Fótboltasaga mín 72/100: Beysi

21. september 2001. KA 0 : Fram 3

Sumarið 2002 var skemmtilegt. Það var gaman í vinnunni, þar sem við Ólafur Guðmundsson heitinn vorum á fullu að byggja upp Rafheima. Ég var á kafi í félagsmálunum, bæði að rífa kjaft um pólitík á vefritinu Múrnum og svo í friðarbaráttunni – mikið til með sömu mönnum. Það var mikið djammað og alltaf endað á Næsta bar, með viðkomu á Kebabhúsinu eftir lokun. Á hæðinni fyrir ofan mig bjó félagi Steinþór Heiðarsson sem var ætíð til í að líta niður í pólitísk plott og á hæðinni fyrir neðan mig bjó félagi Valur Norðri, formaður húsfélagsins, sem átti alltaf úrvals viský.

Ég bloggaði líka eins og berserkur. Þarna um haustið datt mér í hug að lýsa því yfir á síðunni minni að ég væri „besti og frægasti bloggarinn“, með þeim rökum að sá titill lægi á lausu þar sem enginn hefði helgað sér hann. Hálfum mánuði seinna var ég kallaður í sjónvarpið ásamt Salvöru Gissurardóttur til að ræða um fyrirbærið blogg. Ég var stoppaður af fólki á götum úti og spurður hvernig maður ætti eiginlega að fara að því að blogga. (Ókey, kannski ekki stoppaður á götum úti – en spurður af stelpu sem var að afgreiða mig í Ríkinu.)

Og svo átti ég kærustu. Við Steinunn vorum kærustupar en ekki þessi ráðsettu miðaldra hjón sem síðar varð. Það var ákveðinn sjarmi yfir að þurfa að ákveða í lok hvers kvölds hvort við ætluðum að trítla á Mánagötuna til hennar eða á Hringbrautina til mín.

Í fótboltanum héldu Framararnir manni hins vegar við efnið. Við vorum meistarar fallbaráttunnar á þessum árum. Drógumst niður í harða fallbaráttu nánast óháð því hvort mannskapurinn væri veikur eða sterkur, en redduðum okkur oftast nær í síðustu umferð. 2002 var eitt af þessum árum.

Þetta var reyndar skrítið Íslandsmót. Fylkir og KR slógust ein um titilinn. Eftir fjórtán umferðir af átján skildu hins vegar bara fjögur stig að liðið í fimmta sæti, FH og botnlið Þórs, Fram og ÍBV.

Fram tapaði naumlega fyrir KR og gerði jafntefli við Skagamenn í næstu tveimur leikjum. Það mátti því heita ljóst að við yrðum að vinna tvo síðustu leikina, gegn FH á heimavelli og KA á útivelli. Jafnvel þau úrslit kynnu ekki að duga.

Leikurinn gegn FH var fáránlegur. Þorbjörn Atli skoraði á fyrstu mínútu. FH skoraði þrjú næstu mörk, áður en Bjarni Hólm minnkaði muninn fyrir hlé. Í seinni hálfleik Jafnaði Kristján Brooks, maðurinn sem kunni bæði á talhólf og internetið, en FH komst í 3:4 og við í raun fallnir þegar kortér var eftir. Andri Fannar jafnaði og svo braut einn FH-ingurinn á Bjössa (minnir reyndar að það hafi verið soft víti) og Gústi Gylfa skoraði 5:4. Hvílíkur leikur!

Fyrir lokaumferðina var staðan því þessi: Keflavík var í fallsætinu með átta mörk í mínus. Fram með jafnmörg stig og sjö mörk í mínus. Þá voru Framarar með fleiri mörk skoruð. Keflavík hélt til Grindavíkur, sem var í þriðja sæti og hafði ekki að neinu að keppa – ekki frekar en KA sem var í fjórða sæti og tók á móti okkur Frömurum.

