsson skoraði tvisvar og Brynjólfur Harðarson einu sinni. Þessi nöfn segja mér ekkert og einföld gúgglun gefur ekki til kynna að öðrum frægum knattspyrnumönnum en Tryggva hafi verið til að dreifa þetta kvöld.
En þessi leikur hefur alltaf setið í mér að einu leyti. Ég á einhvern veginn bágt með að viðurkenna íR og Stjörnuna sem alvöru fótboltalið. Ekki ósvipað og yngra frændsystkin sem maður man eftir sem smágrísling og hefur jafnvel skipt um bleyju á – þá er erfitt að viðurkenna viðkomandi sem fullgilda fullorðna manneskju. ÍR og Stjarnan eru og verða alltaf í mínum huga að einhverju leyti fjórðudeildarklúbbarnir sem ég fylgdist með á Melavellinum fyrir framan hundrað manns fyrir þrjátíu árum.
(Mark ÍR: Tryggvi Þór Gunnarsson. Mörk Stjörnunnar: Sveinn Axel Sveinsson 2, Brynjólfur Harðarson)