Fótboltasaga mín 62/100: Rangstaðan

15. júní 1986. Sovétríkin 3 : Belgía 4

Er ekki fyrsta HM í fótbolta sem maður upplifir alltaf sú besta? Það er að minnsta kosti mín kenning. Ég þekki menn sem verða meirir þegar hin nálega markalausa keppni á Ítalíu 1990 berst í tal, aðrir fá stjörnur í augun þegar talað er um 1994 í Bandaríkjunum. Hef meira að segja hitt menn sem eru svo ungir að þeim fannst skrípaleikurinn í Japan og Suður-Kóreu 2002 vera æði. Allt voru þetta fyrstu keppnir viðkomandi aðila.

Mín keppni er Mexíkó 1986. Hún er svo greipt í huga mér að ekkert fótboltamót mun eiga séns í minningarnar frá sumrinu þegar ég var ellefu ára og missti varla út leik.

Ég var líka nógu ungur til að halda með fullt af liðum. Í dag er ég orðin svo svartur á sálinni að stórmót snúast yfirleitt um hvort liðið mér er minna illa við hverju sinni. En 1986 gat ég haldið með haug af þriðja heims löndum. Suður-Ameríkuliðunum Argentínu, Úrúgvæ og smá með Paragvæ. Frakkar fóru ekkert sérstaklega í taugarnar á mér og Búlgarir og Ungverjar máttu ná góðum árangri mín vegna. Og svo voru það náttúrlega Sovétmenn.

Sovéska landsliðið var í raun lið Dynamo Kiev, með sama þjálfara: Lobanovsky. Þetta þótti rosalega sérstakt en um leið spennandi tilraun – að tefla fram landsliði sem væri í stórum dráttum félagslið og allir því þaulæfðir að spila saman. Kiev-liðið var líka hörkugott með fullt af fínum leikmönnum og slátruðu Atletico Madrid 3:0 í úrslitum Evrópukeppni bikarhafa mánuði fyrir mótið í Mexíkó.

Sovétmenn voru mínir menn ásamt Argentínu og ég bjóst við þeim í undanúrslitin í það minnsta. Það byrjaði líka vel. Sovétmenn unnu sinn riðil og skutu Frökkum aftur fyrir sig. Andstæðingarnir í 16-liða úrslitunum voru hálfgert formsatriði. Belgía hafði skriðið áfram sem þriðjasætislið á eftir Mexíkó og Paragvæ en á undan Írak. Belgarnir höfðu átt þokaleg ár í byrjun níunda áratugarins en voru frekar taldir á niðurleið og lentu yfirleitt í einhverjum skandölum á stórmótum.

En útkoman varð einhver besti leikur í HM-sögunni. Belanov, sem átti að vera stóra tromp Sovétmanna í mótinu, hafði valdið vonbrigðum fram að þessu – aðeins skorað eitt mark og það úr víti gegn Kanada. En þarna hrökk hann í gang og skoraði þrennu. Hann kom Sovétmönnum yfir í fyrri hálfleik en Enzo Scifo jafnaði eftir tíu mínútur af seinni hálfleik. Aftur skoraði Belanov á 70. mínútu en Ceulemans jafnaði eftir 77 mínútur.

Í framlengingunni skoruðu Belgar tvívegis en Belanov svaraði um hæl og síðustu tíu mínúturnar lágu Sovétmenn í sókn án þess að ná að skora. Raunar mátti telja sovésku færin í leiknum í tugum, meðan Belgarnir virtust ekki bregða sér í sóknina nema til að setja mark.

Og eins og það hefði ekki verið nóg að sóknarnýtingin hefði verið með þessum hætti, þá voru tvö belgísku markanna augljós rangstaða. Jöfnunarmark Ceulemans var svo augljóslega ólöglegt að manni datt helst í hug að brögð væru í tafli. Ég varð svo miður mín yfir óréttlætinu í leikslok að ég brynnti músum. Er ekki eitthvað fallegt við að ellefu ára krakkar geti skælt yfir úrslitum í landsleikjum ókunnra þjóða? Þannig gerir maður bara á sínu fyrsta HM.

(Mörk Sovetríkjanna: Igor Belanov 3. Mörk Belgíu: Enzo Schifo, Jan Ceulemans, Stéphane Demol, Nico Claesen)