Fótboltasaga mín 67/100: Baulið

5. apríl 2009. Luton 3 : Scunthorpe 2

Það var magnað að horfa á áhorfendaskarann á úrslitaleiknum á HM í Brasilíu gefa sér tíma í öllum hamagangnum og látunum eftir að úrslitin lágu fyrir, til að baula hraustlega á Sepp Blatter, hinn alræmda forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Við Luton-stuðningsmenn eigum sambærilegt augnablik. Það var sunnudaginn fimmta apríl 2009 á Wembley.

Allir muna eftir því þegar Guðjón Þórðarson leiddi Stoke City til sigurs í Framrúðubikarnum. Síðar skipti keppnin um styrktaraðila og var kennd við vörubílafyrirtæki. Síðustu árin hefur Johnstone´s málningarfyrirtækið kostað mótið, verðlaunagripurinn er því eðlilega uppnefndur „málningardósin“.

Um er að ræða bikarkeppni liðanna í þriðju og fjórðu efstu deild. Leikið er í miðri viku og allir líta á mótið sem truflun eða í besta falli tækifæri til að nota varaliðsmenn þar til komið er í lokaumferðirnar, þar sem vonin um úrslitaleik á Wembley fer að spila inní. Þetta er líka ágætt mót fyrir miðjumoðsliðin sem hafa í raun ekki að neinu að keppa þegar komið er fram yfir áramót. Bikar er bikar, þótt hann sé málningardós.

En veturinn 2008-09 var ekkert andskotans miðjumoð hjá Luton. Þetta var ár satans. Vorið 2007 féll Luton úr næstefstu deild og um svipað leyti kom í ljós að fjármálin voru í steik. Gömlu eigendurnir voru hálfgerðir glæpamenn og bókhaldið í tómu rugli. Næsta ár einkenndist af brunaútsölum og greiðslustöðvunum og liðið féll aftur.

Félagið fór úr greiðslustöðvun eftir nauðarsamninga við kringumstæður sem Joseph Heller hefði kunnað vel að meta: enska deildin gerði kröfu um að lið fengju stigafrádrátt ef þau færu úr greiðslustöðvun án þess að allir kröfuhafar samþykktu nauðarsamninganna. Á sama tíma gerði deildin og knattspyrnusambandið kröfu til þess að allar skuldir við „aðila innan knattspyrnufjölskyldunnar“ yrði greiddar 100%. Ergo: kröfuhafar urðu að sætta sig við samninga þar sem þeir fengju skertan hlut krafna sinna, en ákveðnir aðilar fengju sitt að fullu. Breski skatturinn sagðist í prinsipinu ekki geta felt sig við slíkt (skiljanlega) og þar af leiðandi fékk hvert einasta lið sem fór úr greiðslustöðvun stigafrádrátt. (Áður höfðu sömu lið fengið stigafrádrátt fyrir að lenda í greiðslustöðvun.)

Luton fékk 20 stig í mínus frá ensku deildinni og tíu í viðbót frá enska knattspyrnusambandinu. Sú refsing var sett á í kjölfar þess að starfsmaður Luton Town hafði að fyrra bragði tilkynnt um misferli fyrri eigenda, sem horfnir voru frá félaginu. Mótið hófst því með 30 stig í mínus, sem mun vera met í knattspyrnusögunni. Að kalla Luton-menn bitra yfir þessum málalokum er understeitment áratugarins. Fjölmargir stuðningsmenn hafa upp frá þessu snúist alfarið gegn enska landsliðinu og halda alltaf með andstæðingum þess. Það er harka!

Ekkert lið á séns með 30 stig í mínus. Þriðja árið í röð féll Luton og fór niður í utandeildina eftir meira en aldardvöl í deildarkeppninni. Þar máttum við dúsa í fimm ár. Fimm löng og frústrerandi ár, sem þó hafa gert ótrúlega mikið fyrir stemninguna og samheldnina meðal stuðningsmannanna.

Leiktíðin 2008-09 var langdregin aftaka. Margir höfðu á orði að hreinlegra hefði verið að fella okkur beint niður um deild og leyfa Luton að byrja mótið þar á núll stigum, frekar en að láta leikmenn og stuðningsfólk engjast í heilt ár að bíða eftir hinu óumflýjanlega.

Og við höfðum allt lánleysi fallkandídatanna. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fengum við á okkur jöfnunarmörk, sigurmörk eða hvort tvegga á lokamínútunum. Enn oftar kom þó eitthvert skítamarkið á upphafsmínútunum og síðan ekki söguna meir allt til loka.

