Lögfræðingurinn: Fótboltasaga mín 55/100

 18. september 1999. Fram 3 : Víkingur 2

Ég hef aðeins einu sinni verið kallaður fyrir rétt í dómsal. Það var í félagsdómi og ég var vitni í máli gegn Orkuveitunni sem varðaði ólöglega uppsögn á trúnaðarmanni. Lögfræðingur Orkuveitunnar í málinu var Anton Björn Markússon. Hann sat frekar lúpulegur undir réttarhaldinu, enda vissi hann að málið var gjörtapað og hann bara mættur til málamynda.

Eftir að lögfræðingur verkalýðsfélagsins hafði lokið við að spyrja mig út úr, fékk Anton Björn orðið. Hann var áhugalítill og spurði mig bara einnar spurningar. Ég ætlaði ekki að trúa eigin eyrum, því sjálfur hafði ég stungið upp á sömu spurningu á fundinum með verkalýðsfélaginu og gat því flutt innblásna ræðu um fáránleg vinnubrögð Orkuveitunnar í málinu.

Það var samt skrítið að sitja andspænis Antoni Birni – eða Tona eins og hann var yfirleitt kallaður af Framstuðningsmönnum. Toni var einn af drengjunum hans Ásgeirs Elíassonar. Á gullaldarárunum á níunda áratugnum var Ásgeir alltaf gríðarlega íhaldsamur í liðsuppstillingu. Hann keyrði á mjög fáum leikmönnum og sá litla ástæðu til að nýta skiptingarnar nema einhver meiddist. Og svo var kannski einn efnilegur sem fékk fáeinar mínútur í lok hvers leiks.

Þessi aðferð skilaði svo sem góðum leikmönnum upp, eins og Ríkharði Daðasyni, Steinari Guðgeirssyni og Antoni Birni. Á góðum degi var Anton Björn magnaður. Sagan segir að Barcelona-menn hafi verið stórhrifnir og spurst fyrir um þennan stóra ljóshærða leikmann eftir að hann splundraði vörn þeirra á Neu Camp í Evrópukeppninni. Og hefði Anton Björn verið tuttugu árum yngri, má reikna með að búið hefði verið að selja hann til Hollands eða Danmerkur fyrir tvítugt.

En Anton Björn var sonur níunda áratugarins. Þá voru knattspyrnumenn ennþá fyrst og fremst menn sem unnu launavinnu eða sóttu sér menntun, fótboltinn var tímafreka hobbýið. Sumir voru íþróttakennarar, aðrir slökkviliðsmenn sem sífellt voru að bjarga fólki úr eldsvoðum eða taka á móti börnum á Miklubrautinni (Pétur Arnþórsson) og jú, enn aðrir lærðu lögfræði í Háskólanum.

Það voru þó frekar þrálát meiðsli en lagadoðrantarnir sem ollu því að Anton Björn hætti að spila fótbolta fyrir þrítugt. Hann var ekki nema 28 ára sumarið 1999, en þó aldursforseti Framliðsins. Við, kaldlyndu stuðningsmennirnir vildum senda hann í límverksmiðjuna!

Fram fór inn í keppnistímabilið án þess að hafa neinn augljósan markaskorara (sem er aldrei góð hugmynd). Þarna voru allnokkrir miðjumenn og vængmenn sem gátu skorað mark og mark: Ágúst Gylfason, Sigurvin Ólafsson, Hilmar Björnsson og Steinar Guðgeirsson, svo einhverjir væru nefndir. Ásmundur Arnarsson var ekki enn orðinn þessi markahrókur sem síðar varð. Og svo var náttúrlega Anton Björn.

Framherjaleysið reyndist dýrkeypt. Eftir nokkrar umferðir var keyptur hollenskur framherji, Marcel Oerlemans, sem reyndist ekki þessi gammur í teignum sem vonast var til. Reyndar hefði það mátt vera ljóst frá upphafi af ferilskrá hans.

Þegar mótið var hálfnað eftir níu umferðir var Fram í þriðja sæti með fjórtán stig og hélt sætinu þrátt fyrir að tapa tveimur næstu leikjum. Eftir tap í sautjándu umferðinni var Fram hins vegar komið niður í þriðja neðsta sætið og aðeins með sextán stig í sarpnum. Grindavík var með jafnmörg stig, en verri markatölu svo nam einu marki.

Við tók mögnuð lokaumferð. Víkingar komu í heimsókn í Laugardalinn og áttu veika von um að hanga uppi með sín fjórtán stig ef Grindavík tapaði heimaleik sínum gegn Val. Valsmenn voru með sextán stig og máttu ekki við því að tapa ef Fram ynni.

