Vorskemmtunin: Fótboltasaga mín 58/100

24. apríl 1988. Luton 3 : Arsenal 2

Melaskóli var ansi fjölmennur á níunda áratugnum. Í tólf ára bekknum mínum voru 27 krakkar og fimm bekkjardeildir í árgangi. Það þýddi að vorskemmtun skólans, þar sem nemendum og foreldrum var stefnt til að hlusta á barnakór, falskan flautuleik yngri barnanna og önnur tilfallandi skemmtiatriði, þurfti að fara fram í mörgum hollum. Þetta var afgreitt yfir helgi með hverja sýninguna á fætur annarri báða dagana.

Ingi skólastjóri kallaði mig á sinn fund vorið 1988. Yfirleitt hafði það komið í hlut hans eða einhvers kennarans að kynna atriðin. En að þessu sinni vildi hann breyta til og bað mig um að gerast kynnir fyrir hönd elstu nemanna. Það var auðsótt. Ég hékk niðrí skóla báða dagana og romsaði út úr mér kynningum milli atriða. Falski flautukórinn vandist ekkert sérstaklega vel.

En það var einn galli á gjöf Njarðar. Þessa sömu helgi var risaleikur í Englandi. Leikur sem í dag er áltinn hápunkturinn í sögu Luton Town og verður líklega um lengin enn. Það var úrslitaleikur deildarbikarsins, Luton : Arsenal.

Í Fever Pitch eftir Arsenal-manninn Nick Hornby er heill kafli helgaður þessum leik, þar sem varnarmaðurinn Gus Ceasar er gerður að blóraböggli. Hann átti ekki góðan leik, en fleira kom þó til.

Á þessum árum var deildarbikarinn hærra skrifaður en síðar varð. Félögin tefldu fram sínum sterkustu liðum allt frá fyrstu umferðunum. Arsenal hafði titil að verja. Árið áður unnu Arsenalmenn Liverpool í úrslitunum og þar með sinn fyrsta titil frá árinu 1979.

George Graham ætlaði svo sannarlega að halda titlinum og Arsenal mættu til leiks sem ótvírætt sigurstranglegra liðið. Reyndar munaði ekki nema þremur sætum í lok leiktíðar. Arsenal hafnaði í sjötta sæti og Luton í níunda, en munurinn var þó þrettán stig. Leið Luton í úrslitin hafði svo sem ekki verið sú strembnasta. Liðið hafði bara mætt tveimur efstudeildarliðum: Coventry og botnliði Oxford í undanúrslitum.

Ég fékk afa og ömmu til að taka leikinn upp á spólu og stormaði svo heim til þeirra um leið og síðasta sýningin var búin og horfði á upptökuna í fyrsta en fjarri því síðasta sinn.

Brian Stein kom Luton yfir eftir tæpan stundarfjórðung eftir frísklega byrjun sem kom Lundúnarliðinu greinilega á óvart. Preece tók langa aukaspyrnu inn í teiginn þar sem Steve Foster með fína ennisbandið sitt sendi hann fyrir lappirnar á Stein (sem hefði ef til vill mátt vera í betri gæslu Gus Ceasars). John Lukic átti aldrei séns. Eftir markið drógu Luton-menn sig þó jafnt og þétt aftar á völlinn og Arsenal sótti í sig veðrið.

Les Sealey, aðalmarkvörður Luton um þessar mundir, var meiddur. Andy Dibble stóð því á milli stanganna og fór á kostum. Eftir tímabilið ákvað hann að færa sig niður um deild og gekk til liðs við Manchester City. (Vá hvað það er skrítið að skrifa þessa setningu!)

Þrátt fyrir hetjulega frammistöðu Dibble var það ljóst þegar líða tók á seinni hálfleikinn að Luton gæti ekki varist pressu Arsenalsóknarinnar endalaust. Alan Smith var framherji sem virtist skora í hverjum leik. Perry Groves var frammi með honum. Groves var skipt útaf fyrir Martin Hayes sem jafnaði metin á 71. mínútu.

Þremur mínútum síðar kom næsta kjaftshögg. Eftir klaufagang í vörninni þar sem Luton-mönnum mistókst í þrígang að koma boltanum í burtu fékk Alan Smith knöttinn utarlega í vítateignum og skaut snyrtilega yfir Dibble. 2:1 fyrir Arsenal og núna héldu meira að segja þrettán ára bjartsýnir pakkar á Íslandi að þetta væri búið…

Leikmenn Arsenal voru sama sinnis og ætluðu að kafsigla andstæðingana. Smith átti stangarskot og svo braut Mal Donaghy klaufalega á David Rocastle. Vítaspyrna!

Og nú var komið að ákvörðuninni sem í raun réði úrslitum í leiknum – hvað sem öllum axarsköftum Gus Ceasars leið. Hroki glæpamannsins er þekkt minni í bókmenntum: augnablikið þegar skúrkurinn hefði getað ráðið niðurlögum hetjunnar, en kýs af stærilæti sínu að skipuleggja flókinn og hægfara dauðdaga auk þess að kjafta frá leyndarmáli sínu. Þetta gerist einatt í James Bond-myndunum.

Vítaskytta Arsenal var… Nigel Winterburn! Það var fullt af mönnum inná sem voru rökréttari kostur í hlutverk vítaskyttunnar. Kommon! Þú lætur ekki Winterburn taka víti í úrslitaleik á Wembley með bara eins marks forystu, hversu mikla yfirburði sem þér finnst þú hafa!

Andy Dibble varði og um leið byrjaði að molna úr sjálfsöryggi Arsenal. Á 83. mínútu hrasaði Gus Ceasar í vítateignum og tiltölulega bitlítil sókn Luton-manna varð allt í einu stórhættuleg. Mark Stein sendi fyrir markið þar sem Danny Wilson kom aðvífandi og skallaði í netið.

Bæði lið voru farin að búa sig undir framlengingu þegar Tony Adams braut á Mark Stein á miðjum eigin vallarhelmingi. Luton-menn náðu að stilla upp. Danny Wilson sendi inn í teiginn, varnarmaður Arsenal skallaði út að hliðarlínu þar sem hinn smáfríði Ashley Grimes náði knettinum – hljóp upp að endamörkum og sendi fyrir… þar sem enginn mundi eftir að dekka Brian Stein!!! 3:2. (Í endurminningabók sinni sagðist Tony Adams hafa hugsað: „ókey, þetta þýðir fyllerí í mánuð.“)

Fjórtán sekúndum eftir að leikmenn Arsenal tóku miðjuna var flautað til leiksloka í einhverjum dramatískasta deildarbikarsúrslitaleik sögunnar. Sjitt hvað ég var montinn í skólanum næstu daga!

Reyndar upplifði ég ekki alla dramatíkina á sama hátt og áhorfendurnir á Wembley. Þegar Arsenal komst í 2:1 hafði ég farið til afa og spurt um úrslitin. Það dró samt ekkert úr gleðinni.

Kynnisstarfið á sumarskemmtuninni gekk svo bara vel að ég held. Annars man ég lítið eftir því og hef engin vitni, því ég sá enga ástæðu til að láta mömmu og pabba vita af þessu hlutverki mínu – þau hefðu bara fengið einhverjar furðuhugmyndir eins og að mæta. Það liðu líklega tuttugu ár áður en þau fréttu af þessari samkomu.

(Mörk Luton: Brian Stein 2, Danny Wilson. Mörk Arsenal: Martin Hayes, Alan Smith)