26. september 1998. Grindavík 4 : Fram 2
Það var spenna í loftinu fyrir lokaumferðina 1998. KR eygði möguleikann á sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í þrjá áratugi með sigri á Eyjamönnum á heimavelli. Á sjötta þúsund manns mætti í Frostaskjól, þar sem ÍBV fór með sigur af hólmi. Á vellinum voru flestir eða allir fastráðnu íþróttafréttamenn Moggans.
Viðureignin í Vesturbænum hófst rúmum hálftíma eftir að öðrum viðureignum lauk, svo blaðamennirnir gátu sinnt viðureignunum sem fram fóru í Reykjavík. Öðru máli gegndi hins vegar um Grindavík : Fram. Og þá kom sér vel að vita af lausapenna sem skrifað hafði um nokkra leiki í næstefstu deild og sem myndi hvort sem keyra suður eftir.
Leikurinn skipti Framara í raun litlu máli. Ásmundur Arnarsson hafði farið langleiðina með að tryggja efstudeildarsætið tveimur leikjum fyrr með þrennu á Hlíðarenda og í næstsíðustu umferðinni hafði Fram komið sér í tuttugu stigin og sloppið tölfræðilega með markalausu jafntefli gegn ÍR í ævintýralega leiðinlegum leik.
Grindavík var hins vegar í fallsæti og þurfti nær örugglega á sigri að halda til að lafa uppi, eins og kom á daginn. Til að fá sem mestan stuðning höfðu fyrirtæki í bænum ákveðið að bjóða á völlinn. Ég sparaði því ekkert á að veifa blaðamannapassanum.
Tilboðið breytti því ekki að fátt var á vellinum. Framstuðningsmennirnir voru í meirihluta, þrátt fyrir að hafa að engu að keppa. Ég rölti til mannsins í hliðinu og spurði hvað þetta teldust margir áhorfendur? Hann nefndi einhverja svimandi tölu, 800 eða þar í kring. Mér fannst 250-300 nær lagi. Um þetta kýttum við aðeins, uns hann sagði að sér væri skítsama hvað Mogginn skrifaði um mætinguna. Ég endaði á að skrifa 440 áhorfendur „að sögn vallarstarfsmanna“, sem var lægsta talan sem nefnd var í samræðum okkar.
Grindvíkingar voru feigðarlegir í byrjun. Sóttu af kappi en skoruðu bara eitt mark, Milan Stefán Jankovic með skalla. Ási skoraði hins vegar úr eina færi Framara í fyrri hálfleiknum. 1:1 í leikhléi og Grindvíkingar fallnir.
Í seinni hálfleik virtust Framarar miklu ákveðnari í að klára leikinn. Kristófer Sigurgeirsson skoraði 2:1 og í raun hefði leikurinn átt að vera búinn því Jón Sveinsson af öllum mönnum hafði misnotað dauðafæri. Ég kallaði Jón „gamla brýnið“ í umsögn minni og fannst hann í raun vera hálfgert gamalmenni. Sé núna að hann var nýorðinn 33 ára gamall. Annars átti Jón stórleik og fékk tvo bolta frá blaðamanni DV, sem mig minnir líka að hafi verið einhver varaskeifa eins og ég.
En auðvitað hlutu Grindvíkingar að vakna til lífsins, þótt ekki væri nema vegna þess að Þróttarar voru líka í fallbaráttunni og Þróttur fellur ALLTAF á lokamínútunum ef þess er nokkur kostur. Þegar kortér var eftir jafnaði Grétar Hjartarson. Jankovic fiskaði svo víti sem Scott Ramsey skoraði úr og undir lokin náðu heimamenn fjórða markinu úr skyndisókn eftir að allt Framliðið var komið í sóknina.
Það var mikið fjör í búningsklefum Grindvíkinga. Ég þurfti að bíða af mér alla sigurdansana, húrrahrópin og kampavínstappaskothríðina áður en ég náði að taka viðtöl við lykilmenn Grindavíkur. Það hefði ég getað stillt mig um, því allt blaðið var tekið undir sigur Eyjamanna og allt sem birtist af viðtölunum voru 1-2 setningar sem ég hafði eftir Gumma Torfa, þjálfara Grindavíkurliðsins.
Í Íslenskri knattspyrnu 1998, sem væntanlega sækir heimildir sínar beint í skýrslur KSÍ, má lesa að 680 manns hafi verið á vellinum. Jamm og jæja.
(Mörk Grindavíkur: Milan Stefán Jankovic, Grétar Hjartarson, Scott Ramsey, Þórarinn Ólafsson. Mörk Fram: Ásmundur Arnarsson, Kristófer Sigurgeirsson)