Stemningin hjá okkur stuðningsmönnunum var súr. Í sautjándu umferð höfðum við bitið í það súra epli að þurfa að „fagna“ fyrsta Íslandsmeistaratitli KR-inga frá því að Völvan var ung og sæt, því það þýddi að Víkingar töpuðu og sátu eftir á botninum. En nú þurfti að vinna til að hanga í deildinni eða veðja á Val.

Um miðan fyrri hálfleikinn bárust fréttir af því að Valur væri kominn yfir. Það þýddi að Framarar mætu strangt til tekið tapa eða dygði jafntefli – en um leið voru Víkingar komnir í smáséns að bjarga sér. Vallarþulurinn var því ekkert að auglýsa þessar fréttir sérstaklega. Fáeinum mínútum síðar virtist málinu svo endanlega reddað þegar Marcel Oerlemans átti fínan skalla að Víkingsmarkinu, sem var varinn en Anton Björn kom aðvífandi og potaði boltanum í netið.

Þetta var fyrsta mark Tona um sumarið. Hann hafði byrjað mótið sem fastamaður í byrjunarliði, en eftir að halla fór undan fæti datt hann inn og út úr liði. Mér var ekki skemmt að sjá hann byrja inná gegn Víkingum og sú afstaða mín mildaðist furðulítið þrátt fyrir markið.

Undir lok hálfleiksins fengu Víkingar vítaspyrnu upp úr engu, eftir að hafa nánast ekkert gert fram að því, 1:1. Skömmu eftir hlé skoraði Oerlemans gott skallamark eftir undirbúning Hilmars Björnssonar og ég fór strax að sjá eftir því að hafa kallað hann „lata Hollendinginn“ vikurnar á undan. Tíu mínútum síðar gat ég aftur dustað rykið af fordómunum þegar Oerlemans ákvað að gera heiðarlega tilraun til að fella okkur með því að slá einn Víkinginn. Sjálfur hélt hann því fram að Víkingurinn hefði kallað sig negra… en hefði þá ekki mátt láta nægja að berja hann undir stúkunni í leikslok?

Manni færri og með eins marks forystu var við því að búast að Framararnir drægju sig sífellt aftar á völlinn til að halda fengnum hlut. Víkingar gengu á lagið og þegar um 25 mínútur voru eftir jafnaði Bjarni Hall og nú voru úrslitin í Grindavík farin að skipta verulegu máli. Nokkrum mínútum síðar jafnaði Grindavík og einhvern veginn vissu allir um leið að fleiri Grindavíkurmörk myndu fylgja í kjölfarið.

Viðbrögð Ásgeirs Elíassonar virtust örvæntingarfull. Hann setti Andra Fannar Ottósson inná fyrir Ásmund Arnarsson. Þetta fyrsti deildarleikur Andra Fannars í meistaraflokki, svo varla yrði hann bjargvætturinn. Og Anton Björn var færður í fremstu vígílnu!

Þarna var mér öllum lokið. Ætlaði gamli þjálfarinn okkar virkilega að reyna að sækja markið dýrmæta með einhverju barni af varamannabekknum og Tona sem var nýbúinn að pota boltanum inn í fyrsta sinn það sumarið??? Eina von okkar virtist felast í því að Grindavík skoraði ekki annað mark.

Og auðvitað skoraði Grindavík fáeinum mínútum fyrir leikslok eins og skrifað hafði verið í skýin. Fram var komið í fallsæti í fyrsta sinn á keppnistímabilinu og nokkrar mínútur eftir. Framsóknarþingmaðurinn Höskuldur Þórhallsson kom inná hjá Fram, sem fyllti mann þó engri sérstakri bjartsýni. Eini möguleikinn virtist felast í jöfnunarmarki Vals…

En svo náði Gústi Gylfa að stinga boltanum í gegn. Og hver hljóp hraðast allra og afgeiddi boltann í netið á 87. mínútu??? TONI!!!

Við trylltumst í stúkunni. Hoppuðum upp og niður og öskruðum svo að ég varð raddlaus lengi á eftir. Ásgeir Elíasson 1 : Besswewisserar í stúkunni 0. Anton Björn lék þarna sinn síðasta leik fyrir Fram og kvaddi sem hetja. Það var svo ekki fyrr en á barnum löngu síðar að við höfðum almennilega rænu á að glotta yfir að Valur væri fallinn í fyrsta sinn í sögunni.

(Mörk Fram: Anton Björn Markússon 2, Macel Oerlemans. Mörk Víkings: Alan Prentice, Bjarni Lárus Hall)