Ég reyndi að tala fyrir því innan félagsins að efnt yrði til rútuferðar norður, öðrum þræði til að geta drukkið bjór á leiðinni. Það gekk ekki eftir og við Valur húsfélagsformaður ókum snemma af stað. Eða öllu heldur – Valur ók. Ég kunni þó ekki við að taka með mér bjór af tillitsemi við bílstjórann.

Það voru pylsustopp á mikilvægustu stöðum. Geisladiskarnir í ferðinni hafa væntanlega flestir verið með Smiths og Morrissey. Og á tíu mínútna fresti sagði annar okkar upp úr eins manns hljóði: „Við veeerðum að vinna þetta!“; „Ég meika það ekki að keyra heim ef við töpum!“; „Djöfull hef ég vonda tilfinningu fyrir þessum leik…“

Samkvæmt opinberum tölum voru 322 á leiknum. Framarar í meirihluta. Kristinn Jakobsson dæmdi. Það hefur mér sjaldnast þótt góð tíðindi. Hins vegar var augljóst að KA-menn voru andlega búnir að ljúka keppni þetta árið. Þeir gátu hvorki lent ofar né neðar í þessu fjórða sæti. Hvernig þetta lið gat hafnað svona ofarlega er raunar en nein skrautfjöðrin í hatt Þorvaldar Örlygssonar.

Framarar sóttu frá byrjun og eftir tæpar tuttugu mínútur var Bjössi felldur í teignum. Gústi Gylfa tók vítið og skoraði. Kunnugleg uppskrift. Eftir markið voru allir frekar rólegir. Grindavík komst yfir gegn Keflvíkingum skömmu síðar, svo efstudeildarsætið virtist tryggt. Það var létt yfir öllum í hálfleik. Hálfgerður ættarmótsfílingur þar sem Framarar og KA-menn skiptust á hrósyrðum. Við skjölluðum þá fyrir góða frammistöðu og þeir sögðust miklu frekar vilja okkur uppi en helvítis Keflvíkingana, sem var lygi. Landsbyggðarfólk heldur ALDREI með Reykjavíkurfélögum. Það styður jafnvel FH á móti liðum frá Reykjavík og telur það byggðastefnu.

Þegar um kortér var liðið af seinni hálfleik komu fréttir úr Grindavík. Keflavík var búið að jafna. Við grettum okkur aðeins, en höfðum svo sem engar áhyggjur. Skömmu síðar skoraði Fram annað mark. Það gerði Beysi, Freyr Karlsson. Freyr var enginn sérstakur markahrókur, enda ekki til þess ætlast. Hann var leikstjórnandinn á miðjunni, en hafði ekki verið í byrjunarliðinu fjóra leiki á undan. Þetta var hans annað deildarmark um sumarið.

Freyr er einn af uppáhaldsfrömurunum mínum frá upphafi. Ástæðan var sú að ég fylgdist með honum strax í öðrum flokki í gegnum Gústa félaga minn, sem átti bróður í yngri flokkunum (eins og fram hefur komið). Það er líka einhvern veginn þannig í boltanum, að fólk hefur tilhneigingu til að sitja alltaf á sama stað á vellinum. Foreldrar Freys mættu á velflesta leiki og sátu nánast við hliðina á mér, svo maður hafði margoft spjallað við þau um gang mála.

Markið mikilvæga var úr föstu og góðu skoti af allnokkru færi. Frömurunum á pöllunum var gríðarlega létt. Nú væri leikurinn dauður og grafinn. Keflavík myndi aldrei skora svo mörg mörk í Grindavík að það dygði til! Það var því bara gleðilegur bónus þegar Beysi skoraði örfáum mínútum síðar annað mark, sem í minningunni var nákvæm endurtekning á því fyrra. 0:3, úrslit sem endurspegluðu gang leiksins ekkert sérstaklega vel.

