Undrunin: Fótboltasaga mín 53/100

18. maí 1994. AC Milan 4 : Barcelona 0

Stundum tala íþróttafréttamenn eins og fótbolti hafi verið fundinn upp haustið 1992. Það eru áhrif frá Sky Sports, sem miða upphaf tímatalsins við stofnun ensku úrvalsdeildarinnar, þegar nokkur af ríkustu félögum þeirrar fornfrægu knattspyrnuþjóðar ákváðu að taka til sín enn stærri hluta af kökunni. Fyrir vikið er hvers kyns tölfræði og metaskráning oft miðuð við árið 1992.

Veruleikinn er þó sá að á fyrri hluta tíunda áratugarins var enski boltinn langt frá því að vera sá besti eða áhugaverðasti. Allir svölu krakkarnir horfðu á ítalska boltann á Stöð 2. Þar voru bestu útlensku leikmennirnir saman komnir, einkum Suður-Ameríkumennirnir. Fyrir utan Real Madrid og Barcelona gátu engin lið barist við stærstu ítölsku klúbbana um leikmenn.

Það var reyndar ljóður á ráði ítölsku knattspyrnunnar að Stöð 2 gat bara sýnt sunnudagseftirmiðdagsleikina, en stærstu viðureignirnar voru oft kvöldleikir. Þannig gat maður þurft að sætta sig við Atalanta : Bari sem sjónvarpsleik, en lesa svo um Mílanó-slaginn um kvöldið í blöðunum daginn eftir.

Sunnudagseftirmiðdaga fórum við Óli Jó heim til ömmu hans á Aragötunni og horfðum á ítalska boltann í stofunni á neðri hæðinni og breiddum úr okkur eins og fínir menn. Fróðleikinn um liðin fengum við úr World Soccer sem Óli var áskrifandi af en við lúslásum báðir.

Vorið 1994 virtist þó farið að fjara undan ítalska boltanum. Liðin lögðu of mikla áherslu á varnarleik, viðureignir voru fyrirsjáanlegar og bestu leikmennirnir voru farnir að leita fyrir sér víðar. Þannig kom Marseille-liðið eins og stormsveipur inn í Evrópuboltann, þótt síðar kæmi í ljós að það ævintýri væri byggt á sandi.

Spánverjarnir voru menn morgundagsins og þá sérstaklega Barcelona. Johan Cruyff stýrði Barcelona-liðinu og allt sem hann snerti virtist verða að gulli. Maður bölvaði því að geta hvergi séð spænska boltann, því ef marka mátti fréttir lék Barcelona total-football að hollenskum hætti með alþjóðlegu kryddi: Romário í framlínunni og svo flottasta markaskorara Evrópu Hristo Stochkov.

Ég hef sjaldan hlakkað jafn mikið til úrslitaleiks í stórmóti og þegar Barcelona og AC Milan mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Aþenu 1994. Ekki vegna þess að ég byggist við jöfnum og spennandi leik. Þetta átti frekar að vera eins konar krýningarhátíð: þar sem skemmtilega sóknarliðið Barcelona myndi taka leiðinlega varnarliðið AC Milan í kennslustund. Með því myndu Ítalir formlega missa stöðu sína sem mikilvægasta knattspyrnuland Evrópu og Spánn tæki við keflinu. Montrassinn Cruyff var ekkert að hugsa um væntingastjórnunina þegar hann lýsti því yfir að sigur hans liðs yrði sigur fyrir knattspyrnuíþróttina.

Og það stóð heima. Leikurinn varð hvorki jafn né spennandi. Ítalirnir yfirspiluðu einfaldlega Barcelona. Staðan í hálfleik var 3:0 og munurinn síst of mikill. Í seinni hálfleik tóku drengirnir hans Berlusconis fótinn af bensíngjöfinni og bættu bara einu marki við. Ótrúlegar lokatölur og það var Fabio Capello sem gekk frá leiknum sem kóngurinn í stað Hollendingsins.

Úrslitin voru þeim mun óvæntari í ljósi þess að AC Milan hafði verið mjög ósannfærandi í keppninni og rétt sloppið við Barcelona í undanúrslium með því að sigra í sínum riðli þrátt fyrir að gera fjögur jafntefli í sex leikjum (tvö stig voru gefin fyrir sigur, Porto hefði sigrað á þriggjastigareglu). Í lokaleiknum hafði Milan náð jafntefli gegn Porto á útivelli, en misst lykilmennina Baresi og Costacurta í bann.

En leikurinn í Aþenu gerði meira en að framlengja líf Ítala sem aðalgæjanna í Evrópu. Hann drap líka Johan Cruyff. Sá hollenski vann aldrei aftur titil fyrir Barcelona og var látinn víkja sem knattspyrnustjóri tveimur árum síðar. Cruyff þjálfaði aldrei aftur félagslið.

(Mörk AC Milan: Daniele Massaro 2, Dejan Savicevic, Marcel Desailly)