Rigningin: Fótboltasaga mín 56/100

10. júlí 2005. ÍBV 2 : Fram 0

Sumarið 2005 mætti ég á sautján af átján deildarleikjum Fram. Þann síðasta, lokaleikinn gegn FH, sá ég í sjónvarpinu þar sem við Steinunn vorum í heimsókn fyrir austan. Þetta var súrt tímabil. Byrjaði reyndar á 3:0 sigri gegn Eyjamönnum í fyrstu umferð, þar sem Fram komst í toppsæti efstu deildar í fyrsta sinn í fjölda ára. Í ljós kom að sá sigur var bara til að spæla okkur enn meira þegar allt fór í steik. FH vann okkur 1:5 í lokaumferðinni og Fram féll á einu marki.

Minnisstæðust var þó svaðilförin til Vestmannaeyja. Ákveðið var að fljúga með liðið frá Bakkaflugvelli og smáhópur stuðningsmanna fylgdi með. Ég ákvað í bríaríi að skella mér og snapaði far austur fyrir fjall með nokkrum jöxlum. Farangurinn var einfaldur: bók um St. Kildu sem ég hafði keypt mér skömmu áður.

Það var upplifun að fljúga milli lands og eyja, þar sem flugtakið virtist taka lengri tíma en ferðin sjálf. Við mættum tímanlega og gátum fengið okkur einn bjór á veitingastað fyrir leik. Það var hvasst og um það leyti sem leikurinn hófst fór að rigna.

Jafnræði var með liðunum en seint í fyrri hálfleik fengu Eyjamenn billega vítaspyrnu, 1:0. Þar með var brekkan orðin nokkuð brött, enda kunnu heimamenn vel að verja forystu hvað þá í roki og rigningu. Og rigningin jókst bara í leikhléi. Ég var í úlpu sem gat hrundið frá sér einhverri vætu, en fljótlega varð hún blaut í gegn. Peysan og bolurinn blotnuðu smátt og smátt, gallabuxurnar voru orðnar gegnblautar. Mér tókst að finna plastpoka til að vefja utan um bókina. Hún blotnaði samt rækilega.

Um miðjan seinni hálfleikinn var ekki þurr þráður á mér. Ég var kaldur og vansæll. Leikurinn var augljóslega tapaður. Eyjamennirnir voru miklu vanari aðstæðunum, kunnu að beita rokinu. Steingrímur Jóhannesson skoraði 2:0. Framarar fengu nokkur hálffæri en þetta var ekki einn af þessum leikjum þar sem lukkan félli með okkur.

Í leikslok buðu Eyjamenn okkur Framstuðningsmönnunum í kaffi og samlokur í félagsheimilinu. Heitt kaffið var kærkomið og í ylnum í félagsheimilinu var hægt að leiða hugann að heimferðinni. Ég hlakkaði nú ekki til að sitja í hundblautum fötum í flugvél og svo í bíl alla leið í bæinn. En á það reyndi ekki.

Á flugvellinum var okkur sagt að öllu flugi hefði verið aflýst vegna veðurs. Við fundum hótel í bænum, bókuðum herbergi og fórum svo að huga að kvöldverði. Öll föt voru rennblaut, Ég þurfti að vinda sokkana! En með engar aukaflíkur meðferðis var ekki annað í boði en að rölta kaldur og blautur á næsta matsölustað.

Það var ekki um auðugan garð að gresja í matarmálum klukkan tíu að kvöldi í Eyjum. Eitthvað gátum við þó pantað. Til að ná úr mér hrollinum fór ég svo beint í bjórinn og viskýið. Það virtist skynsamleg ákvörðun þarna um kvöldið.

Morguninn eftir vaknaði ég þunnur. Fötin voru ennþá rök, enda rafmagnsofnar á hótelherberginu sem ekki mátti nota til að þurrka flíkur. Ég var búinn að týna símanum og bókinni.

Ferðafélagarnir höfðu fengið þær fréttir að ekkert yrði flogið þennan daginn. Þá var ekki um annað að ræða en Herjólf. Það var leiðinlegt í sjóinn og ég þunnur. Reyndar tóks mér að sofa nær alla leiðina til Þorlákshafnar, svo sjólagið kom ekki mikið að sök. Það var hins vegar ekki borubrattur Stefán sem sneri heim seint um síðir, eftir að hafa misst út vinnudag, tapað síma og bók auk þess að hafa eytt miklu meiri peningum en heimilisbókhaldið hafði áætlað.

Síminn fannst reyndar á einhverju öldurhúsinu og var sendur í pósti upp á fastalandið nokkrum dögum síðar – og miklu seinna andaði framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Fram því út úr sér að hann hefði rekist á hálfvelkta bók um eitthvað efni sem væri svo fáránlegt að hann hefði strax vitað að ég hlyti að eiga hana og gripið með sér. Allt er gott ef endirinn er góður.

(Mörk ÍBV: Ian Jeffs, Steingrímur Jóhannesson)