B-maðurinn: fótboltasaga mín 61/100

17. febrúar 2001. Hearts 1 : Dundee 1

Peter skólabróðir minn í Edinborg er eitt svæsnasta dæmi um B-manneskju sem ég hef kynnst. Hann virtist algjörlega úti á þekju í tímunum og gat varla stamað upp úr sér óbjagaðri setningu á ensku eða tekið þátt í samræðum. Við samnemendurnir litum á hann sem hálfgerðan fábjána eða hasshaus, sem gekk þó ekki upp miðað við að Peter hafði starfað sem aðstoðarmaður hjá Ulrich Beck, sem var aðaltöffarinn í félagsfræðinni um þær mundir.

Einhvern veginn æxluðust þó mál þannig að við Peter ákváðum að horfa saman á fótboltaleik á einhverri knæpunni. Þar hitti ég hann í fyrsta skipti við aðrar kringumstæður en árla dags í skólastofunni. Í ljós kom að hann var eldklár, bráðskemmtilegur og átti ekki í neinum vandræðum með að tjá sig á ensku. Heilinn á honum fór einfaldlega ekki í gang fyrr um um hádegi. Ég gat tilkynnt skólafélögunum daginn eftir að Peter væri ekki sá fáráður sem við höfðum haldið í margar vikur og eftir það varð hann hluti af hópnum.

Líkt og ég, hafði Peter ákveðið að styðja Hearts meðan á Edinborgardvölinni stæði og við skelltum okkur á nokkra leiki, þar á meðal bikarleikinn gegn Dundee í 16-liða úrslitunum.

Þetta var merkilegt tímabil í sögu Dundee. Ítölsku bræðurnir Ivano og Dario Bonetti stýrðu liðinu og sönkuðu að sér erlendum leikmönnum, einkum suður-amerískum, sem ekki samrýmdust alveg staðlmyndinni af skoskum fótboltamönnum. Útlendingahersveitin átti oft flotta spretti, en stöðugleikann skorti og ítölsku byltingunni hjá Dundee lauk eftir aðeins tvö ár.

Langstærsta stjarnan sem Bonetti-bræður lokkuðu til sín var Claudio Caniggia – maðurinn með ljónsmakkann sem mátti þola að vera frystur af argentískum landsliðsþjálfunum fyrir að neita að klippa hárið stutt. Caniggia var yfirburðamaður í liði Dundee og færði sig yfir til Rangers í lok tímabilsins.

Fyrir leikinn hafði Hearts ekki tapað á heimavelli í skoska bikarnum í nærri tuttugu ár og virtist ekki ætla að breyta út frá þeim vana. Hearts-menn óðu í færum í fyrri hálfleik og misnotuðu meðal annars vítaspyrnu snemma leiks. Leikmenn Dundee voru þolinmóðir og treystu á skyndisóknir. Caniggia var nærri búinn að leggja upp mark fyrir landa sinn Juan Sara og skömmu síðar, eftir um hálftíma leik bætti Sara um betur og skoraði, 0:1.

Ítalski markvörðurinn Rocatti fór á kostum í marki Dundee og ekkert virtist ætla að komast fram hjá honum. Þegar níu mínútur voru eftir jafnaði hins vegar Juanjo. Hann var nettur, sókndjarfur miðjumaður sem átti víst einn opinberan leik með Barcelona áður en hann gekk í raðir Hearts. Bradford City keypti Juanjo að tímabilinu loknu en hann náði sér aldrei á strik sunnan landamæranna.

Hearts vann seinni leikinn og komst í fjórðungsúrslitin, en þar með var draumurinn úti. Tap á útivelli gegn Celtic lauk því ævintýri. Celtic fór svo alla leið í úrslitin og sigraði þar Hibernian. Það fannst Hearts-mönnum ekki leiðinlegt, enda smjöttuðu þeir mjög á því að Hibs hefði síðast unnið titil í Búastríðinu eða þar um bil…

(Mark Hearts: Juanjo. Mark Dundee: Juan Sara)