Fótboltasaga mín 65/100: Lurkurinn

23. september 2005. Luton 2 : Sheffield Wednesday 2

Vorið 2005 komst Luton upp í næstefstu deild í fyrsta sinn í áratug. Við fórum upp sem meistarar, með tólf stigum meira en Hull sem var í öðru sætinu. Mike Newell, gamli Liverpool- og Blackburn-framherjinn, var við stjórnvölinn. Hann var sérlundaður en góður stjóri. Með tímanum varð hann þó meira og meira skrítinn, uns það fór að bitna verulega á störfum hans.

Það var æðislegt að spila svona ofarlega. Ég gerðist áskrifandi að Sýn, gagngert til að sjá þáttinn með svipmyndunum úr þessari deild. Og reyndi að ná sem flestum beinum útsendingum. Luton varð reyndar sjaldan fyrir valinu. Stærri liðin urðu frekar fyrir valinu og Luton sigldi nokkuð lygnan sjó þetta fyrsta ár. Endaði í tíunda sæti, víðs fjarri allri botnbaráttu en heldur ekki nálægt umspilssæti.

Það voru flinkir leikmenn í hópnum. Einn sá vinsælasti meðal stuðningsmannanna var Ahmed Brkovic, lítill Króati sem skorti kannski líkamlegan styrk, en var alltaf að reyna að skora hálfgerð sirkusmörk. Í hvert sinn sem færi gafst fór hann í hjólhestaspyrnur og skoraði þrisvar eða fjórum sinnum með þeim hætti. Carlos Edwards, landsliðsmaður Trinidad og Tobago var á kantinum – gríðarlega lunkinn leikmaður.

Rowan Vine var tæknilega bestur í liðinu og raðaði inn mörkum eftir að hafa misst af fyrstu leikjunum vegna meiðsla. Hann var síðar seldur fyrir stórfé til Birmingham, sem gat aldrei notað hann neitt. QPR samdi síðar við Vine og reyndi að lána hann út um allar Trissur. Síðast þegar ég frétti var hann enn að spila, nú í neðri deildunum í Skotlandi. Þar fór góður biti í hundskjaft.

En Vine var meiddur þegar Sheffield Wednesday kom í heimsókn í lok september. Það þýddi að leikaðferðin var mjög einföld: negla fram á Steve Howard og vonast til að hann böðlaði knettinum einhvern veginn í markið.

Howard uppfyllir fullkomlega staðalmyndina af stóra senternum. Hann er hávaxinn og massaður nagli sem hefur brotið nefið oftar en einu sinni og vill helst bara stanga boltann í netið. Þetta er týpan sem stuðningsmenn fótboltaliða í vandræðum óska sér yfirleitt að fá í hópinn: „Það eina sem okkur vantar er svona alvöru stór og sterkur stræker til að rífa þetta upp!“ – Í raun er það samt bara óskhyggja. Þegar restin af liðinu er slöpp, þá leikur stóri og sterki strækerinn líka illa. Og ekkert er eins aumkunarvert og stór framherji á slæmum degi.

En Howard átti góðan dag á móti Uglunum. Eftir tvær mínútur skoraði hann með skalla (nema hvað?) og ég fagnaði vel á Ölveri. Ekki man ég hvort Björgvin Ingi eða Jóhannes Birgir – Sheffield Wed.-stuðningsklúbburinn á Íslandi – voru á staðnum og grétu oní bjórinn. Sjálfur hef ég líklega pínt Stebba Hagalín til að mæta. Ég mætti með honum á QPR-leiki og hann galt líku líkt.

Næstu mínúturnar virtist Luton ætla að kafsigla gestina, en fékk svo mark í andlitið eftir tæpt kortér. Við tók miðjumoð þar sem Luton var líklegra en þó ekkert mikið í gangi. Aftur skoraði Sheffield, 1:2. Nokkrum andartökum síðar jafnaði Luton. Hver? Auðvitað Howard. Hvernig? Auðvitað með skalla, hvernig spyrðu?

Fyrirgjöfina átti Kevin Nicholls. Ef efnt yrði til kosningar í stuðningsmannaklúbbnum um mesta stórmenni sögunnar reikna ég með að Mick Harford ynni. Kevin Nicholls yrði númer tvö. Síðan yrði slagur á milli Jesú, Mandela og Davids Pleats um bronsið.

Luton sótti stíft undir lokin en úrslitin urðu 2:2 jafntefli, sem þótti lítil ástæða til að fagna á móti hálfgjaldþrota Sheffield-liði (sem þó fékk flesta áhorfendur allra liða í deildinni á leiki sína). Þegar ég renni yfir leikmannahópinn þeirra núna eru engine nöfn sem klingja bjöllum. Jú, Chris Brunt frá WBA. Að kalla hann súperstjörnu væri þó enn eitt dæmi um gengisfellingu orðanna.

Annar markaskorara þeirra, Gavid Graham, virðist enn vera að spila í sömu borg – hjá Sheffield FC – sem allir fótboltaunnendur eiga að þekkja sem elsta fótboltalið í heimi. Vel gert!

Ég hefði þó varla tuðað á leiðinni heim af barnum hefði mig órað fyrir að þetta væri lognið á undan storminum. Á næstu leiktíð byrjaði Luton vel og komst í fimmta sætið með 5:1 sigri á Leeds. Næsti leikur var sjónvarpsleikut, úti gegn Ipswich. Hann tapaðist 5:0, þar sem leikmennirnir virtust í losti. Í ljós kom að einn í hópnum hafði fengið helablóðfall á leiðinni á völlinn og enginn var andlega reiðubúinn til að spila fótbolta.

Þar með var blaðran sprungin og við tók hrina tapleikja. Í janúarglugganum freistuðu stjórnendur félagsins að selja bestu mennina í von um að þeir sem eftir væru gætu hangið uppi. Það reyndist tálvon. Luton kolféll vorið 2007. Um leið kom í ljós að eigendur félagsins voru glæpamenn sem rændu félagið innanfrá.

Luton féll þrjú ár í röð. Að lokum tókst að reka skúrkana frá félaginu. Þá kom knattspyrnusambandið og ákvað að refsa félaginu fyrir misgjörðir gömlu eigendanna. Þeir sjálfir fengu málamyndarefsingar. Við tóku fimm ár. Fimm ár í helvítis utandeildinni.

Ó hvað maður hefði gefið mikið síðustu misserin fyrir 2:2 jafnteflisleiki gegn Sheffield Wednesday, þar sem helsta áhyggjuefnið var of einhæfur sóknarleikur.

(Mörk Luton: Steve Howard 2. Mörk Sheffield Wednesday: Graeme Lee, David Graham)