Fótboltasaga mín 69/100: Veislustjórinn

3. október 2009. Fram 2 : Breiðablik 2 (6:7 eftir vítakeppni og bráðabana)

Ég tek ekki að mér veislustjórnun. Á síðustu árum hef ég nokkrum sinnum fengið fyrirspurnir um hvort ég væri til í að veislustýra fyrir hina eða þessa. Oft hafa góð laun verið í boði og yfirleitt svart. Ég hef alltaf neitað.

Ég er til í að vera ræðumaður. Semja ræðu og flytja hana á fyrirframákveðnum stað í dagskránni. Það er afmarkað verkefni með skilgreindan upphafs- og lokapunkt og ég geri það ágætlega. Veislustjórinn þarf hins vegar að hafa áhyggjur af því hvort eldhúsið sé tilbúið með súpuna á réttum tíma, stoppa af leiðinlega veislugesti og redda stemningunni ef eitthvað fer öðruvísi en ætlað var. Og svo þurfa veislustjórar helst að segja brandara. Brandarar eru ömurlegasta tegund fyndni.

Auðvitað kemur fyrir að ég segi já. En það er þá bara fyrir vini mína og ættingja – aldrei fyrir borgun. Þannig var ég veislustjóri þegar Valur félagi minn og Laufey giftust. Líka þegar Ólína, amma Steinunnar átti stórafmæli.

Og svo eru það skiptin þegar Framararnir hringja.

Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur Fram haft samband og beðið um ræðu eða greinarstúf. Ég reyni að hjálpa þegar ég mögulega get. Mér finnst ég þannig eiga aðeins meira í því þegar vel gengur. Eins og ég eigi einhvern þátt í starfinu annan en að borga ársmiðann og norpa á útivelli í Grindavík í enn einum tapleiknum.

Skömmu fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Breiðablik haustið 2009 fékk ég hringingu. Stjórnarmaður í knattspyrnudeildinni bað mig um að veislustýra í lokahófi deildarinnar, sem færi fram sama kvöld og úrslitaleikurinn. Búið væri að reyna alla aðra möguleika og ég yrði að redda þeim. Og ég sagði já.

Ég var á kafi í vinnu eða öðrum verkefnum og gat því lítið hugsað um hvað segja skyldi. Rétt daginn áður gaf ég mér tíma í undirbúning, en var þá orðinn svo stressaður fyrir leiknum að ekkert annað komst að.

Fram hafði tapað þremur síðustu bikarúrslitaleikjum sínum: gegn KR, Fylki og Val. En í þau skiptin voru andstæðingarnir alltaf taldir sigurstranglegri fyrirfram. Að þessu sinni var jafnt á með liðum komið. Fram hafnaði í fjórða sæti en Blikar í því fimmta með sömu stigatölu. Deildarleikjunum lauk báðum með jafntefli, 1:1 og 3:3 í makalausum leik.

Leikdagurinn rann upp og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að segja um kvöldið. Það var líka minnsta áhyggjuefni mitt. Ég gat bara hugsað um leikinn og hvort Fram tækist að vinna fyrsta stóra titilinn frá 1990…

Alfreð Finnbogason kom Blikum yfir um miðjan seinni hálfleik en Ingvar Ólason af öllum mönnum jafnaði skömmu síðar. Þetta var síðasta tímabil Ingvars hjá Fram. Hann var einn af síðustu geirfuglunum – leikmönnunum sem maður var vanur frá níunda áratugnum – sem voru líklegri til að drífa sig út úr klefanum til að ná sígarettu á bílaplaninu með stuðningsmönnunum en að pjatta sig fyrir framan spegilinn með greiðuna og þrjár ólíkar tegundir af hárgeli að vopni.

Leikurinn fór í framlengingu. Framarar fengu víti og Sam Tillen skoraði af öryggi. Hjartað tók kipp, en aftur þurfti helvítið hann Alfreð að skora, 2:2, úr soft víti. Á lokasekúndunni fékk Guðmundur Magnússon fáránlega gott færi til að klára leikinn, en skotið fór einhvern veginn röngu meginn við stúkuna. Eitthvað segir mér að ferill hans hefði þróast öðru vísi ef boltinn hefði rúllað örfáa sentimetra í hina áttina.

Guðmundi tókst hins vegar að skora í vítakeppninni. Það gerðu líka Tillen-bræðurnir og Ingvar Óla. Hjálmar Þórarinsson lét verja frá sér. Þetta sumar skoraði hann sjö mörk fyrir Fram og var á góðum degi flottasti senter deildarinnar. Þess á milli datt hann niður í meðalmennsku.

Hannes varði eitt vítið frá Blikunum og gripið var til bráðabana. Fyrsti Blikinn skoraði og þá var komið að Paul McShane. Öfugt við flest hinna vítanna hafði ég engar áhyggjur. Paul var alltaf að fara að skora, á sama hátt og Sam. En nei – Paul negldi upp í markslá og niður… boltinn lenti á línunni… og út.

Blikar ærðust en við Framararnir stóðum stjarfir í stúkunni. Ég var dofinn, eiginlega frekar í losti en svekktur, sár eða reiður. Við Valur löbbuðum þegjandi á barinn, ef ég man rétt og drukkum hvor sinn bjórinn í þögn. Kvöddumst svo þegjandalegir. Hann fór heim að sleikja sárin… en ég mundi smátt og smátt eftir giggi kvöldsins.

Ég mætti snemma í Framheimilið, þar sem öllum leið eins og mér. Eftir einhvern tíma hafði ég rænu á að spjalla við veitingamanninn og náði einhvern veginn að koma frá mér mikilvægustu praktísku upplýsingum – en bröndurum var ekki til að dreifa. Sumum strákanna tókst að slá á létta strengi og það voru skemmtiatriði… en ég var úti á þekju allan tímann. Muna: ekki ráða veislustjóra í taugaáfalli.

(Mörk Fram: Ingvar Þór Ólason, Sam Tillen. Mörk Breiðabliks: Alfreð Finnbogason 2)