Sveiflurnar: Fótboltasaga mín 59/100

23. júlí 1993. KR 1 : Fram 4

1993 er síðasta árið sem við Framarar hófum keppni með raunhæfar meistaravonir. Árin tvö þar á undan litum við á okkur sem meistaraefni og fyrir þetta sumar var bætt við hópinn og Ásgeir Sigurvinsson ráðinn sem stjóri. Við spiluðum líka í treyjum sem náðu að fanga anda og hönnunarsmekk tíunda áratugarins á magnaðan en skelfilegan hátt.

Þetta var stórskrítið tímabil. Fram hafnaði í fimmta sæti með átta sigra, eitt jafntefli og níu töp. Akranes var yfirburðalið þetta sumarið. Urðu bikarmeistarar og unnu alla leiki sína í deildinni nema tvo: tap og jafntefli gegn Fram. 3:3 á Skaganum þar sem heimamenn voru ljónheppnir að ná stigi og 4:2 í Laugardalnum þar sem Framarar fóru á kostum og komust í 4:0.

Annað var í stíl við þetta. Fram vann Fylki 5:0 í fyrri umferðinni, úrslit sem til skamms tíma voru stærsti skellur Fylkismanna í meistaraflokki karla. Í seinni umferðinni unnu Árbæingar hins vegar 3:0. Stöðugleikinn var enginn. Framarar léku sitt á hvað eins og meistaraefni eða fallkandídatar.

Í uppgjörskaflanum um efstu deildina í Íslenskri knattspyrnu 1993 velti Víðir Sigurðsson því fyrir sér hvort slök útkoma Framara mætti skrifast á að liðið hefði haft „of mörgum framherjum“ á að skipa. Nákvæmlega hvernig það hefði átt að virka er óljóst. Og Fram skoraði nóg af mörkum: 38 en fékk 37 á sig þrátt fyrir að hafa Birki Kristinsson í markinu og Kristján Jónsson í miðju varnarinnar með Ágúst Ólafsson og Steinar Guðgeirsson  í bakvörðunum.

Framarinn Helgi Sigurðsson fékk bronsskóinn með 14 mörk, svo auglóslega beindist gagnrýni Víðis ekki að honum, en spurningin er hvort hann hafi verið að ýja að því að aðrir framherjar hafi ekki staðið sig sem skyldi: þeir Valdimar Kristófersson, Ríkharður Daðason og Atli Einarsson sem allir skoruðu fimm mörk eða færri.

Atli Einarsson olli vissulega vonbrigðum. Hann kom til Fram sem síðhærði markaskorarinn úr Víking sem gat hlaupið hraðar en öflugustu frjálsíþróttakappar. Í bláa búningnum gerði hann hins vegar ekki mikið… nema í Skjólinu 1993.

Leikurinn í Frostaskjólinu var sögulegur. KR-liðið var nálega taplaust á heimavelli. Framarar sóttu hins vegar stíft og voru komnir tveimur mörkum yfir snemma leiks: Helgi Sig. og Valdimar Kristófersson. KR minnkaði muninn eftir um hálftíma úr vítaspyrnu.

Pétur Arnþórsson fór meiddur útaf í leikhléi. Þegar halftími var eftir fékk Helgi Björgvinsson beint rautt spjald og skömmu síðar yfirgafi Helgi Sigurðsson völlinn meiddur. Steinar Guðgeirsson meiddist skömmu síðar en skiptingarnar voru búnar svo hann mátti haltra um til leiksloka. Í raun voru Framarar níu á móti ellefu og útlitið ekki gott.

En þá kom til skjalanna Atli Einarsson. Framliðið lá til baka en sendi langa bolta fram á Atla sem stakk alla af með hraða sínum. Hann fiskaði vítaspyrnu sem varin var frá Kristjáni Jónssyni. Á 84. stakk Atli sér í gegnum KR-vörnina og skoraði 3:1 og mínútu síðar lagði hann upp mark fyrir Ingólf Ingólfsson. Morgunblaðið gaf Atla Einarssyni 3 M fyrir leikinn. Sú einkunn var yfirleitt frátekin fyrir markverði með stórleik eða framherja sem skoruðu þrennur.

Atli hafði skorað tvö mörk í næsta leik á undan og í umferðinni á eftir skoraði hann líka tvívegis, í leik gegn Eyjamönnum. En fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir að hann væri í byrjunarliði í átta síðustu leikjunum. Hann hefði sennilega ekki átt að láta klippa hárið stutt…

Eftir tímabilið gekk Atli til liðs við FH-inga. En Framarar minnast hans alltaf með hlýhug fyrir leikinn í Frostaskjólinu.

(Mark KR: Rúnar Kristinsson. Mörk Fram: Helgi Sigurðsson, Valdimar Kristófersson, Atli Einarsson, Ingólfur Ingólfsson)