Nema í keppninni um málningardósina. Þar tókst Luton að vinna Brentford á heimavelli í vítakeppni í fyrsta leik, sem var óvenjuleg lukka fyrir þetta keppnistímabil. Einhvern veginn unnum við Walsall úti og svo Colchester heima, hvort tveggja 1:0. Í úrslitum suðursvæðisins (mótið er landshlutaskipt) vann Luton svo Brighton á heimavelli og aftur í vítakeppni.

Og allt í einu var Luton komið á Wembley. Andstæðingarnir voru Scunthorpe, sem léku einni deild ofar og voru á fleygiferð upp í næstefstu deild. (Unnu sér þar sæti fáeinum dögum síðar, líka eftir úrslitaleik á Wembley.)

Það er merkileg hefð hjá Englendingunum að leika helst alla úrslitaleiki á Wembley og það þykir alltaf mikið ævintýri að spila þar. Stuðningsmenn Scunthorpe eru hins vegar fáir, eiga um langan veg að fara og áttu von á annarri og veigameiri Wembley-ferð innan skamms. Þeim tókst því varla að selja nema tíuþúsund miða.

Fábjánarnir hjá enska knattspyrnusambandinu ákváðu þó að skipta vellinum í tvennt, þannig að þegar Luton hafði selt sína fjörutíuþúsund miða og óskaði eftir fleirum, þá var ekki hægt að verða við þeirri ósk. Það taldist því uppselt á völlinn, þótt áhorfendurnir hefðu ekki verið nema 55 þúsund í allt. Stjórnendur Luton sögðust hæglega hefðu getað selt tíu til fimmtánþúsund miða í viðbót.

Og þegar Brian Mawhinney barón, formaður ensku deildarinnar og fyrrum ráðherra Íhaldsflokksins, gekk inn á völlinn að heilsa liðunum baulaði hver einn og einasti þessara fjörutíuþúsund Luton-manna á hann af sama krafti og þegar Bítlarnir hrópuðu niður Tarzan í kvæði Ómars Ragnarssonar. Dæmdari mann hef ég varla séð en íhaldsskarfinn með yfirgreidda skallann þykjast leiða hjá sér baul, hróp og svívirðingar fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar að reyna að heilsa leikmönnum með handabandi. Og Luton-leikmennirnir voru ekkert að gera honum lífið auðveldara með fleðulátum eða sýndarkurteisi – heldur réttu fram lúkurnar með fyrirlitningarsvip en virtu hann annars ekki viðlits.

Leikurinn var fínn, en samt man eiginlega enginn eftir neinu öðru en baulinu í byrjun. Scunthorpe komst yfir snemma leiks en ekki löngu síðar jafnaði maðurinn með stóra nafnið: Chris Martin (engin ættartengsl). Hann var um þessar mundir í láni frá Norwich en er víst hjá Derby núna.

Í seinni hálfleik kom Tom Craddock okkur í 2:1 og síðustu tuttugu mínúturnar var nauðvörn í teignum hjá Luton. Scunthorpe sótti linnulítið og það var farið að fara verulega um okkur á Ölveri. Á 88. mínútu jafnaði Scunthorpe og ekkert nema snilldarmarkvarsla Deans Brill (engin verðlaun fyrir að giska á uppáhaldsorðaleiki íþróttafréttamanna með nafnið hans) kom í veg fyrir úrslit réðust fyrir lok venjulegs leiktíma.

Mér fannst skrifað í skýin að leikurinn myndi tapast. Tapa ekki lið sem missa leiki niður á lokasekúndunum alltaf í framlengingu? En alveg í byrjun hennar kom löng sending innfyrir Scunthorpe-vörnina sem franski varamaðurinn Claude Gnapka elti. Gnapka var með varnarmann í bakinu og Scunthorpe-markvörðurinn hljóp langt út á móti, en einhvern veginn náði hann að teygja fram tána og vippa knettinum í fallegum boga í tómt markið.

Luton náði að verjast það sem eftir var, enda allur vindur úr leikmönnum beggja liða. Við unnum málningardósina og til að bögga ensku deildina enn frekar sóttum við formlega um að fá að reyna að verja hana árið eftir sem utandeildarlið. Fólið Mahwhinney sagði nei.

(Mörk Luton: Chris Martin, Tom Craddock. Mörk Scunthorpe: Gary Hooper, Grant McCann)