Ljósmyndirnar: Fótboltasaga mín 52/100

15. júlí 1987. Keflavík 0 : Fram 2

Árið 1955 fluttu afi og amma til Reykjavíkur frá Ísafirði. Amma  var innfæddur Ísfirðingur en afi, Haraldur Steinþórsson, hafði verið sendur vestur af Sósíalistaflokknum um nokkurra ára skeið þar sem flokkinn vantaði bæjarfulltrúaefni.

Afi var fæddur félagsmálamaður og hafði stjórnað íþróttafélaginu Vestra samhliða pólitíska vafstrinu fyrir vestan. Um leið og fréttist að hann væri á leiðinni aftur suður höfðu þrjú félög samband við hann og báðu um að taka að sér formennsku. Fyrsta félagið var annað hvort ÍR eða Ármann (man ekki hvort). Annað var Ungmennafélag Reykjavíkur, sem var í mikilli kreppu og lognaðist eiginlega útaf skömmu síðar. Það þriðja var Fram.

Þar sem afi var gamall Framari úr Framnýlendunni á Ásvallagötu/Blómvallagötu valdi hann Fram og stýrði á árunum 1955-60. Það voru mikilvæg ár í sögu félagsins og á þeim tíma var m.a. samið við Reykjavíkurbæ um framtíðarfélagssvæði í Kringlumýrinni.

Árið 1960 sneri afi sér að verkalýðsmálunum. Var í forystu fyrir kennara og fór þaðan í BSRB þar sem hann var í forystusveit um árabil. Þar með klippti afi nánast algjörlega á Framtengslin. Hann lét nægja að fylgjast með liðinu í gegnum fjölmiðla og mörg ár gátu liðið milli þess að hann mætti á leiki. Þetta breyttist árið 1985.

Það ár varð afi sextugur og komst á 95 ára regluna. Hann hætti hjá BSRB, tók að sér verkefni fyrir Tryggingastofnun og átti skyndilega nægan frítíma. Hvað var þá betra en að fara á völlinn með elsta barnabarninu? Furðuskjótt snerist þetta upp í vana og við afi fórum saman á hvern einasta Framleik á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík og uppá Skaga. Jafnframt urðum við tíðir gestir í Framheimilinu, bæði á upphitunum fyrir stórleiki og í getraunakaffinu á laugardögum. Framheimilið iðaði af lífi á þessum árum, þar sem Halldór B. Jónsson stýrði knattspyrnudeildinni og Siggi Svavars, síðar vinnufélagi minn hjá Rafmagnsveitunni og Orkuveitunni, sá um getraunastarfið.

Mér finnst ekki ólíklegt að Bjössi frændi (Björn Helgason einhver mesti leikhús- og kvikmyndalýsingar spesíalisti landsins) hafi flotið með til Keflavíkur í júlí 1987. Hann náði nokkrum Framleikjum áður en hann missti áhugann á fótbolta. Allar dylgjur um orsakasamhengi eru afþakkaðar.

Það blés auðvitað í Keflavík. Alltaf gerði maður sömu mistökin: að leggja af stað í góðu veðri í Reykjavík og uppgötva suður með sjó að það kólnaði með kvöldinu og flíkin sem virtist svo hentug við brottför væri ekki nógu hlý. Yfirleitt bættist við kuldann og vosbúðina að leikirnir töpuðust. Einhvern veginn finnst manni Framarar alltaf tapa í Keflavík – óháð því hvort liðið sé almennt sterkara um þær mundir.

En 1987 unnum við og það í fyrsta sinn í ellefu ár. Þetta var sérlega blóðugt fyrir heimamenn, þar sem tveir af „þeirra mönnum“ voru í Framliðinu: Ragnar Margeirsson og Einar Ásbjörn Ólafsson. Einar Ásbjörn átti að mig minnir bara þetta eina tímabil hjá Fram, sem var synd því hann var mjög snjall leikmaður.

Það var þó þriðji Keflvíkingurinn sem skoraði fyrsta mark Framara. Það var Guðmundur Sighvatsson sem setti boltann í eigið net snemma leiks. Í seinni hálfleik kláruðu svo Þróttararnir sem Ásgeir Elíasson hafði tekið með sér úr Sæviðarsundinu, þeir Kristján Jónsson og Pétur Arnþórsson leikinn. Kristján sendi á Pétur sem skoraði upp úr miðjum seinni hálfleik.

Fyrir aðra en langþreytta Framara á töpum í Keflavík, markaði þessi viðureign svo sem engine tímamót. Hún er hins vegar skemmtileg heimild um sögu íslenskrar íþróttaljósmyndunar!

Í dag notast allir ljósmyndarar við stafrænar vélar og geta því smellt af ótal myndum meðan á leik stendur. Engu að síður eru einna algengustu myndskreytingar með knattspyrnufréttum lið að fagna í leikslok eða myndir af einstökum leikmönnum úr myndasafni. Á níunda áratugnum var hins vegar mikil áhersla lögð á að knattspyrnufréttum fylgdu myndir sem teknar væru í sömu andrá og mörk væru skoruð.

Þetta þýddi að ljósmyndarar tóku sér stöðu við mark þess liðs sem líklegra var talið til að fá á sig mark. Það var því ákveðin lítilsvirðing fólgin í því ef ljósmyndararnir settust allir við mark liðsins manns og enn meira diss ef ljósmyndararnir byrjuðu leikinn við hitt markið, en færðu sig svo í miðjum leik.

Fjögur dagblöð voru með ljósmyndara í Keflavík, sem allir höfðu tekið sér stöðu fyrir aftan Keflavíkurmarkið í fyrri hálfleik. Og allir náðu þeir ljósmynd af sjálfsmarki Guðmundar Sighvatssonar…

Einar Ólafsson á Þjóðviljanum tók þessa mynd fyrir sitt blað, hún var síðar endurbirt í Íslenskri knattspyrnu. Við hliðina á honum stóð nafni hans Einar Falur Ingólfsson frá Mogganum og smellti af mynd á sömu sekúndu. Pjetur á Tímanum stóð þétt upp við þá og þrýsti á hnappinn á nákvæmlega sama augnabliki. – Fyrst hélt ég að þetta væri samsæri. Að um sömu ljósmynd væri að ræða sem eignuð væri þremur ljósmyndurum, en þegar nánar er að gáð sést að sjónarhornið er örlítið frábrugðið frá einni mynd til annarrar.

Í sömu andrá tók Gunnar Bender frá DV mynd, en hann var líklega ekki í klíkunni, að minnsta kosti stóð hann spölkorn frá kollegum sínum og nær því talsvert öðruvísi sjónarhorni. Er þetta ljósmyndaðasta sjálfsmark Íslandssögunnar?

(Mörk Fram: sjálfsmark, Pétur Arnþórsson)