22. ágúst 1999. Fram 0 : ÍBV 2
Ásgeir heitinn Elíasson var frábær þjálfari. Það orðspor fylgdi honum hins vegar að hann blandaði sér helst ekki mikið í það hvaða leikmenn fengnir væru til liðsins. Þar vildi hann frekar treysta á dómgreind stjórnarmanna eða annarra þeirra sem hann treysti og ynni svo með þann mannskap sem úr var að spila. Ég veit ekkert um hvort þetta er satt.
Ég veit heldur ekki hvort það sé satt að Ásgeir hafi bara einu sinni sótt það stíft að fá leikmann og það útlending. Sá leikmaður reyndist hins vegar óumdeilanlega kötturinn í sekknum. Saint Paul Edeh.
Neyðin er slæmur kaupmaður og oft gera fótboltalið von kaup þegar langt er liðið á mót og alltof fá stig komin á töfluna. Þá fara líka snjöllu umboðsmennirnir á kreik og búa til glæsilegar ferilsskrár og flottar jútúb-klippur til að sýna fram á snilli umbjóðenda sinna, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum séu samningslausir og til í að stökkva á fyrsta tækifæri.
Sumarið 1999 var skrítið. KR og ÍBV báru af, en restin af liðunum voru á svipuðu róli. Leiftursmenn náðu þriðja sætinu á aðeins 26 stigum. Valsmenn enduðu á að falla með átján stig, en næstu þrjú lið þar fyrir ofan fengu stiginu meira. Fram var í þeim hópi. Fjórtán þessara stiga komu í fyrri umferðinni, þar sem bjartsýnismenn fóru að gæla við narta í toppliðin og ná jafnvel Evrópusæti. Svo hrundi allt.
Í lok júlí bárust fregnir af því að Framarar hefðu tryggt sér nýjan leikmann. Það var tvítugur Nígeríumaður sem leikið hafði á Indlandi en sá Fram sem stökkpall til Evrópu. Heimildir Framara hermdu að þessi stóri og sterki varnarmaður, Saint Paul Edeh, hefði verið í úrtökuhópi fyrir u20-ára landslið Nígeríu árið áður og ítrekað verið valinn leikmaður mánaðarins í nígerísku deildinni, þá 18-19 ára gamall.
Síðar kom í ljós að hr. Edeh var ekki maður sem setti ljós sitt undir mæliker. Árið 2003 birtist viðtal við hann í Fréttablaðinu, þar sem Edeh var orðinn markahrókur mikill hjá Afríku United og lýsti vonum sínum um að komast að hjá liði í efstu eða næstefstu deild, enda stefndi hann á að verða landsliðsmaður fyrir Nígeríu og þyrfti að komast ofar í deildarkeppnina til að ná augum landsliðsþjálfarans, sem væri raunar gamall vinur hans.
Edeh byrjaði ekki stax inná. Sögum bar ekki saman um hvað ylli, en hann var kominn í hóp á móti Eyjamönnum í fjórtándu umferð. Liðsuppstillingin bar þess merki að margt gengi ekki sem skyldi. Aðalmarkvörðurinn, Ólafur Pétursson, datt út úr liðinu í nokkra leiki og Friðrik Þorsteinsson tók stöðu hans. Eyjaleikurinn var sá síðasti sem Valdimar K. Sigurðsson lék fyrir Framliið. Hann hafði byrjað um helming leikja sumarsins og nokkrum sinnum komið inná, en ekki tekist að skora – sem er aldrei gott fyrir framherja. Honum var að lokum skipt út fyrir Höskuld Þórhallsson, síðar Alþingismann. Ásgeir Halldórsson og Hilmar Björnsson voru ekki í liðinu, hljóta að hafa verið í banni eða meiddir. Þeir voru annars fastamenn.
Maður var rétt sestur í stúkunni þegar leikurinn var búinn. Ívar Ingimarsson skoraði eftir tvær mínútur. Eyjamenn áttu ekki í miklum vandræðum með að drepa leikinn eftir það. Í byrjun seinni hálfleiks náðu Framarar nokkrum þokkalegum sóknum, en fengu þá annað mark og rothöggið í andlitið þegar hálftími var eftir.
En á hliðarlínunni stóð Saint Paul Edeh og hitaði upp eins og herforingi. Hann var byrjaður að hita upp eftir tíu mínútur og hann gerði það með látum. Í stað þess að teygja á grasbölunum við annan hvorn enda vallarins, stóð hann fyrir framan stúkuna og stökk upp og niður, Hljóp á staðnum með háum hnélyftum og virtist fær í flestan sjó.
Þegar fokið var í flest skjól fékk nýliðinn að hlaupa inná fyrir Anton Björn. Kannski furðuleg ráðstöfun miðað við fyrri lýsingar á Edeh sem varnarmanni, en í ljós kom að sú staða var eitthvað málum blandið eins og fleira. Í tíu mínútur hljóp leikmaðurinn í hringi og var úti á þekju. Framliðið átti slakan dag og var í raun búið að gefast upp þegar þarna var komið sögu, en Saint Paul Edeh var áberandi lélegastur. Hann kom aldrei aftur við sögu hjá Fram þetta sumar.
Ekki var skiptum hans af félaginu þó með öllu lokið. Hann fór í mál vegna vangoldinna launa og fékk fúlgur fjár fyrir dómi. Þetta voru mögulega dýrustu tíu mínútur í sögu Knattspyrnufélagsins Fram… jafnvel þótt við teljum upphitunartímann og hnélyfturnar með.
En það var líka engan aukvisa við að semja. Á linkedin-síðu kappans kemur fram að hann sé lögfræðingur og lagalegur ráðgjafi. Hann lýsir sér sem hlutlægum í hugsun, öguðum, vinnusömum og hafi JESÚ KRIST í öndvegi í lífi sínu. Háskólagráðurnar hefur hann frá HÍ og London University, þar sem hann hóf nám 2005 eftir að knattspyrnuferlinum lauk. Ekki urðu Framarar til þess að opna honum leið í nígeríska landsliðið en kannski tókst okkur að tendra áhugann á lögfræðinni. Það var þá til einhvers barist.
(Mörk ÍBV: Ívar Ingimarsson og Ívar Bjarklind)