Nánast um leið og Freyr breytti stöðunni í 0:3, komust Keflvíkingar yfir og örskömmu síðar breytti Guðmundur Steinarsson stöðunni í Keflavík í 1:3. Og þá fórum við að reikna… Nú þyrfti þriggja marka sveiflu. Fjandinn, það færi þó ekki að gerast.

Einhver var með vasaútvarp á vellinum. Við gátum því hlustað á innslög frá Grindavík þar sem gestirnir sóttu og sóttu, en náðu bara að skora eitt mark í viðbót, 1:4. Framarar voru uppi og Keflvíkingar fallnir.

Eftir vænan skammt af Siggi-Saggi, faðmlögum og siguröskrum stukkum við Valur upp í bílinn og ókum aftur af stað suður. Eða öllu heldur, Valur ók. Mitt framlag fólst í því að vera ekki að drekka bjór. Og við hlustuðum á útvarpið á milli þess sem við hrópuðum á tíu mínútna fresti: „Íha!“; „Þetta breytir öllu!“; „Einhvern veginn hafði ég alltaf góða tilfinningu fyrir þessum leik!“

Í útvarpinu var viðtal við Kjartan Másson þjálfara Keflvíkinga, sem var álíka hress og Geir Hallgrímsson í viðtalinu í nepjunni þegar Dr. Gunnar myndaði stjórnina með Framsókn og kommunum um árið. Kjartan lýsti því strax yfir að hér væri maðkur í mysunni. Hvernig í ósköpunum hefði Fram, fallbaráttulið, átt að geta unnið liðið í fjórða sæti á útivelli með þriggja marka mun??? – Sú staðreynd að hans eigið lið hafði stundarfjórðungi fyrr unnið liðið í þriðja sæti á útivelli með þriggja marka mun virtist ekki vefjast fyrir honum.

Við Valur hlógum eins og drýslar.

Við hlógum ekki jafn mikið þegar kom að fréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2, þar sem Guðjón Guðmundsson gerði upp leiki dagsins. Í stað þess að byrja umfjöllun sína um fallbaráttuna á að stinga upp á því að reist yrði stytta af Frey Karlssyni í fullri líkamsstærð úr gulli og sett smarögðum, varð Gaupi alvarlegur í röddinni. „KA-menn hvíldu átta leikmenn á móti Fram fyrir norðan frá síðasta leik!“ – Eitthvað á þessa leið byrjaði frásögnin. Í kjölfarið komu vangaveltur um íþróttamannslega hegðun og að Keflvíkingar hefðu fyllstu ástæðu til að vera sárir út í norðanmenn.

Uhh… hugsuðum við. Getur þetta verið rétt? Vissulega vorum við engir sérfræðingar í leikmannahópi KA, en liðið sem spilaði á móti okkur virtist ekkert sérstaklega laskað eða illa skipað. Það voru engin börn inná. Var Þorvaldur Örlygsson að reyna að hjálpa gömlum félögum? Og hvaða lógík væri á bak við að hvíla leikmenn í lokaumferð? Hvíla fyrir hvað???

Það var ekki fyrr en heim var komið að við gátum slegið því upp að byrjunarlið KA var það sama og í umferðinni á undan, fyrir utan Dean Martin sem var í banni. Fram og KA sendu frá sér reiðilegar yfirlýsingar vegna þessa og Gaupi mætti frekar lúpulegur í sjónvarpið daginn eftir og sagðist „hafa lesið það á einhverju bloggi að KA hefði hvílt mestallt liðið og þess vegna flutt fréttina…“

En um það leyti sem Framararnir og Akureyringar settust niður að semja yfirlýsingarnar, vorum við Valur komnir til Reykjavíkur og búnir að opna fyrsta bjórinn á JL-stadium. Miðað við kryptískar færslurnar á blogginu mínu mánudaginn eftir var það upphafið að móður allra þynnkuhelga.

(Mörk Fram: Ágúst Gylfason, Freyr Karlsson 2)